- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
1. Skýrsla oddvita á 80. sveitarstjórnarfundi
Oddviti fer yfir þau verkefni sem hafa verið í vinnslu frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
2. Álagningarforsendur og gjaldskrár 2026
Gjaldskrár lagðar fram til síðari umræðu. Sveitarstjóri gerir grein fyrir helstu breytingum á forsendum álagningar og gjaldskrárbreytingum fyrir árið 2026.
Álagningarforsendur 2026:
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sveitarstjórnar þann 19. nóvember sl. að álagningarprósentu útsvars árið 2026 verði óbreytt 14,97%.
Fasteignaskattur:
A liður fasteignaskatts eins og hann er skilgreindur í a lið 3. mgr. 3, gr. laga nr. 4/1995 verður 0,43% af heildarfasteignamati.
B liður fasteignaskatts eins og hann er skilgreindur í a lið 3. mgr. 3, gr. laga nr. 4/1995 verður 1,32% af heildarfasteignamati.
C liður fasteignaskatts eins og hann er skilgreindur í a lið 3. mgr. 3, gr. laga nr. 4/1995 verður 1,65% af heildarfasteignamati.
Tekjuviðmið til afsláttar af fasteignagjöldum taka breytingum frá árinu 2025 í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu 1. jan 2025- 1. des 2025 og verða gefin út í janúar í samræmi við reglur um afslátt af fasteignaskatti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Gert er ráð fyrir að gjalddagar fasteignaskatts og annarra gjalda sem innheimt eru samhliða verði 10 talsins líkt og áður frá febrúar til nóvember.
Lóðarleiga:
Lóðarleiga er 1% af heildarfasteignamati í þéttbýli sveitarfélagsins. Lóðarleigugjöld innheimtast að öðru leyti skv. lóðarleigusamningum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum álagningarforsendur fasteignaskatts og lóðarleigu fyrir árið 2026.
Gjaldskrá Leikholts og Þjórsárskóla:
Lögð fram til annarrar umræðu gjaldskrár fyrir fæði og vistun í leikskólanum Leikholti og Þjórsárskóla. Lagt er upp með að gjaldskrár hækki um 3,5%.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að gjaldskrár Leikholts og Þjórsárskóla varðandi vistun og fæði hækki um 3,5% á árinu 2025.
Gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs:
Lögð fram til annarrar umræðu gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs. Gjald fyrir tunnueiningar við íbúðarhúsnæði hækkar um 3,5%. Losunartíðni verður á aukin, úr 8 vikna fresti í 5 vikna fresti. Fast gjald v. rekstur á sorpmóttökustað fyrir íbúðahúsnæði hækkar úr 15.900 kr. í 19.900 kr. og fyrir frístunda– og atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði sem hefur ekki grunneiningu íláta úr 41.900 kr. í 43.366 kr. Gjöld vegna reksturs hrædýragáma hækkar um 25%.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir árið 2026 og felur sveitarstjóra að auglýsa hana í stjórnartíðindum.
Gjaldskrá kaldavatnsveitu Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Lögð fram til annarrar umræðu gjaldskrá kaldavatnsveitu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Vatnsgjald er óbreytt 0,2% af heildarfasteignamati íbúðarhúsnæðis, lóða, og atvinnuhúsnæðis, þó að hámarki 49.000 kr. á íbúðarhúsnæði. Ekkert hámarksgjald er á atvinnuhúsnæði. Eitt vatnsgjald er á frístundahúsnæði að fjárhæð 39.000 kr.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum gjaldskrá um kaldavatnsveitu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyrir árið 2026 og felur sveitarstjóra að auglýsa hana í stjórnartíðindum.
Gjaldskrá fráveitu:
Lögð fram til annarrar umræðu gjaldskrá vegna fráveitu og meðhöndlunar seyru. Gjaldskrá helst óbreytt frá fyrra ári.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að gjaldskrá um fráveitu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi haldist óbreytt.
Tómstundastyrkur:
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að tómstundastyrkur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til barna á aldrinum 0-17 ára, í samræmi við reglur um tómstundastyrk, verði 80.000 kr. á ári.
Gjaldskrá mötuneytis:
Hádegisverður nemenda í Þjórsárskóla er gjaldfrjáls. Um gjald fyrir hádegismat starfsmanna fer samkvæmt útgefnu skattmati á fæðishlunnindum hverju sinni, útgefnu af ríkisskattstjóra. Gjaldskrá fyrir fæði nemenda Leikholts fer skv. samþykktri gjaldskrá Leikholts.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að fæðisgjald starfsmanna fari eftir skattmati á fæðishlunnindum hverju sinni.
Gjaldskrá Skeiðalaugar:
Núverandi gjaldskrá Skeiðalaugar tók gildi 1. maí 2025 eftir miklar viðgerðir á húsnæði og bættrar aðstöðu á sundlaugarsvæði, þar sem breyting varð á öllum verðum að undanskildu árskortinu. Þann 17. júní 2025 var ný æfingaaðstaða formlega tekin í notkun. Lögð fram ný gjaldskrá fyrir Skeiðalaug, þar sem eina breytingin er að verð fyrir árskort breytist úr 30.000 kr. í 40.000 kr.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum nýja gjaldskrá fyrir Skeiðalaug.
3. Fjárhagsáætlun 2026 og 2027-2029 - seinni umræða
Sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.
Grunnur að fjárhagsáætlun 2026-2029 byggir á áætlun 2025 með viðaukum, húsnæðisáætlun sveitarfélagsins, framtíðarsýn og ytri áhrifum, s.s. verðlagsbreytingum, kjarasamningum og þróun íbúafjölda og er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikning sveitarfélaga nr. 1212/2015. Fjárhagsáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árin 2026-2029 gegnir lykilhlutverki í rekstri og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Hún er bindandi stjórntæki og tryggir að fjármunum sveitarfélagsins sé ráðstafað í samræmi við ákvarðandi sveitarstjórnar.
Gert er ráð fyrir í upphafi árs 2026 að í sveitarfélaginu séu búandi um 645 íbúar en verði um 715 talsins í lok ársins. Næstu ár á eftir er gert ráð fyrir að meðaltalsfjölgun íbúa verði um 70 talsins á ári.
Útsvarstekjur hafa farið vaxandi á árinu 2025 og í áætlun fyrir árið 2026 er gert ráð fyrir að útsvarstekjur hækki um samtals 6,6% á milli ára skv. spá um launaþróun. Byggist sú forsenda á samantekt frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2026 og á spá frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu ásamt íbúafjölgun. Á grundvelli þessara gagna er gert er ráð fyrir að útsvarstekjur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi árið 2026 nemi samtals, með eftiráálagningu, um 537,5 millj. kr.
Heildarfasteignamat fasteigna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er að hækka um 7,2% á milli ára. Í áætlun fyrir árið 2026 eru álagningarforsendur fasteignaskatts óbreyttar frá fyrra ári og miðast áætlun um tekjur af fasteignaskatti við heildarfasteignamat fasteigna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem gefið var út í júní 2025 fyrir árið 2026, eða samtals um 501 millj kr. Þá er gert ráð fyrir að lóðaleiga sem ígildi skatttekna og innheimtist með fasteignagjöldum, sé 9,25 millj. kr. og hækkar um 2,4%.
Aðrar forsendur:
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026 er gert ráð fyrir að gjaldskrár hækki almennt um 3,5% til að mæta hækkunum á verðlagi umfram áætlanir ársins á undan. Gjaldskrá vatnsveitu tekur breytingum, en á árinu tók sveitarfélagið yfir rekstur Vatnsveitufélagsins Suðurfall og gjaldskrá uppfærð með tilliti til viðhalds og stækkunar veitunnar. Gjaldskrá fráveitu vegna reksturs rotþróa helst óbreytt. Gjaldskrá sorphirðu hækkar almennt um 3,5%, en gjald vegna fast kostnaðar á sorpmóttökustöð og grenndarstöðva hækkar úr 15.900 kr. í 19.900 kr. Gjald fyrir móttöku og afsetningu dýrahræja hækkar um 25%, en á árinu urðu þær breytingar að ekki er lengur hægt að urða þennan úrgang. Verið er að innleiða nýjan farveg fyrir dýrahræ með það að markmiði að uppfylla kröfur um úrgangsmeðhöndlunina ásamt því að koma í veg fyrir frekari hækkanir.
Sveitarfélagið er bundið af því skv. lögum um meðhöndlum úrgangs nr. 55/2006 að innheimta þjónustugjöld af rekstri hreinlætismála þannig að gjöld standi undir kostnaði við veitta þjónustu. Rekstur sorpmóttökustöðvar hefur verið í tapi undanfarin ár og hækkar því innheimta fasts kostnaðar á hverja fasteign meira en 3,5% ásamt því að rukkað er eftir gjaldskrá sorpmóttökustöðvar fyrir afsetningu ákveðinna sorpflokka í samræmi við skyldur sveitarfélaga og laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.
Rekstrartap fráveitunnar er að lækka á milli ára en fráveitan er þó í tapi upp á 11,3 millj. kr. sem stafar af fjármagnskostnaði. Gera má ráð fyrir að tekjur í þennan málaflokk aukist á árunum 2026-2029 vegna fjölgunar íbúða bæði í Brautarholti og Árnesi.
Varðandi gjaldskrárbreytingar og áhrif þeirra í fjárhagsáætlun 2026-2029 vísast að öðru leyti til ákvörðunar sveitarstjórnar í lið 2 hér að framan í fundargerð um álagningarforsendur og gjaldskrár.
Fjárhagsáætlun 2026:
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2026, eins og hún er lögð fyrir sveitarstjórn er gert ráð fyrir að samanlögð reikningsskil skili rekstrarafgangi upp á 137,6. millj kr. eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta.
Launakostnaður er áætlaður út frá núverandi stöðugildum og breytingum á starfsmannahaldi í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Launakostnaður, þar með launatengd gjöld, tekur mið af gildandi kjarasamningum og lögum. Launaáætlun er unnin í samráði við stjórnendur sveitarfélagsins. Búið er að gera nýja kjarasamninga á almennum markaði og gilda þeir til ársins 2028. Heildarlaun og launatengd gjöld sveitarfélagsins nema um 768,6 millj. kr. skv. áætlun eða um 45% af heildartekjum.
Óverulegar breytingar eru áætlaðar á rekstri deilda og eininga sveitarfélagsins. Haustið 2026 mun bætast við 10. bekkur í Þjórsárskóla og verður Þjórsárskóli orðinn heildstæður grunnskóli 1.-10. bekk. Í fjárhagsáætlun 2026 er gert ráð fyrir hækkun almenns rekstrarkostnaðar í takt við verðlagsbreytingar og breytingar á þjónustu við viðkomandi málaflokk. Útgjöld hafa verið aukin þar sem um aukna þjónustuþörf er að ræða, en almennt er ekki gert ráð fyrir auknu fjármagni í ný verkefni á árinu að undanskildum rekstri nýrrar íþróttamiðstöðvar í Árnesi.
Fjármunatekjur eru áætlaðar í takti við fjárfestingaráætlun og spár um þróun verðbólgu. Viðskiptareikningar innan samstæðu eru vaxtareiknaðar m.v. innri stöðu sjóða. Fjármagnsgjöld hafa verið uppreiknuð m.v. verðbólguspá og stöðu verðtryggðra lána og er lánasafnið vaxtareiknað miðað við vaxtakjör lánasamninga.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 er tekið er tillit til hlutdeildar sveitarfélagsins í byggðasamlögum og samstarfsverkefnum sveitarfélagsins og áhrifa þess á fjárhag sveitarfélagsins. Útgjöld þeirra aukast líkt og sveitarfélagsins í takt við þróun verðlags og kjarasamningshækkana. Um er að ræða byggðasamlög eða samstarfsverkefni þar sem sveitarfélagið ber ótakmarkaða ábyrgð, en þetta eru :
Brunavarnir Árnessýslu
Héraðsnefnd Árnesinga
Byggðasafn Árnesinga
Listasafn Árnesinga
Tónlistarskóli Árnesinga
Héraðsskjalasafn Árnesinga
Umhverfis- og tæknisvið uppsveita bs (UTU)
Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs.
Bergrisinn bs.
Við gerð fjárhagsáætlunarinnar lágu einungis fyrir samþykktir rekstrarreikningar í samþykktum fjárhagsáætlunum ofangreindra samlaga en ekki efnahagsreikningar eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir. Er því ekki tekið tillit til byggðasamlaga né samstarfsverkefna í efnahagsreikningi við fjárhagsáætlun 2026.
Framkvæmdir við fasteignir sveitarfélagsins eru annars vegar að skiptast í viðhald og hins vegar í fjárfestingu. Búið er að verja töluverðum fjármunum í viðhald á eignum sveitarfélagsins á síðustu árum. Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða á árinu 2026 og er gert ráð fyrir fjárfestingum á árinu sem nema samtals að fjárhæð 860 millj. kr. Gert er ráð fyrir að framlög á móti fjárfestingu nemi um 150 millj. kr. í formi innheimtra gatnagerðargjalda. Á árunum 2027-2029 er gert ráð fyrir samtals fjárfestingum að fjárhæð um 1.195 millj. kr. og að framlög á móti fjárfestingu nemi um 350 millj. kr. í formi innheimtra gatnagerðargjalda.
Helstu framkvæmdir næstu ára er lokafrágangur á byggingu fjölnota íþróttamannvirkis í Árnesi. Framkvæmdir hófust í lok árs 2024 og er ætlað að þeim verði lokið á síðari hluta árs 2026. Aðrar helstu framkvæmdir tengjast tengibyggingu milli Þjórsárskóla og íþróttamiðstöðvarinnar, uppbyggingu útisvæðis við Þjórsárskóla og viðhaldi á Félagsheimilinu í Árnesi. Nýtt deiliskipulag fyrir Árnesi er tilbúið fyrir allt að 245 íbúðir og má gera ráð fyrir verulegri uppbygginu íbúða á næstu árum. Í Brautarholti eru framkvæmdum við Skeiðalaug að mestu lokið, en eftir er að klára lóðafrágang. Fyrirhugað er að laga útisvæði við leikskólann Leikholt ásamt ýmsum smærri frágangsverkefnum í Brautaholti. Einnig er fyrirhugað að byggja upp svæðið utan um sorpmóttökustöð sveitarfélagsins í Árnesi.
Fjárfestingar fyrir árin 2026-2029 nema því, skv. fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029, samtals 2.055 millj. kr.
Í tengslum við fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins er lagt til að samþykktar verði lántökur samtals að fjárhæð 845 millj. kr. til að fjármagna fjárfestingar vegna áranna 2025 og 2026. Tillaga að lántöku í fjárhagsáætlun miðar við að tekið verði verðtryggt lán að fjárhæð 845 millj kr. á árinu 2026. Skuldahlutfall sveitarfélagsins mun hækka úr 64,1% skv. útkomuspá 2025 og í 90,3% árið 2026. Skuldahlutfallið mun svo lækka hratt samkvæmt þriggja ára áætlun 2027-2029, niður í 84,3% árið 2027, 73,3% árið 2028 og í lok árs 2029 er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið verði komið niður í 64,4%.
Fjárhagsáætlun 2027-2029.
Þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029 er ekki staðfest fjárhagsáætlun heldur einungis yfirlit fyrir árin 2027-2029. Byggist þriggja ára áætlun á grundvelli áætlunar fyrir árið 2026 en ekki er gert ráð fyrir breytingu á rekstri einstakra málaflokka.
Skatttekjur byggjast á áætlaðri þróun íbúafjölgunar og skatttekjum frá árinu 2025. Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám sveitarfélagsins en gert er ráð fyrir að verðlag þróist og að verðbólga verði 2,6% árið 2027, 2,5% árið 2028 og 2,5% árið 2029.
Árið 2027 verður rekstrarafgangur að fjárhæð 125,7 millj kr., árið 2028 verður rekstrarafgangur 181,9 millj. kr. og árið 2029 verður rekstrarafgangur 266,5 millj kr.
Gert er ráð fyrir að launakostnaður aukist jafnt og þétt næstu ár, bæði í takt við hækkun kjarasamninga og einnig í takt við aukna samlegð í rekstri og minni útvistun verkefna. Á móti er annar rekstrarkostnaður að lækka á ári næstu árin en afskriftir munu aukast með tilkomu mikilla fjárfestinga næstu 2-3 árin og skuldsetning mun aukast á framkvæmdatíma.
Lokaorð
Fjárhagsáætlun sem lögð er fram til síðari umræðu hefur verið unnin í samráði við sveitarstjórn og stjórnendur deilda sveitarfélagsins.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og árin 2027-2029 og staða sveitarfélagsins árið 2025 sýnir að rekstur sveitarfélagsins Skeiða- og Gnúpverjahrepps er traustur og í stakk búinn til að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru. Sveitarfélagið hefur svo sannarlega laðað að sér undanfarin ár, bæði fólk og verkefni. Helstu drifkraftar áætlunarinnar eru þróun útsvarsstofns, þróun íbúafjölda og þróun verðlags. Í áætluninni er miðað við að þjónustustig verði sambærilegt og verið hefur undanfarin ár. Með opnun nýrrar íþróttamiðstöðvar í Árnesi skapast forsendur fyrir heildstæðu skóla, frístunda og íþróttastarfi í samfellu sem mun verða veruleg þjónustuaukning fyrir íbúa.
Búið er að fjárfesta í núverandi innviðum til framtíðar með miklu viðhaldi og umfangsmiklar framkvæmdir eru áætlaðar á næstu árum sem bæði er ætlað að tryggja innviði til framtíðar sem og að byggja undir frekari þjónustu við íbúana. Mikil uppbygging nýrra íbúða eru fyrirhugaðar bæði í Brautarholti og í Árnesi og er brýnt að tryggja vatnsbúskap og fráveitulausnir fyrir þær byggðir. Mikilvægt er í allri uppbyggingu að unnið verði að forgangsröðun fjárfestinga til að fjármagnið nýtist sem best. Forgangsröðun fjárfestinga næstu ára er í þágu grunnþjónustu, s.s. með nýrri íþróttaaðstöðu, samgöngum, í vatns- og fráveitumálum sem og umhverfismálum. Við þær aðstæður er þó óhjákvæmilegt að auka við skuldir sveitarfélagsins tímabundið.
Ytri aðstæður hafa þó líka áhrif á rekstur sveitarfélagsins og geta þær oft á tíðum verið áskorun. Vaxtastig og verðbólga hefur verið há undanfarin misseri og geta hæglega haft áhrif á áætlanir um rekstur og fjárfestingar á stuttum tíma. Blikur eru þó á lofti um áframhaldandi lækkun verðbólgu og vaxtastigs og vonandi halda báðir þættir áfram að lækka næstu mánuði og ár.
Með traustri fjárhagsstöðu hefur verið hægt að draga úr skuldsetningu undanfarin ár og er staðan því traust í þeim miklu fjárfestingum sem hafa átt sér stað á árinu 2025 og halda áfram á árinu 2026. Álögur á íbúa eru hóflegar, ekki var farið í að auka álögur umfram verðlag í almennum gjaldskrám og álagningarprósentur fasteignaskatts helst óbreytt á milli ára.
Sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur státar af góðum mannauði sem ber hitann og þungann af starfsemi sveitarfélagsins á hverjum degi. Það er ekki síst þeim að þakka hversu gott þjónustustig er í sveitarfélaginu. Framlag alls starfsfólks okkar er ómetanlegt og undirstaða þess að áfram getum við byggt gott og eftirsóknarvert samfélag fyrir alla aldurshópa.
Allar kennitölur sýna að rekstur sveitarfélagsins er í góðu jafnvægi og byggir á traustum grunni. Mikilvægt er þó haldið sé áfram á sömu braut og gætt sé fjárhagslegs aðhalds í rekstri sveitarfélagsins. Mörg viðfangsefni bíða sveitarfélagsins í nánustu framtíð, við eigum góða innviði og gott fólk til að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar og þann grunn sem þarf til að sinna grunnstarfsemi sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir og staðfestir með fimm atkvæðum fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og yfirlit fyrir árin 2027-2029 og felur sveitarstjóra að annast skil á áætluninni til viðkomandi aðila.
4. Tekjuviðmið til afsláttar af fasteignagjöldum
Lögð fram til samþykktar tekjuviðmið fyrir árið 2026 sem miða að uppreiknuðum viðmiðunarfjárhæðum til lækkunar á fasteignaskatti í samræmi við samþykkt um afslátt af fasteignaskatti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Einstaklingar 67 ára og eldri og einstaklingar sem eru 75% öryrkjar eða meira geta sótt um afslátt af fasteignagjöldum þeirrar íbúðar í sveitarfélaginu sem þeir eiga lögheimili í og miðast afslættir við árstekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks skv. skattframlagi RSK. Afslættir eru reiknaðir í upphafi hvers ár samhliða álagningu fasteignagjalda fyrir komandi ár. Útreikningar um tekjuviðmið 2026 taka breytingu á milli ára samkvæmt breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu desember 2024 til desember 2025.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atvæðum tekjuviðmið 2026 vegna afsláttar af fasteignagjöldum fyrir árið 2026.
5. Gjaldskrá Hitaveitu Brautarholts
Lögð fram ný gjaldskrá fyrir Hitaveitu Brautarholts. Síðustu ár hafa miklar framkvæmdir staðið yfir í Hitaveitu Brautarholts. Ný borhola, viðbygging við dæluhús ásamt endurnýjun á öllum búnaði í dæluhúsinu. Framundan er endurnýjun allra mæla hjá notendum ásamt því að setja upp rafstöð fyrir varaafl. Með nýrri gjaldskrá er verið að samrýma gjaldskrá Hitaveitu Brautarholts og Hitaveitu Gnúpverja.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum nýja gjaldskrá fyrir Hitaveitu Brautarholts.
6. Fjárhagsáætlun 2025- Viðauki IV
Lagður fram viðauki IV við fjárhagsáætlun 2025. Verið er að uppfæra áætlun í samræmi við þróun á rekstri og framkvæmdum til loka árs. Fjárfestingar eru auknar um 55 millj kr. vegna verknámshús og framkvæmda við Skeiðalaug. Samtals er gert ráð fyrir fjárfestingum að fjárhæð 840 millj kr. á árinu 2025.
Áhrif viðaukans á rekstur eru jákvæð um 52,5 millj kr. og er aukinni fjárfestingu mætt með lækkun á handbæru fé.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum Viðauka IV við fjárhagsáætlun 2025 og felur sveitarstjóra að tilkynna hann til viðkomandi aðila.
7. Samþykkt um markaðsstyrk
Lagðar fram uppfærðar samþykktir um markaðsstyrk vegna atvinnustarfsemi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem taka gildi 1. janúar 2026.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum samþykkt um markaðsstyrk.
8. Ósk um að létta Gerði Stefánsdóttur störfum í sveitastjórn
Lagt fram erindi frá Gerði Stefánsdóttir þar sem óskað er eftir því að sveitarstjórn létti af Gerði störfum í sveitarstjórn vegna veikinda til 30. mars 2026.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að létta af Gerði Stefánsdóttir störfum í samræmi við 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 til 30. mars 2025. Axel Árnason Njarðvík tekur við sæti Gerðar Stefánsdóttur sem aðalmaður U-lista í sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
9. Verksamningur ÍSOR vegna vatnsveitumála í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Lagður fram verksamningur við ÍSOR vegna vatnsveitumála í skeiða- og Gnúpverjahreppi. Markmið samningsins er að framkvæma skoðun og úttekt á núverandi vatnsbólum og veitukerfum ásamt því að koma með tillögur að úrbótum og stækkun kerfisins. ÍSOR mun leggja til sérfræðiþekkingu og tækjakost til að taka saman yfirlit yfir þau vatnsból sem eru í notkun auk þess að endurvekja fyrri athuganir á nýjum vatnsbólum fyrir sveitarfélagið og tillögur að skipulagsbreytingum sem lúta að vatnsvernd.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagðan verksamning og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn.
10. Beiðni um styrk við viðhald girðinga við kirkjugarðs Stóra- Núpi
Lagt fram erindi til sveitarstjórnar, með vísan í lög um kirkjugarða, þar sem óskað er eftir styrk fyrir efni til viðgerðar á girðingu á norðurhlið kirkjugarðsins á Stóra-Núpi. Óskað er eftir styrk fyrir efni að upphæð 120.940 kr. og áætlað er að vinna verkið sumarið 2026.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að styrkja efniskaup í girðingu að upphæð 120.940 kr. Styrkveitingin rúmast innan fjárheimilda fjárhagsáætlunar 2026.
11. Lýðræðisleg þátttaka innflytjenda
Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um þátttöku í verkefninu lýðræðisþátttaka innflytjenda.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að taka þátt í verkefninu lýðræðisleg þátttaka innflytjenda og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.
12. Loftslagsstefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps – síðari umræða
Lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn Loftslagsstefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Tilgangur loftslagsstefnunnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi sveitarfélagsins. Niðurstaðan er byggð á vinnu skrifstofu sveitarfélagsins, sveitarstjórnar, stjórnenda og nefndamanna að nýrri framtíðarsýn, aðgerðum og verkefnum til að draga úr losun samfélagsins.
Í stefnunni er tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Loftslagsstefna sem hluti af metnaðarfullri Umhverfis- og Auðlindastefnu leggur þar með grunn að öðrum áætlunum og stefnum sveitarfélagsins og skal vera augljós vegvísir við ákvarðanatöku í daglegum rekstri sveitarfélagsins.
Í fyrstu útgáfu Loftslagsstefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er einkum litið til eigin reksturs sveitarfélagsins með áherslu á samgöngur, orkunotkun og úrgangsmál en auk þess vitundarvakningu íbúa og starfsfólks sveitarfélagsins. Fyrsta útgáfan er því aðeins upphafsskrefið á langri vegferð til sjálfbærara samfélags og kolefnishlutlausum rekstri sveitarfélagsins 2040.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða loftslagsstefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
13. Umsagnarbeiðni vegna máls nr. 1542/2025 í Skipulagsgátt
Lögð fram umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun er varðar Búðafossveg milli Þjórsárdalsvegar og Landvegar, nr. 1542/2025: Tilkynning um ákvörðun um matsskyldu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd, enda hefur Búðafossvegur verið í undirbúningi í tæplega tuttugu ár og íbúar svæðisins beðið eftir þeirri miklu samgöngubót sem Búðafossvegur mun skila. Búið er að gera grein fyrir veginum í aðalskipulagi beggja sveitarfélaga, efni í framkvæmdina að stórum hluta tilbúið ásamt því að brúin yfir Þjórsár hefur verið lengd með tilliti til straumhraða Þjórsár í undirbúningi verkefnisins. Að mati sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps er búið að minnka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar frá því að niðurstaða Skipulagsstofnunar frá árinu 2009 væri að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
14. Umsagnarbeiðni vegna máls nr. 1589/2025 í Skipulagsgátt
Lögð fram umsagnarbeiðni vegna endurskoðunar aðalskipulags Flóahrepps 2025-2037
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við endurskoðun aðalskipulags Flóahrepps 2025-2037.
15. 2025077629 umsagnarbeiðni á umsókn Skaftholts, sjálfseignarstofnunar um rekstrarleyfi fyrir Skaftholt Cottage, Skaftholti, 804 Selfoss, F2202561.
Lögð fram umsagnarbeiðni vegna umsóknar Skaftholts um rekstrarleyfi fyrir Skaftholt Cottage.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við framlagða umsókn um rekstrarleyfi í flokki II-C minna gistiheimili.
16. Þakkarbréf til þátttakenda í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa
Lagt fram bréf til kynningar sveitarstjórnar frá innviðaráðherra þar sem þakkað er fyrir þátttöku í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. í ár var sjónum sérstaklega beint að mikilvægi bílbeltanotkunar, enda hafa kannanir Samgöngustofu sýnt að dregið hefur úr notkun öryggisbelta meðal ungs fólks á síðustu misserum.
17. 2406056 - Umsagnarbeiðni, Hjálmholt L166235, Hvítárbyggð L238531, breytt lega frístundasvæði F22, aðalskipulagsbreyting
Lögð fram umsagnarbeiðni vegna aðalskipulagsbreytingar vegna Hjálmholt L166235, Hvítárbyggð L238531, breytt lega frístundasvæði F22 í Flóahreppi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ekki athugasemdir við fyrirhugaða aðalskipulagsbreytingu.
18. Fundargerð 314. fundar skipulagsnefndar
Hæll 1 L166569; Afmörkun 4 landskika og byggingarheimildir; Deiliskipulag – 2502076
Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags, eftir auglýsingu og afgreiðslu Skipulagsstofnunar, sem tekur til jarðarinnar Hæls 1 L166569. Í deiliskipulaginu felst afmörkun fjögurra landskika á bilinu 1,3 – 4,6 ha að stærð auk skilgreiningar á byggingarheimildum innan þeirra. Á hverjum skika er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsa, aukahúsa og fjölnotahúsa til atvinnurekstrar tengdum búskap. Athugasemdir bárust frá Skipulagsstofnun og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Stöðufell L166611; Staðfesting á afmörkun jarðar – 2510053
Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu dags. 20.10.2025 og undirskriftum, skv. reglugerð um merki fasteigna 160/2024, sem tekur til afmörkun jarðarinnar Stöðufells L166611 og sameignarlands í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að gera ekki athugasemd við framlagða merkjalýsingu.
19. Fundargerð 131. fundar stjórnar UTU ásamt Fjárhagsáætlun og gjaldskrá 2026
Fundargerð 131. Fundar stjórnar UTU lögð fram til kynningar og staðfestingar á dagskrárliðum 1 og 2 í fundargerðinni.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða gjaldskrá skipulagsmála og framlagða gjaldskrá byggingarmála samkvæmt dagskrárlið 1 í fundargerðinni. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum fjárhagsáætlun UTU 2026 samkvæmt dagskrárlið 2 í fundargerðinni.
20. Fundargerð 130. fundar stjórnar UTU
Fundargerð lögð fram til kynningar.
21. fundargerð aðalfundar SOS 2025
Fundargerð lögð fram til kynningar.
22. Fundargerð 989. fundar stjórnar Sambandsins
Fundargerð lögð fram til kynningar.
23. Fundargerð 339. fundar stjórnar SOS
Fundargerð lögð fram til kynningar.
Fundi slitið kl. 13:35
Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 17. desember kl. 9.00, í Árnesi.
Fundargerð undirrituð rafrænt.