Sveitarstjórn

77. fundur 15. október 2025 kl. 09:00 - 12:05 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla oddvita á 77. sveitarstjórnarfundi

Oddviti fer yfir verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.

 

2. Opnun tilboða í loftræstikerfi í íþróttamiðstöð í Árnesi

Útboð vegna verksins íþróttamiðstöð í Árnesi, „Loftræsting“ birt til auglýsingar þann 26. september 2025 á vefsíðu sveitarfélagsins og útboðsvef, sameiginlegs auglýsingavettvangs opinberra innkaupa. Útboðsgögn voru afhent á rafrænu formi frá og með föstudeginum 26. september 2025. Skilafrestur tilboða var til kl. 10:00 hinn 13. október 2025. Kostnaðaráætlun verksins var 78.000.000 kr. Eitt tilboð barst í verkið frá ÞH Blikk ehf., kt. 580196-3149 að upphæð 71.237.440 kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að taka tilboði ÞH Blikk ehf, kt. 580196-3149 í verkið „Loftræsting“ og felur sveitarstjóra að ganga frá samningum.

 

 

3. Jafnlaunavottun viðhaldsúttekt 2025

​Lögð fram til kynningar fyrir sveitarstjórn skýrsla BSI á Íslandi vegna viðhaldsúttektar á jafnlaunakerfi sveitarfélagsins, auk fundargerðar frá rýnisfundi stjórnenda hinn 24.09.2025.

Niðurstaða launagreiningar er frávik 2,3% konum í vil og fylgni á milli starfaflokkunar og þeirra launa sem greidd eru 97,6%. Það er mat úttektaraðila að jafnlaunakerfi sveitarfélagsins sé hannað til að ná markmiðum og stefnu skipulagsheildarinnar í jafnlaunamálum. Engin frábrigði komu fram í úttektinni og staðfesti úttekt virkni jafnlaunakerfisins. Áframhaldandi vottun er því staðfest.

 

4. Málstefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2025-2029

​Lögð fram til síðari umræðu málstefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps eftir umfjöllun í nefndum og stofnunum sveitarfélagsins. Athugasemdir komu frá Velferðar- og jafnréttisnefnd, Menningar- og æskulýðsnefnd og starfsfólki Þjórsárskóla og hefur verið tekið tillit til þeirra athugasemda.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum málstefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2025-2029.

 

Bjarni Hlynur Ásbjörnsson situr hjá við afgreiðslu málsins.

 

5. Vegna afturköllun lóðaúthlutunar Skólabraut (1a-1b og 3a-3b)

Lagt fram erindi frá lóðahöfum Skólabrautar 1a-1b og 3a-3b er snýr að afturköllun sveitarstjórnar á lóðaúthlutuninni þar sem lóðarhafi hefur ekki hafið framkvæmdir innan tilskilins frest. Óskað er eftir möguleika á framlengingu frestar til afturköllunar lóðanna á þeim forsendum að hönnunargögn til umsóknar byggingarleyfis eru langt komin og fyrirhugað að verði klár til afhendingar samhliða stofnun byggingarleyfisumsóknar fyrir lok októbermánaðar og þá upphaf jarðvinnu fyrirhugað á vormánuðum 2026.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að ekki sé hægt að verða við óskum um frestun afturköllunar á lóðaúthlutun. Búið er að tilkynna um afturköllun þar sem engar framkvæmdur voru hafnar í samræmi við reglur um lóðaúthlutun Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Að lokinni afturköllun lóðanna verða þær auglýstar aftur til úthlutunar í samræmi við reglur um lóðaúthlutun.

 

6. Trúnaðarmál

​Fært í trúnaðarmálabók.

 

7. Beiðni um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar

Lögð fram umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega við Gestastofu og smáhýsabyggð við Selhöfða í Þjórsárdal sem falla utan við vegalagningu Gestastofunnar á landnúmeri L238511 og hefur þegar verið heimiluð með byggingarleyfi gestastofnunnar. Vegir sem sótt er um eru sýndir með gráum litatóni á meðfylgjandi uppdrætti frá Landslagi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega við Gestastofu og smáhýsabyggð við Selhöfða í Þjórsárdal í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt.

 

8. Samstarfssamningur félagsmiðstöðin Zero

​Árið 2010 var gerður samstarfssamningur milli sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Hrunamannahrepps um samstarf vegna félagsmiðstöðvarinnar Zero. Með breytingu á skólastarfi í Þjórsárskóla yfir í heildstæðan grunnskóla 1-10 bekkjar hafa forsendur fyrir sameiginlegum rekstri félagsmiðstöðvar á Flúðum breyst. Í janúar 2025 hóf félagsmiðstöðin Ztart starfsemi sína í kjallara Þjórsárskóla þar sem aðstaða fyrir starfið er til fyrirmyndar. Starfið í Ztart hefur gengið vel og er vel sótt af ungmennum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Lagt er til að sameiginlegum samningi við rekstur félagsmiðstöðvarinnar Zero verði sagt upp en horft verði áfram til samstarfs á þessum vettvangi á grundvelli sameiginlegra viðburða og heimsókna á milli félagsmiðstöðva í Uppsveitum. Uppsagnarákvæði í samningnum er 6 mánuðir þó miða skuli við að uppsögn taki ekki gildi fyrr en í lok hvers skólaárs.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að segja upp samningi við rekstur félagsmiðstöðvarinnar Zero. Sveitarstjórn þakkar farsælt samstarf og horfir jákvæðum augum til samstarfs á þessum vettvangi á grundvelli sameiginlegra viðburða og heimsókna á milli félagsmiðstöðva í Uppsveitunum.

 

9. Úrskurður Umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2025.

​Úrskurður Umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2025 lagður fram til kynningar.

 

10. Háskólalestin í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi.

​Lagt fram erindi er varðar Háskólalest Háskóla Íslands sem verður á ferðinni með lifandi vísindafræðslu fyrir sveitarfélögin í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi dagana 19. og 20. nóvember nk., og stendur fyrir Opnu vísindahúsi þann 22. nóvember. Meginmarkmið Háskólalestarinnar er að kynna vísindi á fjölbreyttan hátt, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl við landsbyggðina. Óskað er eftir stuðningi við heimsóknina með einhverjum hætti, t.d. með aðgangi að sundlaugum, söfnum eða öðru.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að styðja við Háskólalest Háskóla Ísland með ókeypis aðgangi að sundlaugum sveitarfélagsins, hvort sem er í Skeiðalaug eða Neslaug.

 

11. Kvennaverkfall 50 ára

Lagt fram bréf frá Kvennréttindafélagi Íslands þar sem minnt er á að þann 24. október 2025 verða 50 ár liðin frá sögulegum Kvennafrídegi þar sem 90% íslenskra kvenna lögðu niður störf sín, launuð og ólaunuð til að mótmæla kynbundnum launamun og ólaunaðri vinnu kvenna. Að þessu tilefni hafa á sjötta tug samtaka kvenna, femínista, hinsegin fólks og fatlaðs fólks lýst árið 2025 Kvennaár. Kröfugerð var send á stjórnvöld þann 24. október í fyrra og má lesa kröfurnar á síðunni Kvennaar.is.

 

12. Fundargerð 311. fundar skipulagsnefndar

Áshildarvegur 25 L214268 og Áshildarvegur 27 L230676; Breytt lóðarmörk og stærð lóðar; Deiliskipulagsbreyting - 2509076

Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til Áshildarvegar 25 L214268, Áshildarvegar 27 L230676 og Áshildarvegar borholu L225906 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í breytingunni felst að lóðarmörk Áshildarvegar 25 og 27 breytast og stærð Áshildarvegar 25 helst óbreytt en stærð Áshildarvegar 27 stækkar um 465 fm. Einnig færast byggingarreitir sem því nemur og verða 10 m frá lóðamörkum. Þá er afmörkun fyrir lóðina Áshildarveg borholu leiðrétt.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

 

 

13. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 25-235

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

14. Fundargerð 6. fundar velferðar- og jafnréttisnefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

15. Fundargerð 25. fundar Menningar- og æskulýðsnefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

16. Fundargerð 336. fundar stjórnar SOS

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

17. Fundargerð 128. fundar stjórnar UTU bs.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

18. Fundargerð stjórnar SVÁ frá 24.09.2025

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

19. Fundargerð 248. fundar Heilbrigðiseftirlit Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

20. Fundargerð 19. fundar stjórnar Byggðasafns Árnesinga

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

21. Fundargerð 985. fundar stjórnar Sambandsins

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

22. Fundargerð stjórnar Listasafns Árnesinga 29.09.2025

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12.05

Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 29. október, kl. 9.00, í Árnesi.

Fundargerð undirrituð rafrænt.