Sveitarstjórn

35. fundur 10. janúar 2024 kl. 09:22 - 12:15 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Axel Á. Njarðvík
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

 

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla sveitarstjóra á 35. sveitarstjórnarfundi

Jólafrí
Snjómokstur og hálkuvarnir
Heimsókn Kristrúnar Frostadóttur
Fundir með Forsætisráðuneytinu
Undirbúningur framkvæmda í Árnesi
Rekstur sundlauganna
Framkvæmdir á skrifstofu sveitarfélagsins
Skattaumhverfi orkuvinnslu
Viðbygging á Skeiðalaug - Crossfit salur

 

2. Nýtt nafn á Skeiða- og Gnúpverjahreppi

​Að mati sveitarstjóra er mikilvægt að breyta nafni sveitarfélagsins þar sem nýtt nafn beri sterkari tengingu til staðsetningar á Íslandi, sé þjálla í notkun og gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa ímynd sveitarfélagsins til framtíðar.

Að því gefnu leggur sveitarstjóri til að kosið verði um hvort halda eigi núverandi nafni Skeiða- og Gnúpverjahreppur eða hvort breyta eigi nafni sveitarfélagsins. Kosið verði samhliða forsetakosningum 1. júní 2024.

Sveitarstjórn telur mikilvæg að góð umræða fari fram um mögulega nafnabreytingu og forsendu hennar. Sveitarstjóra er falið að boða til íbúafundar í mars þar sem málið verði kynnt og rætt. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum að kjósa um hvort breyta eigi nafni sveitarfélagsins og hvert nýtt nafn á að verða samhliða forsetakosningum 1. júní 2024. Gunnar Örn Marteinsson situr hjá afgreiðslu tillögunnar og leggur fram eftirfarandi bókun:

“Ég sé ekki ástæðu til að breyta um nafn á sveitarfélaginu, verði farið í þá vegferð tel ég að óska eigi eftir hugmyndum að nafni og síðan verði valdar tvær eða þrjár hugmyndir og kosið um þær.”

 

3. Þjóðarsátt til að ná niður verðbólgu

​Hjá stéttarfélögum, samtökum atvinnulífsins, ríkisstjórninni og fleiri hagaðilum er í gangi vinna er snýr að þjóðarsátt til að ná niður verðbólgu og vöxtum. Nokkuð ljóst er að mikill ávinningur verður fyrir alla íbúa takist samkomulag um slíka sátt.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum fullum vilja til að taka þátt í þjóðarsátt til að ná niður vöxtum og verðbólgu.

 

4. Úthlutun lóða í Brautarholti

Ný gata í Brautarholti, Vallarbraut, verður tilbúin í byrjun sumars. Í götunni eru lóðir fyrir fjögur einbýlishús, þrjú parhús og þrjú raðhús, samtals 19 íbúðir. Einnig eru til lóðir við Holtabraut 21a-c, 23a-c og 37-41 þar sem mjög langt er niður á fast sem gerir kostnað við jarðvegsvinnu mun meiri. Samtals eru við Holtabraut lóðir fyrir 9 íbúðir.

Sveitarstjóri leggur til að lóðir við Vallarbraut fari í auglýsingu í lok janúar og að lóðir verði tilbúnar til afhendingu 1. júní 2024. Lagt er til að byggingarréttargjald verði 500.000 kr. Á hverja íbúð. Byggingarréttargjald v. einbýlishúsalóðar verður þá 500.000 kr., fyrir parhús verður gjaldið 1.000.000 kr. og fyrir 3 íbúða raðhús verður gjaldið 1.500.000 kr.

Sveitarstóri leggur til að lóðir við Holtabraut 21a-c, 23a-c og 37-41 fari í auglýsingu í lok janúar og að lóðir verði tilbúnar til afhendingar 1. apríl 2024. Sökum jarðvegsaðstæðna á lóðunum verði lóðunum úthlutað án byggingarréttargjalds og með 75% afslætti af gatnagerðargjöldum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að auglýsa lóðir við Vallarbraut og að leggja á byggingarréttargjald skv. framangreindu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að auglýsa lóðir við Holtabraut 21a-c, 23a-c og 37-41 án byggingarréttargjalds og með 75% afslætti af gatnagerðargjöldum.

 

5. Endurskoðun á húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps – seinni umræða

​​Húsnæðisáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2024 lögð fram til samþykktar. Í áætluninni er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi úr 600 í 1.000 á næstu fimm árum og er áætlað að íbúðaþörf til næstu fimm ára verði 172 íbúðir. Þess má geta að þegar úthlutaðar lóðir ásamt þeim lóðum sem fara í úthlutun í lok janúar eru fyrir samtals 71 íbúð og má gera ráð fyrir að byggingu þeirra verði lokið innan næstu tveggja ára. Deiliskipulag fyrir fyrirhugaða uppbyggingu íbúða í Árnesi mun verða klár í lok árs 2024 og því má gera ráð fyrir nægu lóðaframboði í Árnesi frá og með vormánuðum 2025.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum húsnæðisáætlun ársins 2024 með fyrirvara um textabreytingar sem um var rætt og felur sveitarstjóra að skila henni til HMS.

 

6. Umsagnarbeiðni v/ ferðaþjónustusvæði við Selhöfða í Þjórsárdal

​​Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögn sveitarfélagsins við Ferðaþjónustusvæði við Selhöfða í Þjórsárdal, nr. 0005/2024: Tilkynning um framkvæmd (Tilkynning til ákvörðunar um matsskyldu).

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að vinna umsögn og leggja fram til samþykktar á næsta fundi sveitarstjórnar.

 

7. Kynning á starfi Markaðsstofu Suðurlands

​Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands kemur inná fundinn og kynnir starf markaðsstofunnar.

Sveitarstjórn þakkar Ragnhildi fyrir góða kynningu.

 

8. Frumvarp til laga um vindorku

​Frumvarp til laga um vindorku er komið í samráðsgátt stjórnvalda. Jákvætt er að loks skuli koma fram drög að lagaumgjörð fyrir uppbyggingu vindorku á Íslandi áður en fyrsti stóri vindorkugarðurinn verður reistur.

Sveitarstjóra er falið að vinna umsögn að frumvarpinu og skila í samráðsgátt stjórnvalda fyrir 19. janúar 2024.

 

9. Tekjuviðmið 2024

​Lögð fram til samþykktar uppfærðar viðmiðunarfjárhæðir tekna vegna afsláttar af fasteignagjöldum fyrir árið 2024. Einstaklingar 67 ára og eldri og einstaklingar sem eru 75% öryrkjar eða meira geta sótt um afslátt af fasteignagjöldum þeirrar íbúðar í sveitarfélaginu sem þeir eiga lögheimili í og miðast afslættir við árstekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks skv. skattframlagi RSK. Afslættir eru reiknaðir í upphafi hvers ár samhliða álagningu fasteignagjalda fyrir komandi ár. Útreikningar um tekjuviðmið 2024 taka breytingu á milli ára samkvæmt breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu desember 2022 til desember 2023.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum tekjuviðmið 2024 vegna afsláttar af fasteignagjöldum fyrir árið 2024.

 

10. Stofnsamningur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.

​Stofnsamningur fyrir Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. lagður fram til staðfestingar sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vísa stofnsamningi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. til síðari umræðu.

 

11. Fundargerð Almennavarna Árnessýslu

Fundargerð 3. fundar Almannavarna Árnessýslu lögð fram til kynningar

12. Fundargerð hússtjórnar Þjóðveldisbæjar

Fundargerð 5. fundar Hússtjórnar Þjóðveldisbæjar lögð fram til kynningar.

13. Fundargerð stjórnar SASS

Fundargerð 604. fundar stjórnar SASS lögð fram til kynningar

 

14. Fundargerð stjórnar Sambands Ísl. sveitarfélaga

Fundargerð 940. fundar stjórnar SÍS lögð fram til kynningar

Fundi slitið kl. 12:15. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 24. janúar, kl. 9.00, í Árnesi.