- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi, 29. október 2025
Fundargerð:
78. sveitarstjórnarfundur
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla oddvita á 78. sveitarstjórnarfundi
Oddviti fer yfir þau verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
2. Fjárhagsáætlun 2025 - Útkomuspá 2025
Lögð fram útkomuspá fyrir árið 2025. Áætlun ársins 2025 gerði ráð fyrir miklum framkvæmdum og fjárfestingum. Reksturinn gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir og fjárfestingar hafa gengið eftir áætlun. Áætluð rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 143,4 milljónir.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir útkomuspá vegna ársins 2025
3. Gjaldskrá og álagningarforsendur 2026
Lögð fram drög að breytingum á gjaldskrám og álagningarforsendum fyrir árið 2026. Lagt er upp með að útsvarsprósenta verði óbreytt og engin verðskrá hækki umfram 3,5%
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að gjaldskrár verði til grundvallar á vinnufundi fjárhagsáætlanagerðar og samþykkir sveitarstjórn með fimm atkvæðum að vísa gjaldskrám til síðari umræðu.
4. Fjárhagsáætlun 2026 og 2027-2029 - fyrri umræða
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og 2027-2029 lögð fram til fyrri umræðu. Farið var yfir helstu forsendur fjárhagsáætlunar og drög að fjárfestingaráætlun. Fyrir liggja vinnufundir sveitarstjórnar um fjárhagsáætlun á milli umræðna.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun vegna ársins 2026 og áranna 2027-2029 til síðari umræðu.
5. Samningur um ferðaþjónustu fatlaðra
Lagður fram samningur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir milli Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Skaftholts sjálfseignarstofnunar. Markmið samningsins er að gera þjónustunotendum kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Samningurinn miðar að því að Skafholt sjái um aksturþjónustu fyrir íbúa sem eiga lögheimili í Skaftholti og njóta stuðningsþjónustu, allt í samræmi við 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagðan samning og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn.
6. Erindi frá Vatnsveitufélaginu Suðurfall ásamt stöðu kaldavatnsveitna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Lagt fram erindi frá Vatnsveitufélaginu Suðurfall, en á aðalfundi félagsins var samþykkt samhljóða að óska eftir því við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að taka yfir veituna, allar eignir, skuldir, réttindi og skyldur félagsins. Engar skuldir hvíla á veitunni. Með því móti verði hægt að tryggja betri rekstur á veitunni og að uppbygging veitunnar til framtíðar sé tryggður. Í minnisblaði oddvita sem lagt er fram við afgreiðslu málsins kemur fram veitan hóf starfsemi árið 1962 með virkjun á lind í Framneslandi. Tveir miðlunartankar eru ásamt því að dreifikerfið er u.þ.b. 25 km. Yfirtaka sveitarfélagsins á Vatnsveitufélaginu Suðurfalli skapar tækifæri til þess að byggja upp öflugri vatnsveitu með dreifikerfi sem liggur í gegnum allt sveitarfélagið og þjónustar íbúa bæði í þéttbýlinu og dreifbýlinu. Með þeim hætti yrði tryggð örugg og áfallaþolin vatnsveita til framtíðar.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að taka yfir Vatnsveitufélagið Suðurfall, kt. 570102-3540, allar eignir, skuldir, réttindi og skyldur félagsins. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.
7. Erindi frá Flóahreppi varðandi söfnun, flutning og brennslu á dýrahræjum
Lagt fram erindi frá sveitarstjóra Flóahrepps þar sem lýst er yfir áhuga og vilja til að eiga í samstarfi um söfnun, flutning og brennslu á dýrahræjum. Með þeim aðferðum sem sveitarfélagið hyggst fara er ljóst að farvegurinn verður réttur allt frá söfnun og til förgunar og augljós ávinningur fyrir alla að stytta vegalengdir enda hefur kostnaður aukist gríðarlega undanfarið vegna þeirrar vegalengdar sem flytja þarf úrganginn. Sveitarstjórn Flóahrepps óskar eftir að gerð verði viljayfirlýsing sem myndi síðar leiða til samnings à milli sveitarfélaganna tveggja um söfnun, flutning og förgun á dýrahræjum. Magn dýrahræja í Flóahreppi síðustu ár hefur verið 80-100 tonn á ári.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur jákvætt í erindi Flóahrepps og sá búnaður sem sveitarfélagið vinnur í að setja upp og taka í notkun á komandi vikum afkastar allt að 500 tonnum á ári. Núverandi magn dýrahræja í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er um 120 tonn á ári svo nægt svigrúm til að taka við öllu magni dýrahræja frá Flóahreppi. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að ganga frá viljayfirlýsingu um samstarf, með það að markmiði að gera samning um söfnun, flutning og förgun á dýrahræjum. Sveitarstjóra falið að ganga frá viljayfirlýsingu við Flóahrepp.
8. Farsældarráð á Suðurlandi
Lögð fram til kynningar fyrir sveitarstjórn samstarfsyfirlýsing að stofnun farsældarráðs á Suðurlandi ásamt skipuriti.
9. Samantekt úr vinnustofu um skráningu lögheimilis í frístundabyggð
Lagt fram til kynningar fyrir sveitarstjórn minnisblað frá Sambandinu er varðar samantekt úr vinnustofu um skráningu lögheimilis í frístundabyggð.
10. Skeiðalaug á 50 ára afmæli 15. nóvember 2025
Þann 15. nóvember 2025 verður 50 ára afmæli Skeiðalaugar. Síðustu þrjú ár hefur Skeiðalaug verið endurbyggð og betrumbætt ásamt því að bætt hefur verið við líkamsræktaraðstöðu. Aukinn opnunartími, sem er alla daga vikunnar frá 16-22 hefur stóraukið aðsóknina.
Lagt er til að efnt verði til afmælishátíðar með hátíðardagskrá og að auglýst verði ókeypis í Skeiðalaug þennan dag.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að efna til sérstakar afmælishátíðar í Skeiðalaug og að ókeypis aðgangur verði í tilefni afmælisins. Forstöðumanni Skeiðalaugar falið að undirbúa og auglýsa 50 ára afmæli Skeiðalaugar.
11. Tónlistarskóli Árnesinga sjötugur - Hátíðartónleikar Laugarvatni 15. nóvember
Lagt fram boðsbréf á 70 ára afmælistónleika sem fara fram í íþróttahúsinu á Laugarvatni laugardaginn 15. nóvember kl. 14:00.
12. Fundargerð 312. fundar skipulagsnefndar
Nethóll (L239317); byggingarleyfi; einbýlishús - 2510026
Móttekin var umsókn þann 10.10.2025 um byggingarleyfi fyrir 270 fm einbýlishúsi með innbyggðri bílageymslu á landinu Nethóll L239317 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
13. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 25-236
Fundargerð lögð fram til kynningar.
14. Fundargerð aðalfundar Afréttamálafélags Flóa- og Skeiða 22. mars 2025
Fundargerð lögð fram til kynningar.
15. Fundargerð 627. fundar stjórnar SASS
Fundargerð lögð fram til kynningar.
16. Fundargerð 986. fundar stjórnar Sambandsins
Fundargerð lögð fram til kynningar.
17. Fundargerð stjórnar SVÁ frá 13. október 2025
Fundargerð lögð fram til kynningar.
18. Fundargerð 88. fundar stjórnar Bergrisans bs.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
19. Fundargerð Almannavarnarnefndar Árnessýslu frá 15. október 2025
Fundargerð lögð fram til kynningar.
20. Fundargerð 337. fundar stjórnar SOS
Fundargerð lögð fram til kynningar.
Fundi slitið kl. 12.12
Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 19. nóvember, kl. 9.00, í Árnesi.
Fundargerð undirrituð rafrænt.