Sveitarstjórn

81. fundur 17. desember 2025 kl. 09:00 - 12:40 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson oddviti
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni H. Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík.
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla oddvita á 81. sveitarstjórnarfundi

Oddviti fer yfir þau verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.

Axel Á. Njarðvík leggur fram eftirfarandi bókun undir skýrslu oddvita.

Þegar veigamikil mál sem varða í raun sveitarfélagið til lengri tíma, þá ættu þau að eiga sitt upphaf í sveitarstjórn. Sýnt þykir að mikilvægi þessa fundarliðar sveitarstjórnar er lykill að farsæld verkefna. Umræður undir þessum lið hafa oft sinnis dregið fram megin umræðu áður en mál verða að málum. Eins sýnir þessi liður það að samtöl sem verða, gera málin skýrari og greinilegri og skapa breiðari grundvöll til formlegra mála. Mörg mál eiga sitt upphaf í skýrslu oddvita og ná að þroskast með aðkomu sveitarstjórnarmanna.

Bragi Gunnarson frá hestamannafélaginu Jökli kom inn á fund og kynnti hugmyndir að nýju þjálfunar- og keppnishúsi sem og félagshesthúsi.

2. Tillaga að breytingum á stofnsamningi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. - síðari umræða

Lagður fram uppfærður stofnsamningur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. til síðari umræðu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum uppfærðan stofnsamning Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.

3. Samþykktir fyrir Byggðasafn Árnesinga - síðari umræða

​Lagðar fram samþykktir fyrir Byggðasafn Árnesinga til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum samþykktir fyrir Byggðasafn Árnesinga.

4. Samþykktir fyrir Listasafn Árnesinga - síðari umræða

​​​Lagðar fram samþykktir fyrir Listasafn Árnesinga til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum samþykktir fyrir Listasafn Árnesinga.

5. Samþykktir fyrir Héraðsskjalasafn Árnesinga - síðari umræða

​​​Lagðar fram samþykktir fyrir Byggðasafn Árnesinga til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum samþykktir fyrir Héraðsskjalasafn Árnesinga.

6. Fyrirkomulag akstur fyrir skóla, frístundir og íþróttir

Miklar breytingar hafa átt sér stað í innviðum sveitarfélagsins í framhaldi af því að tekin var ákvörðun um að Þjórsárskóli yrðir heildstæður grunnskóli 1.-10. bekk frá og með haustinu 2026. Eitt af markmiðum þessara breytinga var að leggja grunninn að heilstæðu skóla, frístunda- og íþróttastarfi í sveitarfélaginu. Með því móti verði hægt að tryggja samfellu í skólaakstri við frístunda- og íþróttastarf og þannig dregið verulega úr akstri foreldra í frístunda- og íþróttastarf. Með tilkomu á auknu íþróttastarfi ásamt starfsemi í félagsmiðstöðinni Zstart er nauðsynlegt að bæta við akstri milli Árnes og Brautarholts eftir íþróttir, en einnig í félagsmiðstöðina Zstart strax í janúar 2026. Það er vilji sveitarstjórnar að leitast verði eftir því með fremsta megni að samræma skóla og frístundastarf og að akstur eftir skóla/frístundastarf verði með þeim hætti að auka samfellu í þessu starfi og spara foreldrum akstur.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að bæta við akstri milli Árnes og Brautarholts í framhaldi af íþróttastarfi ásamt akstri milli Árnes og Brautarholt fyrir félagsmiðstöðina Zstart. Einnig skuli setja á fót vinnuhóp með sveitarstjóra, skólastjóra Þjórsárskóla, formanni skólanefndar, forstöðumanni Zstart, fulltrúa foreldra og ungmennafélögunum til þess að samrýma starfið og akstur fyrir skóla, frístundir og íþróttir.

7. Reglur um styrki til framboða í sveitarstjórnarkosningum

​Lagðar fram reglur um styrki til framboða í sveitarstjórnarkosningum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Reglurnar eru settar fram til að tryggja jafnræði þeirra framboða sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum reglur um styrki til framboða í sveitarstjórnarkosningum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

8. Erindi til aðildarsveitarfélaga SASS vegna SOS

​Fyrirliggjandi er formlegt erindi stjórnar SOS til SASS vegna breytinganna á umgjörð og rekstri SOS þar sem óskað er eftir því formlega við stjórn SASS að samþykkt verði aðkoma SASS að verkefninu í samræmi við fyrirliggjandi ályktanir aðalfundar SOS og fyrirliggjandi samningsdrög. Stjórn SASS hefur samþykkt aðkoma SASS að verkefninu með fyrirvara um samþykki aðildarsveitarfélaga SASS.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum aðkomu SASS að verkefnum SOS í samræmi við framlögð gögn.

9. Auka aðalfundar Sorpstöðvar Suðurlands bs.

​Lagt fram fundarboð á aukaaðalfund Sorpstöðvar Suðurlands sem haldinn verður þann 16. janúar 2026 kl. 11:00.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að skipa Harald Þór Jónsson sem aðalmann og Vilborgu Ástráðsdóttur sem varamann á auka aðalfund Sorpstöðvar Suðurlands þann 16. janúar 2026.

10. Umsókn um styrk frá ADHD samtökunum

Lögð fram beiðni um styrk frá ADHD samtökunum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar fyrir umsóknina en telur ekki fært að verða við ósk um styrk að þessu sinni.

11. Íþróttafélag uppsveita- beiðni um styrk

​Lagt fram erindi frá ÍBU, en síðastliðið ár hefur ÍBU haldið úti æfingum í Árnesi í fótbolta fyrir iðkendur á grunnskólaaldri. Á sama tíma hafa iðkendur fengið færi á að sækja ýmis mót undir merkjum félagsins í liði með iðkendum frá Hrunamannahreppi og Bláskógabyggð. Myndast hefur hefð fyrir samstarfi félagsins við sveitarfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps m.a. með því að sveitarfélagið skaffi aðstöðu til æfinga, haldi utan um frístundastyrki og deili þeim út og einnig hefur félagið fengið árlega rekstrarstyrki til að m.a. halda æfingagjöldum í lágmarki.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita ÍBU styrk að upphæð 500.000 fyrir árið 2025. Styrkurinn rúmast innan núverandi fjárhagsheimilda.

12. Skólahreysti í 20 ár - ósk um styrk

Lagt fram erindi frá Skólahreysti sem hefur í tvo áratugi haldið úti Skólahreysti keppninni þar sem lagt er áherslu á heilbrigðan lífstíl, hreyfingu og samstöðu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar fyrir umsóknina en telur ekki fært að verða við ósk um styrk að þessu sinni.

13. Erindi frá Bjarna Þorkellssyni til sveitarstjórnar

Lagt fram erindi frá Bjarna Þorkellssyni þar sem hann skorar á sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að taka málefni Heilsugæslunnar til umfjöllunar og álykta um málsmeðferðina og nafngiftina á Heilsugæslunni.

Málefni Heilsugæslunnar eru á ábyrgð ríkisins og eru því almennt ekki til umfjöllunar í sveitarstjórn.

14. Erindi frá Flyfishing in Iceland ehf

Lagt fram bréf frá LOGOS lögmönnum, sem stílað er á Ríkislögmann, vegna viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna tjóns sem Flyfishing in Iceland ehf varð fyrir vegna vanefnda á samning um veiðirétt.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps áréttar að samþykki og ábyrgð vegna veiðiréttarins liggur hjá Forsætisráðuneytinu og felur sveitarstjóra í samráði við lögmann sveitarfélagsins að svara erindinu.

15. Beiðni um heimild til að vinna deiliskipulagstillögu fyrir land Húsatófta 1E

Lagt fram bréf frá LEX lögmönnum fyrir hönd Einars G. Harðarsonar, þar sem óskað er eftir heimild til að vinna deiliskipulagstillögu fyrir land Húsatófta 1E.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vísar í fyrri bókun sveitarstjórnar frá 2. júlí 2025, þar sem sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að unnin verði skipulagslýsing með það að markmiði að skilgreina nánar legu áætlaðrar tilfærslu Skeiða- og Hrunamannavegar og skilgreina um leið landnotkun svæðisins með tilliti til forsenda er varða m.a. fjarlægðir frístundahúsa og verslunar- og þjónustubygginga frá vegum, jarðvegsaðstæðna á svæðinu, minja, vatnsöflunar, fráveitu, tenginga við svæðið o.s.frv.

16. Fundargerð 315. fundar skipulagsnefndar

Sandlækur 2 L166591; Verslunar- og þjónustusvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2512021

Lögð er fram skipulagslýsing sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Í breytingunni felst að sett verður inn nýtt verslunar- og þjónustusvæði sem nær yfir Sandlæk 2 L166591, Sandlæk I land 4 L212043, Sandlæk 1 lóð 5 L217870, Sandlæk 2 lóð L209688 og Sandlæk 1 L201306. Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi. Markmið með breytingunni er að heimila gistingu fyrir allt að 40 gesti á um 3 ha svæði. Föst búseta verður áfram á svæðinu og heimilað verður að halda áfram búskap.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

Skógarlundur L236998; Uppbygging ferðaþjónustu; Deiliskipulag - 2512005

Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til Skógarlundar L236998 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í deiliskipulaginu felst að landið verði skilgreint fyrir gistiþjónustu í smáhýsum ásamt þjónustubyggingum. Heimild er fyrir 70 gistihúsum og 192 gistirýmum, ásamt þjónustuhúsum fyrir starfsemina. Hámarksbyggingarmagn er 3,000 m2 fyrir svæðið. Deiliskipulag þetta er unnið samhliða breytingu á aðalskipulagi fyrir svæðið.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017 - 2029 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælist sveitarstjórn til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

Sandlækur I land 3 L201308; Sandlækur 1D; Stofnun lóðar - 2512008

Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu dags. 30.07.2025, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, er varðar stofnun nýrrar landeignar. Óskað er eftir að stofna 15,0 ha landeign, Sandlæk 1D, úr upprunalandinu Sandlæk 1 land 3 L201308.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi merkjalýsingu sem hefur verið uppfærð í samræmi við athugasemdir skipulagsnefndar.

Búrfellshólmi, Búrfell; Nýtt efnistökusvæði; Aðalskipulagsbreyting -2406006

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar, eftir auglýsingu, sem tekur til skilgreiningar á nýju efnistökusvæði á Búrfellshólmum austan Búrfells. Svæðið er í beinu framhaldi af núverandi efnistökusvæði E33. Áætluð efnistaka er allt að 4,5 milljón m3 og að efnisnám nemi um 80.000-300.000 m3 á ári í 10-15 ár. Stærð svæðis er 183 ha. Um er að ræða vikurnámu og er vikurinn einkum unninn til útflutnings. Starfsemi á nýju efnistökusvæði verður að öllum líkindum unnin á sambærilegan hátt og áður hefur verið á Búrfellshólmum og gengið verði frá því svæði þar sem efnistöku er lokið jafnóðum. Umsagnir bárust á auglýsingatíma og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt viðbrögðum við þeim og uppfærðum gögnum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við þeim athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn mælist til þess að óskað verði eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

17. Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 25-238

Fundargerð lögð fram til kynningar.

18. Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 25-239

Fundargerð lögð fram til kynningar.

19. Fundargerð 23. fundar skólanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Fundargerð lögð fram til kynningar.

20. Fundargerð samráðnefndar Þjórsárdals 11.12.2025

Fundargerð lögð fram til kynningar.

21. Fundargerð 89. fundar stjórnar Bergrisans bs.

Fundargerð lögð fram til kynningar.

22. Fundargerð 630. fundar stjórnar SASS

Fundargerð lögð fram til kynningar.

23. Fundargerð 340. fundar stjórnar SOS

Fundargerð lögð fram til kynningar.

24. Fundargerð 250. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands

Fundargerð lögð fram til kynningar.

25. Fundargerð 990. fundar stjórnar Sambandsins

Fundargerð lögð fram til kynningar.

26. Fundargerð aðalfundar Vottunarstofunnar Túns ehf 2025

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:40

Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 21. janúar kl. 9.00, í Árnesi.

Fundargerð undirrituð rafrænt. 

Skjöl