- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Mætt til fundar:
Haraldur Þór Jónsson oddviti, Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Gunnar Örn Marteinsson og Axel Á. Njarðvík.
Hrönn Jónsdóttir ritaði fundinn.
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera. Óskaði oddviti eftir að bæta einu máli á dagskrá, Ósk um að létta Gerði Stefánsdóttur störfum í sveitastjórn, og var það samþykkt með 5 atkvæðum og verður málið nr. 13 á dagskrá.
1. Skýrsla oddvita á 73. sveitarstjórnarfundi
Oddviti fer yfir verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
2. Beiðni um skólavistun utan lögheimilisskráningar
Lögð fram umsókn um greiðslu á skólavistun utan lögheimilisskráningar.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum greiðslu á skólavistun í samræmi við meðfylgjandi erindi fyrir skólaárið 2025-2026.
3. Fundarboð Aðalfundur Túns 2025
Aðalfundur Vottunarstofunnar Túns ehf verður haldinn þriðjudaginn 26. ágúst kl. 15:30 á Grand Hótel. Skipa þarf fulltrúa sem fer með atkvæðisrétt Skeiða- og Gnúpverjahrepps á fundinum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur Haraldi Þór Jónssyni, oddvita, með fimm atkvæðum, að fara með atkvæði Skeiða- og Gnúpverjahrepps á aðalfundi Vottunarstofunnar Túns ehf.
Bjarni Hlynur víkur af fundi.
4. Hússtjórn Þjóðveldisbæjarins
Guðmundur Finnbogason hefur verið formaður Hússtjórnar Þjóðveldisbæjarins sem fulltrúi Landsvirkjunar á núverandi skipunartímabili hússtjórnarinnar. Í ljósi breytinga, þar sem Guðmundur Finnbogason hefur látið af störfum hjá Landsvirkjun og tekið við sem skólastjóri Þjórsárskóla, mun Landsvirkjun skipa nýjan fulltrúa í hússtjórnina. Guðmundur hefur leitt stjórnina farssællega og er því lagt til að Bjarni H. Ásbjörnsson stígi til hliðar úr stjórninni og Guðmundur Finnbogason sitji áfram í Hússtjórn þjóðveldisbæjarins, nú sem fulltrúi Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 4 atkvæðum að skipa Guðmund Finnbogason sem fulltrúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Hússtjórn Þjóðveldisbæjarins.
Axel Á. Njarðvík vill taka það fram að hann telji enga ástæðu til að breyta þessari stjórn þó GF hafi skipt um starfsvettvang.
Bjarni Hlynur kemur aftur á fundinn.
5. Áform um atvinnustefnu á Íslandi til 2035
Í samráðsgátt stjórnvalda er Forsætisráðuneytið að kynna áform um atvinnustefnu til 2035 sem lýsir því hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði. Tilgangur vinnu að atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar er að móta stefnu, ásamt markmiðum og mælikvörðum, sem lýsir því hvernig stjórnvöld vilja vinna með atvinnulífinu og svarar því hvaðan hagvöxtur næstu ára skuli koma. Skilgreindar verða aðgerðir sem ríkistjórnin telur að ráðast þurfi í til að vinna að markmiðum stefnunnar.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fagnar áformum um atvinnustefnu fyrir Íslands en vill undirstrika mikilvægi þess að sveitarfélögin verði virkur þátttakandi í slíkri vinnu. Tryggja þurfi að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar sé unnin í sátt við nærsamfélagið, þá sérstaklega þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda sem hefur bein áhrif á nærsamfélagið.
6. Kynning á áhættumati Bárðarbungu
Bergur Einarsson frá Veðurstofu ísland kemur inn á fundinn í gegnum fjarfundarbúnað og kynnir nýtt áhættumat fyrir eldgoss í Bárðarbungu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar Bergi Einarssyni fyrir góða kynningu.
7. Viðbótargreinagerð v/ mál hjá Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála nr.134/2024 Hvammsvirkjun.
Lögð fram til kynningar sveitarstjórnar viðbótargreinagerð v/mál hjá Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála nr. 134/2024 Hvammsvirkjun.
Axel Á. Njarðvík bókar eftirfarandi um málið:
Mótmæli að álit sveitarstjórnarinnar er ekki eitt í þessu máli.
Bréf eru send eins og einhugur ríki um framgöngu, eins og málefnið eru framsett í bréfi Landslaga frá 18. júlí 2025 og bréfi Landslaga frá 13. ágúst 2025 og geymir afstöðu sveitarstjórnar um fyrirliggjandi kæru. Þessi afstaða var aldrei lögð fyrir sveitarstjórn til samþykktar eða synjunar og hlýtur slíkt að vekja furðu. Á það má benda, að með uppkveðnum dómi Hæstaréttar 9. júlí 2025 í máli nr. 11/2025 verður að álíta að forsendur hins kærða framkvæmdaleyfis hafi brostið. Umrætt skjal ber það með sér að sveitarstjórnin vill ekki lúta dómi Hæstaréttar og er það með öllu óskiljanleg afstaða sem framboðin er til æðsta dómstóls Íslands, sem er endanleg og bindandi niðurstaða í sérhverju máli, afstaða sem getur haft alvarlegar lagalegar afleiðingar.
8. Ákvörðun um veitingu bráðabirgðaheimildar fyrir Landsvirkjun vegna Hvammsvirkjunar
Lögð fram til kynningar sveitarstjórnar afgreiðsla Umhverfis- og orkustofnunar vegna bráðabirgða virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar.
9. Fundargerð 307. fundar skipulagsnefndar
Skriðufell L166597; Borhola SK-23; Frágangur, vatnslögn og vegagerð; Framkvæmdarleyfi - 2506104
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til Skriðufells L166597 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í framkvæmdinni felst frágangur borholu SK-23, bygging mannvirkis utan um hana og lagning vatnslagnar og vegslóða að Gestastofu í Þjórsárdal.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu vatnslagnar og vegslóða á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn bendir á að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir byggingu mannvirkis.
Axel Á. Njarðvík bókar eftirfarandi: Ég vil beina athygli að samhengi gæti verið milli þessarar borholu og borholu í Þjórsárholti og þarf því að gæta varúðar að þessi nýja gangi ekki á þá gömlu.
Hlemmiskeið 8 L179908; Hlemmiskeið 8A; Staðfesting á afmörkun og stofnun lóðar - 2507043
Lögð er fram umsókn ásamt undirritaðri merkjalýsingu dags. 10.03.2025, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar staðfestingu á hnitsettri afmörkun jarðar ásamt stofnun landeignar. Óskað er eftir að stofna 51.162 fm landeign, Hlemmiskeið 8A, úr jörðinni Hlemmiskeið 8 L179908 sem verður 35,62 ha eftir skiptin skv. meðfylgjandi merkjalýsingu. Þegar byggð mannvirki innan jarðarinnar færast öll yfir á nýju landeignina.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að gera ekki athugasemd við afmörkun og skiptingu jarðarinnar skv. fyrirliggjandi merkjalýsingu og samþykkir erindið
Hlemmiskeið 3 L166466; Hlemmiskeið 3D; Staðfesting á afmörkun og stofnun lóðar - 2507042
Lögð er fram umsókn ásamt undirritaðri merkjalýsingu dags. 20.06.2025, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar staðfestingu á hnitsettri afmörkun jarðar ásamt stofnun landeignar. Óskað er eftir að stofna 20,3 ha landeign, Hlemmiskeið 3D, úr jörðinni Hlemmiskeið 3 L166466 sem verður 27,8 ha eftir skiptin skv. meðfylgjandi merkjalýsingu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að gera ekki athugasemd við afmörkun og skiptingu jarðarinnar skv. fyrirliggjandi merkjalýsingu og samþykkir erindið.
Langamýri spilda L209076; Íbúðarhús og hesthús; Deiliskipulag - 2504014
Lögð er fram, eftir auglýsingu, tillaga nýs deiliskipulag sem tekur til Löngumýrar spildu L209076 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í deiliskipulaginu felst m.a. að skilgreindur er byggingarreitur fyrir íbúðarhús og hesthús auk aðkomu að svæðinu. Umsagnir bárust á auglýsingartíma og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt viðbrögðum við þeim og uppfærðum gögnum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Gunnbjarnarholt L166549; Breyttur byggingarreitur, byggingarmagn og mænishæð; Deiliskipulagsbreyting - 2508035
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til Gunnbjarnarholts L166549 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Deiliskipulagsbreytingin nær til byggingarreits B2 þar sem fyrirhuguð er breyting á byggingarreit, hámarksbyggingarmagni og hámarksmænishæð byggingar.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu þar sem ekki er um aðra hagsmunaaðila að ræða en umsækjenda.
10. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 25-232
Fundargerð lögð fram til kynningar.
11. Fundargerð 624. fundar stjórnar SASS
Fundargerð lögð fram til kynningar.
12. Fundargerð 246. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands.
Fundargerð lögð fram til kynningar.
13. Ósk um að létta Gerði Stefánsdóttur störfum í sveitastjórn
Lagt fram erindi frá Gerði Stefánsdóttur um framlengingu á leyfi frá störfum í sveitarstjórn vegna veikinda.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að létta af Gerði Stefánsdóttur störfum í samræmi við 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 til 15. nóvember 2025. Axel Árnason Njarðvík tekur við sæti Gerðar Stefánsdóttur sem aðalmaður U-lista í sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Fundi slitið kl. 11.22
Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 3. september, kl. 9.00, í Árnesi.
Fundargerð undirrituð rafrænt.