- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Árnesi, 18. júní 2025
70. sveitarstjórnarfundur
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Ný afstaðin sveitahátíð Upp í sveit var vel skipulögð, til fyrirmyndar og tókst mjög vel til. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vill þakka þeim sem komu að hátíðinni kærlega fyrir þeirra framlag og sérstaklega menningar- og æskulýðsnefnd sveitarfélagsins, þeim Sáru Herczeg, Ástráði Unnari Sigurðssyni og Hrönn Jónsdóttur en þau hafa borið þungann af undirbúningi, utanumhaldi og vinnu við hátíðina.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla oddvita á 70. sveitarstjórnarfundi
Oddviti fer yfir verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
2. Rekstrarskýrsla janúar-apríl 2025
Rekstrarreikningur sveitarsjóðs Skeiða- og Gnúpverjahrepps og B hluta fyrirtækja fyrir 1.janúar - 30.apríl 2025 lagður fram til kynningar sveitarstjórnar. Rekstrarreikningurinn sýnir rekstrarafgang að fjárhæð 43 millj kr. eftir afskriftir og fjármagnsliði. Framkvæmt hefur verið fyrir 125 milljónir á tímabilinu, en framkvæmdir hafa verið í Þjórsárskóla, nýrri íþróttamiðstöð í Árnesi, Skeiðalaug og nýju verknámshúsi í Árnesi ásamt endurnýjun bifreiðar í áhaldahús og nýrri hreinsistöð í fráveitu. Engin lán hafa verið tekin á árinu. Undirliggjandi rekstur er á áætlun og stöðugur líkt og áður en samhliða miklum fjárfestingum og framkvæmdum þarf þó að gæta ráðdeildar og fyrirhyggju.
3. Grænir skátar - Söfnunarkassar við grendarstöðvar
Grænir skátar hafa síðustu ár sinnt söfnun á skilagjaldsskyldum umbúðum í Uppsveitum Árnessýslu. Þessi söfnun er í góðri samvinnu við sveitarstjórnir og björgunarsveitir á svæðinu en hluti af skilagjaldi rennur beint til björgunarsveita á því svæði sem safnað er. Grænir skátar óska eftir að fá að staðsetja söfnunarkassa í Árnesi og Brautarholti. Í kössunum er skynjari sem mælir hvað mikið safnast, að jafnaði er reynslan sú að tæma þarf vikulega á sumrin en aðra hverja viku að vetri til.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að heimila Grænum skátum að staðsetja söfnunarkassa í Árnesi og Brautarholti til reynslu. Sveitarstjórn áréttar að hluti söfnunarinnar muni renna til björgunarsveitarinnar Sigurgeirs.
4. Veiðiréttur Fossá/Rauðá - Opnun tilboða
Tilboð í leigu á veiðirétti í Fossá og Rauðá í Þjórsárdal voru opnuð þann 5. júní kl. 10:00. Fimm tilboð bárust í veiðiréttinn og voru þau:
S2 Investment ehf., kt. 530922-1700 11.003.500 kr.
Iceland Outfitters ehf., kt. 630905-1920 6.600.000 kr.
Eyfjörð veiðiþjónusta ehf., 430920-1540 6.500.000 kr.
Bergis ehf., kt. 481013-0620 5.883.000 kr.
Flyfishing Iceland ehf., kt. 651113-0750 5.150.000 kr.
Öll tilboðin eru metin gild og samþykkir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps með fimm atkvæðum að taka hæsta tilboði í veiðiréttinn með fyrirvara um forleigurétt núverandi leigutaka. Samkvæmt leigusamningi við fyrri leigutaka á hann forleigurétt hafi hann uppfyllt skilyrði samningsins. Er fyrri leigutaka gefinn 7 daga frestur til að staðfesta að hann hafi uppfyllt samninginn m.a. með sleppingu laxa og gróðursetningu birkitrjáa skv. 8. gr. samningsins og hvort hann hyggist nýta forleigurétt sinn með því að ganga inn í hæsta boð.
5. Umsögn vegna áformaskjals um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga (skattlagning orkumannvirkja)
Lögð fram umsögn sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna áformaskjals sem er í samráðsgátt stjórnvalda um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga þar sem markmiðið er að afnema undanþágu rafveitna frá fasteignamatsskyldu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur oddvita að klára umsögnina í samræmi við umræðu á fundinum og senda á sveitarstjórn til staðfestingar.
6. Dagdvalarrými í uppsveitum Árnessýslu
Lögð fram tilbúin umsókn um dagdvalarrými fyrir aldraða í uppsveitum Árnessýslu ásamt minnisblaði og kynningu. Sveitarfélögin Bláskógabyggð, Grímsnes-og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða-og Gnúpverjahreppur óska hér með eftir því að fá heimild og fjármögnun samkvæmt reglugerð nr. 1245/2016 um dagdvöl aldraðra til að stofna og reka 8 dagdvalarrými fyrir aldraða eins fljótt og auðið er. Í upphafi yrði starfsemin staðsett í Brautarholti og Reykholti.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða umsókn um dagdvalarrými í Uppsveitum Árnessýslu og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.
7. Skil á lóð - Hamragerði 4
Lagt fram bréf frá lóðahafa Hamragerðis 4. Sveitarstjórn úthlutaði honum lóðinni að Hamragerði 4 á fundi sínum hinn 7. maí sl. Óskar lóðahafi eftir því að skila lóðinni.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að lóðinni Hamragerði 4 verði skilað. Sveitarstjóra falið að auglýsa lóðina til úthlutunar.
8. Umsagnarbeiðni vegna tækifærisleyfi
Lögð fram umsagnarbeiðni vegna tækifærisleyfis fyrir tónleikahald í Ásbrekku dagana 17. júlí, 18. júlí og 19. júlí.
Að mati sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps má ætla að tónleikahald í Ásbrekku kalli á bílaumferð sem verður nærri 60-100 bílar hvert skipti sem bæði koma og fara. Vegurinn er malarvegur og töluverð rykmyndun verður allan þennan spotta frá Hælisvegi og út í Ásbrekku. Umsækjandi um tækifærisleyfi þarf að tryggja að vegurinn sé bleyttur svo rykmyndun verði næst sem enginn þegar gestir koma og fara. Eins þarf að tryggja það að umferðarhraðinn yrði tekinn niður vegna annarrar notkunar dýra og manna á landsvæði sem vegurinn liggur um.
Að öðru leyti gerir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ekki athugasemdir við fyrirhugað tækifærisleyfi fyrir tónleikahald í Ásbrekku dagana 17-19. júlí 2025.
9. Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis - Strengur veiðihús
Lögð fram umsagnarbeiðni vegna umsóknar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki IV – A Hótel í Streng/veiðihúsi við Stóru Laxá.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við fyrirhugað leyfi til reksturs gististaðar í flokki IV – A Hótel.
10. Ósk um leigu á beitarstykkjum.
Óskað er eftir möguleika á því að leigja stykki í eigu sveitarfélagsins sem liggur frá Skaftholtsréttum og að Flötum fyrir útigang hrossa í sumar.
Í ljósi fyrri reynslu hefur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ákveðið að beitarstykkin verði ekki til útleigu, enda þyrfti slík útleiga að eiga sér stað í framhaldi af opnu útboði.
Axel Á. Njarðvík víkur af fundi.
11. Bónbréf um styrk til kaupa á flygli í Skálholtsdómkirkju
Lagt fram bréf frá Skálholtsdómkirkju um styrkbeiðni til kaupa á flygli í Skálholtsdómkirkju.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með þremur atkvæðum að veita styrk að upphæð 250.000 kr. til kaupa á flygli í Skálholtsdómkirkju. Styrkveitingin rúmast innan fjárhagsáætlunar.
Bjarni Hlynur Ásbjörnsson situr hjá við afgreiðslu málsins.
Axel Á. Njarðvík kemur aftur inn á fund.
12. Erindi frá Starkað félagi um skála á Gnúpverjaafrétti
Lagt fram bréf frá Starkaði, félagi um skála á Gnúpverjaafrétti, en félagið var stofnað í október 2024 með þau markmið að sjá um nauðsynlegt viðhald á húsum og hestahólfum í Tjarnarveri, Bjarnalækjarbotnum og Gljúfurleit í samstarfi við afréttarmálanefnd og sveitarstjórn.
Starkaður óskar eftir því að fá að sjá um að fara eftirlitsferðir í skála í eigu sveitarfélagsins sem staðsettir eru á Gnúpverjahreppi, að lámarki tvær ferðir á ári, sjá um opnun þeirra, undirbúa skálana fyrir notkun, halda utan um viðhaldsþörf skálanna, sem og að loka skálunum að hausti.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að Starkaður, félag um skála á Gnúpverjaafrétti, sjái um að fara eftirlitsferðir að sumri inn í skála sveitarfélagsins, opna þá og halda utan um viðhaldsþörf þeirra í samráði við sveitarstjóra, sem og að sjá um að loka skálunum að hausti.
13. Erindi Félags atvinnurekenda til sveitarstjórna
Lagt fram til kynningar erindi frá félagi atvinnurekanda er snýr að álagningu fasteignagjalda sveitarfélaga. Einnig fylgir með skýrsla starfshóps sem gerði úttekt á grunni álagningar á fasteignir með það að markmiði að leita leiða til að einfalda og bæta kerfið og auka fyrirsjáanleika án þess að draga úr tekjum sveitarfélaga.
14. Skipulag skógræktar - bréf frá VÍN
Lagt fram bréf frá stjórn Vinum íslenskrar náttúru er varðar skipulag skógræktar og leiðbeiningar um val á landi til skógræktar.
Sveitarstjórn vísar bréfinu til umsagnar í Loftslags- og umhverfisnefnd og almennrar umræðu um skógrækt, skipulag hennar og val á landi til skógræktar.
15. Fundargerð 304. fundar skipulagsnefndar
Hlemmiskeið 2C L174528; Hlemmiskeið 2G; Stofnun lóðar - 2506017
Lögð er fram umsókn ásamt undirritaðri merkjalýsingu dags. 07.04.2025, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar skiptingu lóðar. Óskað er eftir að stofna 9.850,2 fm, Hlemmiskeið 2G, úr landi Hlemmiskeiðs 2C L174528 sem verður 3.445,8 fm eftir skiptin skv. meðfylgjandi merkjalýsingu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. framlagðri merkjalýsingu. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir erindið með fimm atkvæðum.
Hlemmiskeið 2A (L217104); byggingarheimild; gestahús - geymsla - 2506042
Móttekin var umsókn þann 11.06.2025 um byggingarheimild fyrir 120 m2 gestahús/geymslu á íbúðarhúsalóðinni Hlemmiskeið 2A L217104 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Lóðin Hlemmiskeið 2A er skráð 4.300 fm og er innan skilgreinds landbúnaðarlands samkvæmt aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Á lóðum innan landbúnaðarlands er gert ráð fyrir að heimilt sé að byggja innan nýtingarhlutfalla 0,05 og að hámarki 3 hús. Hámarksbyggingarmagn lóðarinnar er því um 215 fm. Samanlagt byggingarmagn núverandi húss og umsótts gestahúss geymslu er um 206 fm og því innan marka stefnumörkunar aðalskipulags.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
16. Fundargerð 25-228 fundar afgreiðslufundar byggingarfulltrúa
Fundargerð lögð fram til kynningar.
17. Fundargerð 980. fundar stjórnar Sambandsins
Fundargerð lögð fram til kynningar.
18. Húsaleigusamningur Héraðsnefndar Árnesinga/Héraðsskjalasafns Árnesinga og Hrunamannahrepps vegna skjalageymslu á Flúðum
Samningur lagður fram til kynningar.
19. Viðauki við fjárhagsáætlun Héraðsskjalsafn Árnesinga 2025
Viðauki við fjárhagsáætlun Héraðsskjalasafns Árnesinga 2025 lagður fram.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykktir með fimm atkvæðum framlagðan viðauka.
20. Ársreikningur Brákar hses 2024
Ársreikningur lagður fram til kynningar.
21. Fundi slitið kl. 12.00
Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 2. júlí, kl. 9.00, í Árnesi.
Fundargerð undirrituð rafrænt.