Eilífðarvélin alaskaösp. - Spennandi tilraun í Sandlækjarmýri

Ljóst þykir að íslenskur iðnviðarskógur með alaskaösp geti endurnýjast sjálfkrafa eftir rjóðurfellingu þannig að óþarft sé að gróðursetja aftur í skóginn. Ef öspin reynist vera slík „eilífðarvél“ í ræktun hérlendis eykur það til muna hagkvæmni asparskógræktar til framleiðslu viðarkurls. Mikil spurn er eftir viðarkurli hjá kísilmálmiðnaðinum og útlit fyrir að hún aukist mjög á næstu árum. Nú er verið að rjóðurfella hartnær aldarfjórðungs gamla ösp í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til að rannsaka hvernig hún endurnýjast upp af rót. Ræktun asparskógarins í Sandlækjarmýri hófst í byrjun tíunda áratugarins en þá höfðu Íslendingar litla reynslu af skógrækt með þessari tegund utan garða og trjálunda. Margir af eldri kynslóð skógræktarmanna voru afar svartsýnir og töldu að ösp gæti aðeins tórt með mikill umhyggju og stöðugri áburðargjöf. Engu að síður var ráðist í að gera áætlanir um trjávöxt á þessum stað fyrir iðnviðarverkefni. Allt virðist benda til þess að þessar áætlanir hafi fyllilega staðist tímans tönn og jafnvel gott betur. Skógurinn er líka mjög gróskumikill eins og vegfarendur geta séð sem aka Skeiðaveg í átt að Flúðum skömmu áður en kemur að brúnni yfir Stóru-Laxá eða Þjórsárdalsveg til austurs af Skeiðavegi.