Gaukshöfði

Gaukshöfði sem gnæfir úr Hagafjalli fram að Þjórsá ofan Haga. Höfðinn ber nafn af Gauki Trandilssyni bónda á Stöng og talið er að hann hafi verið veginn þar við Seggjasæti svo nefnt sem var sunnanmegin í höfðanum við gamla vegstæðið en er nú að mestu horfið.
Gaukur Trandilsson á Stöng var bæði auðugur og vel ættaður en hann var afkomandi Þorbjarnar laxakarls í þriðja lið og að sögn kappi hinn mesti. Gaukur hefur að líkindum verið kvennaljómi en gömul vísa er varðveitt um ástir Gauks og húsfreyjunnar á Steinastöðum í Þjórsárdal, svohljóðandi:

Önnur var öldin,
er Gaukur bjó á Stöng.
Þá var ei til Steinastaða
leiðin löng.

Þetta ástarævintýri hefur þó sennilega orðið honum að fjörtjóni en samkvæmt Njálssögu féll Gaukur fyrir hendi Ásgríms Elliða-Grímssonar fóstbróður síns, þar sem hann sat fyrir honum við Seggjasætið í Gaukshöfða. Að líkindum fyrir að hafa fíflað húsfreyjuna á Steinastöðum sem var einmitt skyld Ásgrími.

Gaukshöfði. Mynd tekin sunnan frá, af vegi sem lagður var úr efni úr aðrennlisgöngum Sultartangavirkjunarinnar.