Hvenær eru réttir í Skeiða og Gnúpverjahrepp ?

Samkvæmt Fjallskilasamþykkt Árnessýslu  austan vatna (sem m.a. má finna hér)   er réttað í Skaftholtsréttum föstudag innan daganna 7. - 13. september og  Reykjaréttum á laugardegi innan 8. - 14. september.

Þetta þýðir að árið 2024 ættu Skaftholtsréttir að vera föstudaginn 13. september og Reykjaréttir laugardaginn 14. september   - Þess ber að geta að rímspillir sem er árið 2023 hefur ekki áhrif á dagsetningu rétta.

Hinsvegar hefur rímspillir áhrif á það hvenær Þorri hefst árið 2024 -og þar af leiðandi hvenær Þorrablótið er! Vegna rímspillis, er þorrablótið í Árnesi árið 2024 föstudaginn 26. janúar.

Hvað er rímspillir?

Í svonefndu fingrarími er til regla sem segir til um hvenær rímspillisár er. Reglan er svona: Rímspillisár er þegar aðfaradagur árs (það er seinasti dagur ársins á undan) er laugardagur og næsta ár á eftir er hlaupár. Seinasti dagur ársins 2022 er laugardagur og árið 2024 er hlaupár. Af því leiðir að árið 2023 er rímspillisár. Það sama átti við um árið 1995. Seinasti dagur ársins á undan (1994) var laugardagur og árið 1996 var hlaupár. Þess vegna var árið 1995 rímspillisár. Rímspillisár eru oftast á 28 ára fresti.

 

Ekki ruglast í ríminu!

Ástæðan fyrir orðinu Rímspillir er að orðið rím er notað um útreikning almanaks eða dagatals. Orðatiltækið að ruglast í ríminu er dregið af því og merkir þess vegna upphaflega þegar einhver ruglast á dögunum.

Fingrarím er tímatalsreikningur með fingrunum. Með fingrarími er til dæmis hægt að reikna dagatal, finna tunglkomur og hátíðisdaga og fleira. Fingrarímið gagnast einnig til að ákvarða dagsetningar í hinu forna íslenska misseristali.

Heimild: Svar Jóns Gunnar Þorsteinssonar við spurningunni; Hvenær er næsta rímspillisár, allt svarið ásamt frekari upplýsingum má finna hér.