Gönguleiðir

Gönguleiðir í hreppnum eru margar og fallegar, bæði merktar og ómerktar. Sumar þeirra krefja göngumenn um að vera í góðu formi, en aðrar eru til þess fallnar að alli geti verið með jafnt stórir sem smáir.

Í Selhöfða í Þjórsárdal eru merktar leiðir í gegnum skóginn og eru ágætis kortaskilti við bílastæði.

Aðrar leiðir eru til dæmis stikuð leið á milli Stangar í Þjórsárdal og Háafoss, þá leið er hægt að hafa mis erfiða eftir því hvoru megin gangan hefst.

Ögrandi ganga er upp á Vörðufell og krefst hún þess að göngumenn séu í sæmilegu formi. Uppi á Vörðufelli er afar víðsýnt og sést þaðan vel yfir Suðurland, til vestmannaeyja og langt á haf út. Vatn er uppi á Vörðufelli sem heitir Úlfsvatn.

Ástarbrautin svokallaða er við þéttbýliskjarnann í Árnesi. Er hún stutt og greiðfær leið sem liggur með Kálfá og allir geta gengið.

Vinsælt er að ganga Fossagöngu meðfram Þjórsá á afrétti Gnúpverja. Margir fossar eru í ánni allri svo auðveldlega væri hægt að eyða í það mörgum dögum að skoða fossa þar. Ferðafélag Íslands hefur boðið uppá göngu meðfram Þjórsá þar sem t.d. er lagt af stað frá Dynk og gengið niður að Gljúfurleit.

Hér - er hægt að finna gönguleiðakort sem gert var 2016 og sýnir nokkrar af þeim leiðum sem nefndar eru hér