Stóra-Núpskirkja

Stóra-Núpskirkja er í Hrunaprestakalli í Suðursprófastsdæmi. Um 1770 lét Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson reisa á Stóra-Núpi útbrotakirkju, sem var byggð úr grjóti, torfi og timbri, sem fékkst úr herskipinu Göthemborg eftir að það strandaði á Hafnarskeiði við Ölfusárósa árið 1718. Ámundi snikkari Jónsson var fenginn til verksins. Auk þess að byggja kirkjuna, skreytti hann hana með útskurði, t.d. gerði hann predikunarstól, sem nú er í vörzlu Þjóðminjasafns Íslands, ásamt líkani af þessari kirkju, sem var gert eftir lýsingum Brynjúlfs Jónssonar, fræðimanns frá Minna-Núpi. Útbrotakirkjan stóð til ársins 1876 eða í 106 ár, þegar hún var rifin og ný kirkja byggð, að hluta til úr timbri hinnar gömlu.

Í Suðurlandsskjálftanum 1896 stóð kirkjan eitt húsa á Stóra-Núpi, svo að presturinn varð að flytja með fjölskyldu sinni í kirkjuna. Þá bjó sera Valdimar Briem á Stóra-Núpi. Þessi kirkja stóð til 29. desember 1908 eða í 32 ár, þegar hún fauk og brotnaði í spón. Í þessa kirkju kom snemma hljóðfæri og hefur æ síðan verið í henni. Kirkjan, sem nú stendur, var reist 1909 eftir teikningum Rögnvaldar Ólafssonar. Gestur Einarsson á Hæli var umsjónarmaður með byggingu kirkjunnar og réði Bjarna Jónsson frá Galtafelli sem yfirsmið og Ásgrím Jónsson til að mála altaristöflu.

Ásgrímur valdi einnig liti í kirkjuna. Stefán Eiríksson skar út ýmsa gripi hennar. Tæpu ári eftir að kirkjan fauk, eða hinn 31. oktober 1909, var nýja kirkjan vígð. Altaristaflan kom ekki fyrr en 1912. Tvær eldri töflu eru geymdar í kirkjunni, önnur er úr Steinsholtskirkju, sem séra Daði Halldórsson þjónaði. Á henni er mynd af fiskimönnum á vatninu, en hin er af síðustu kvöldmáltíðinni. Sigríður Jónsdóttir, ekkja séra Jóns Vídalíns biskups, gaf hana.

Á henni má sjá ártalið 1728 og fangamörk þeirra hjóna. Hún var í kirkjunni, sem fauk og skemmdist mikið. Einar Jónsson, myndhöggvari var fenginn til að koma henni saman að nýju.

Predikunarstóll, sem var í þessari kirkju og brotnaði, þegar hún fauk, var endursmíðaður og er nú í Villingaholtskirkju. Einnig er hljóðfærið, sem var í kirkjunni til í einkaeign. Á árunum 1966-68 voru gerðar miklar endurbætur á kirkjunni, skipt um járn, glugga og hún einangruð.

Árið 1988 var reistur minnisvarði um sálmaskáldið, séra Valdimar Briem, á Stóra-Núpi eftir Helga Gíslason, myndhöggvara. Hann var afhjúpaður 4. september 1988. En sr. Valdimar Briem, f. 1. febrúar 1848. Var hann settur til að þjóna á Stóra-Núpi 29. júlí 1880. Þjónaði sr. Valdimar þar til 11. mars 1918 eða 38 ár. Af mörgum merkilegum mönnum sem hafa búið í Gnúpverjahreppi þá er sr. Valdimar án efa þeirra merkilegastur. Þekktastur er hann fyrir sálma sína. Án sálma sr. Valdimars væri sálmabókin okkar eins og hún er í dag ónothæf. En ef hún hefði aðeins sálma sr. Valdimars væri hún all góð til nota við helgihaldið.

Nýtt pípuorgel var tekið í notkun 11. nóvember 1990 í tilefni þess, að 80 ár voru liðin frá byggingu kirkjunnar. Orgelið smíðaði Björgvin Tómasson.

Það orgel var selt árið 2012 sökum þess að það var of stórt í kirkjuna og nýtt orgel var vígt þann 24.11.2013. Björgvin Tómasson smíðaði það einnig.

Árið 2015 var sökkull kirkjunnar spengdur þar sem hann var mikið sprunginn ( á þrettán stöðum) að öllum líkindum eftir jarðskjálfta árið 2000.

Árið 2017 var farið í miklar endurbætur á kirkjunni, innanverðri. Skipt var um allt gólfið og gólfbita sunnan megin í kirkjunni ásamt því að gólfið var einangrað betur. Lögð var ný rafmagnsheimtaug, þriggja fasa. Allar rafmagnslagnir endurnýjaðar og ljós að hluta. Allar hitaveitulagnir endurnýjaðar og ofnar. Allt tréverk yfirfarið og lagfært því miklar sprungur voru í trésúlum og timburverki í lofti. Að lokum var kirkjan máluð öll að innan. Einnig var lagt nýtt bruna- og þjófavarnarkerfi. Verkið tók 14 mánuði og var hún tekin í notkun aftur 18. mars 2018.

2021 var tréverk að utanverðu lagfært skipt um sem þurfti og skipt um allt gler sem ónýtt var eða illa farið ásamt því að steyptir voru nýir hattar á sáluhliðið og það lagfært. Árið 2022 var kirkjan máluð að utan, skipt um þakrennur og áfellur við sökkul og sökkullin múraður að utan og sprungur lagfærðar.

Árið 2023 þegar þetta er ritað er verið að smíða útihurð eftir upprunalegu hurðinni sem varðveitt var af kirkjubændum.

Sameiginlegur kór kirknanna í sveitarfélaginu þ.e. Stóra-Núps og Ólfsvallasókna söng inn á hljómdisk í apríl 2015 helstu sálmaperlur sálmaskáldsins og prestsins Valdimars Briem sem þjónaði mestan hluta ævi sinnar á Stóra-Núpi og var hann gefinn út fyrir jólin það ár. "Syng þínum Drottni," heitir hann.

 

Sími Prestakallsins er 856-1572

Vefsíða www.hruni.is

Sóknarprestur: séra Óskar Hafsteinn Óskarsson Hruna, hrunaprestur@gmail.com

Organisti: Þorbjörg Jóhannsdóttir, Stóra-Núpi, tobba2006@visir.is

Meðhjálpari: Margrét Steinsþórsdóttir, Háholti, margretsteintors@gmail.com

Sóknarnefnd Stóra-Núpskirkju:

Kristjana Heyden Gestsdóttir, Hraunteigi, formaður, 863-9518 kristjanaheyden@gmail.com

Ámundi Kristjánsson, Minna-Núpi, gjaldkeri, 892-0405 amundi@isimnet.is

Árdís Jónsdóttir Eystra-Geldingaholti, ritari, 848-1455 ardis@pax.is

Hringjari Stóra-Núpskirkju: Oddur Guðni Bjarnason, stodulfell@hotmail.com

 

Til gamans er hér pistill um organista kirkjunnar frá 1900.

Í gerðabók Stóra-Núpssóknar frá 1895 er þess getið, að keypt hafi verið orgel í kirkjuna. Ekki er þess getið, hverjir hafi verið hvatamenn að hljóðfærakaupunum.

Fyrsti organistinn var Árni Eiríksson í Fossnesi, til 1900. Þar næst í hálft ár Valdimar Brynjólfsson frá Sóleyjarbakka. Þá tekur við Margrét Gísladóttir í Ásum, síðar á Hæli og hafði starfið á hendi til 1906. Árið 1907 var Margrét Sigurðardóttir í Hrepphólum organisti hálft árið, en hinn helming ársins var sungið hljóðfærislaust. Jóhannes Eggertsson í Ásum var þá forsöngvari.

Árið 1908 var Kjartan Jóhannesson í Hlíð, síðar á Stóra-Núpi ráðinn organisti. Gegndi hann starfinu til 1919. Tók þá við því Þorgeir Jóhannesson, bróðir Kjartans, og hafði það á hendi í tvö ár. Þar næst gegnir Aldís Pálsdóttir í Hlíð organistastarfinu til 1926 og Kolbeinn Jóhannsson, Hamarsheiði til 1930. Þá tekur Kjartan Jóhannessona aftur við og er nú organisti Stóra-Núpskirkju til 1965. Tekur þá Erlendur Jóhannesson á Hamarsheiði við organistastarfinu til 1971. Erlendur var oft organisti síðustu starfsár Kjartans, er hann ferðaðist um landið á vegum Kirkjukórasambands Íslands.

Steindór Zóphóníasson bóndi í Ásbrekku. Hann nam við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal veturna 1944 til 1946 og varð búfræðingur með hárri einkunn. Hann lærði á orgel hjá Jóni Eiríkssyni í Steinsholti og Kjartani Jóhannessyni á Stóra-Núpi. Ungur hóf hann að leysa af sem organisti í Hrepphólakirkju og varð síðar organisti og söngstjóri í Stóra-Núpskirkju 1971 til 1992.

Þorbjörg Jóhannsdóttir, Stóra-Núpi nam í tónlistaskóla Þjóðkirkjunnar hjá Hauki Guðlaugssyni og síðar í Hamborg. Hún tekur við organistastarfinu af Steindóri og gegnir því enn í janúar 2018.

Söngur í kirkjunni var venjulega tvíraddaður til 1935, nema skömmu eftir að Margrét Gísladóttir tók við organistastarfinu. Hún æfði fjórraddaðan söng, fyrir jólamessuna 1934 fyrst, og æfði fjórraddaðan söng einkum fyrir stórhátíðir. Síðan 1935 hefur alltaf verið æfður fjórraddaður söngur.

9. október 1954 var stofnað Söngfélag Stóra-Núpskirkju. Söngstjóri þess er nú [1975] Steinþór Gestsson á Hæli. Annars hafa organistarnir annazt söngstjórn. Heimild: Sigurður Ágústsson: Þættir um kirkjusöng í Árnessýslu; Suðri, 3. 1975.

"Ár 1915, þriðjudaginn 22. júní var héraðsfundur Árnesprófastsdæmis haldinn að Hraungerði.... : Liður 6: safnaðafundur Stóranúpssóknar hafði samþykt að skora á héraðsfund „að ganga fyrir eða stuðla að því að námskeið verði næsta vetur haldið hér austanfjalls til leiðbeiningar í kirkjusöng. Eftir nokkra umræðu bauðst séra Ólafur í Arnarbæli til að veita slíka leiðbeiningu svo sem viku tíma næsta vetur endurgjaldslaust, ef svo margir þátttakendur fengjust til að tiltækilegt þætti. Talið var sjálfsagt að námskeið þetta, ef úr því yrði færi fram að Þjórsártúni fyrri part vetrar."