Sveitarstjórn

19. fundur 19. apríl 2023 kl. 09:00 - 13:00 Árnes
Nefndarmenn
 • Haraldur Þór Jónsson oddviti
 • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
 • Gunnar Örn Marteinsson
 • Karen Óskarsdóttir
 • Vilborg Ástráðsdóttir.
Starfsmenn
 • Sylvía Karen Heimisdóttir ritaði fundinn.
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera. Leitað var frábrigða. Óskaði oddviti ef því að bæta við einu máli á dagskrá, fundargerð skipulagsnefndar UTU nr. 258. Var það samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum og verður erindið nr. 12 á dagskrá. Færast aðrir fundarliðir neðar sem því nemur.

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

 1. Skýrsla sveitarstjóra á 19. sveitarstjórnarfundi

Sveitarstjóri fór yfir stöðu á eftirfarandi verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu fjórum vikum:

RÚV.
Orkumálin.
70 ára afmæli ML.
WorkPoint tekið í notkun.
Fundur með Byggðastofnun.
Ungmennaþing.
Gatnagerð í Brautarholti.
Undirbúningur framkvæmda í Leikholti.
Framkvæmdir í Skeiðalaug.
Reiðvegamál.
Áætlaður íbúafundur 3. maí.

 1. Bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um orkumannvirki

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 30. mars 2023 kynntu fulltrúar Samtaka orkusveitarfélaga bókun samtakanna frá 17. febrúar 2023. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti eftirfarandi bókun samhljóða:

Í stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2022-2026 er áhersla lögð á mikilvægi stjálfstæðra tekjustofna sveitarfélaga og að þeir verði breikkaðir og styrktir til að stuðla að fjárhagslegri sjálfbærni þeirra. Tekjustofnarnir skulu vera fjölbreyttir og standa undir þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir, hvort sem hún er lögskyld eða lögheimil. Lögð er áhersla á að sveitarfélög fái hlutdeild í auðlindagjaldi og að fasteignaskattur verði greiddir af öllum fasteignum, þ.m.t. öllum mannvirkjum sem tengjast virkjunum og flutningi rafmagns.

Ljóst er að málflutningur Samtaka orkusveitarfélaga styður við þessi markmið sambandsins. Mikilvægt er að ríkisvaldið bregðist við þessu ákalli sem allra fyrst og sýni í verki vilja til að auka og breikka tekjur allra sveitarfélaga á sanngjarnan hátt til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni þeirra.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fagnar stuðningi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga við málflutning Samtaka orkusveitarfélaga. Nærumhverfi orkuvinnslu er eini hagaðilinn sem hefur ekki notið sanngjarns ávinnings af henni. Mikilvægt er að leikreglum verði breytt til að nærumhverfi njóti sanngjarns ávinnings. Þannig verði lagður grunnurinn að sátt um þá orkuvinnslu sem nauðsynlegt er að ráðast í til að orkuskiptin raungerist.

 1. Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2022 - fyrri umræða

Haraldur Örn Reynisson endurskoðandi KPMG kom inn á fundinn og kynnti ársreikninginn og helstu niðurstöður. Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2022 lagður fram til fyrri umræðu. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.106,9 millj. kr. í A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.052,0 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 115,3 millj. kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 109,2 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 961,7 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 1.017,2 millj. kr. Sveitarfélagið hefur innleitt reglugerðarbreytingu nr. 230/2021 og er því hlutdeild sveitarfélagsins í byggðasamlögum færð í einstökum liðum rekstrar og efnahags til samræmis við hlutfallslega ábyrgð. Búið er einnig að færa áhrifin inn í samanburðarniðurstöður ársins 2021.

Niðurstöður ársreiknings 2022 teknar til fyrri umræðu. Endurskoðun er enn í gangi með tilliti til byggðasamlaga og annarra samstarfsverkefna sem er ekki að fullu lokið.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vísar ársreikningi til síðari umræðu.

 

 1. Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts 2022 - fyrri umræða

Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts 2022 lagður fram til fyrri umræðu. Rekstrartekjur hitaveitunnar námu 4,1 millj. kr. á árinu 2022 og hækkuðu um 0,5 millj. kr. milli ára eða um 14%. Hagnaður veitunnar á árinu 2022 nam 1,3 millj. kr. Eigið fé veitunnar í árslok var jákvætt um 14,4 millj. kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að vísa ársreikningi Hitaveitu Brautarholts 2022 til síðari umræðu.

 1. Endurskoðunarskýrsla KPMG 2022

Lögð fram til kynningar endurskoðunarskýrsla KPMG 2022. Skýrslan inniheldur niðurstöður endurskoðunar KPMG á ársreikningi sveitarfélagsins og er ætlað að upplýsa um atriði sem komu í ljós við endurskoðunina. Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi frá KPMG kynnir skýrsluna og svara spurningum sveitarstjórnar.

 1. Skólastefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Vinna við nýja skólastefnu hefur verið í gangi í allan vetur. Lögð fram drög að nýrri skólastefnu til framtíðar. Meginmarkmið þessarar skólastefnu er að í sveitarfélaginu sé framúrskarandi skólastarf. Skólarnir verði í fremstu röð um framsækið starf, lifandi og sveigjanlegt námsumhverfi. Stefnt er að því á næstu árum að leggja enn meiri áherslu á samstarf, skapandi starf, nýsköpun, fjölbreytta kennsluhætti og umhverfis- og sjálfbærnimennt í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Litið er svo á að skólastarf sé alltaf hægt að bæta og að gæðaskólastarf byggist öðru fremur á því að stöðugt sé leitað leiða til að gera það enn betra.

Í samvinnu við stjórnendur, starfsfólk, nemendur og foreldra er stefnt að því að búa skólunum fyrirmyndar aðstöðu og umhverfi. Hafinn verði undirbúningur að því að Þjórsárskóli verði í framtíðinni heildstæður grunnskóli og að styrkja enn frekar núverandi stöðu Leikholts. Endurhanna þarf Þjórsárskóla með hliðsjón af nýjum áherslum og huga að möguleikum á að reisa íþróttahús við skólann og Fablab/verknámshús.

Lykillinn að uppbyggingu sveitarfélagsins til framtíðar er öflugur skóli og eru markmiðin skýr, að búa til besta skóla á Íslandi. Í dag eru u.þ.b. 40 börn á leikskólaaldri og 70 börn á grunnskólaaldri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Gangi húsnæðisáætlun sveitarfélagsins eftir þá má gera ráð fyrir að fjölgun barna verði veruleg. Getum við gert ráð fyrir að fjöldi verði:

Eftir 5 ár, 2028, í leikskóla 65 börn, í grunnskóla 115 börn.

Eftir 10 ár, 2033, í leikskóla 90 börn, í grunnskóla 160 börn.

Mikilvægt er því að hefja undirbúning að uppbyggingu skólastarfs til framtíðar og stefna á að í sveitarfélaginu verði rekinn heildstæður grunnskóli 1-10.bekk í Árnesi, leikskóli í Árnesi og leikskólinn Leikholt í Brautarholti verður efldur.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að vísa framtíðaráformum í skólamálum sveitarfélagsins til annarrar umræðu. Sveitarstjóra og formanni skólanefndar falið að leggja drög að skólastefnu til kynningar og athugasemda fyrir íbúa inn á heimasíðu sveitarfélagsins. Drög að skólastefnu sveitarfélagsins verða kynnt á íbúafundi 3 maí nk.

 1. Ósk um skil á lóð

Óskað hefur verið eftir því að skila lóðinni Heiðargerði 1.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir með fimm atkvæðum að lóðinni sé skilað og gatnagerðargjöld verði endurgreidd. Sveitarstjóra falið að auglýsa lóðina aftur til úthlutunar.

 1. Drög að samningi um rekstur Þjóðveldisbæjar

Lögð fram drög að samningi við nýjan rekstraraðila að Þjóðveldisbænum í Þjórsárdal. Samningurinn er lagður fram til kynningar fyrir sveitarstjórn.

 

 1. Umsagnarbeiðni v. rekstrarleyfis

Lögð fram umsagnarbeiðni vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokk II – C minna gistiheimili að Hlemmiskeiði 5, fasteignanr. F220-1902, umsækjandi Sibbu Hús slf., 804 Selfoss.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við umsókn um rekstur gististaðar í flokki II.

 1. Aukaaðalfundarboð SO 2023

Lagt fram boð á aukaaðalfund Samtaka orkusveitarfélaga föstudaginn 21. apríl. Á fundinum verða kynntar tillögur starfsnefndar Samtaka orkusveitarfélaga um ávinning af orkuvinnslu en sveitarstjóri hefur verið formaður nefndarinnar. Samþykkja þarf tillögurnar af aðildarfélögunum sem munu síðan verða kynntar fyrir ráðherrum í ríkissjórn Íslands fyrstu dagana í maí.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að sveitarstjóri fari með atkvæði Skeiða- og Gnúpverjahrepps á fundinum.

 1. Fundargerðir svæðisskipulags Suðurhálendis

Lögð fram fundargerð frá fundi svæðisskipulagsnefndar 28. mars 2023. Taka þarf afstöðu til tillögu svæðisskipulagsnefndar og verkefnisstjórnar um að vinnu við gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið verði lokið og að skipting á viðbótarkostnaði sveitarfélaganna sem standa að skipulaginu verði samkvæmt meðfylgjandi töflu, þar sem hlutur Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2023 er 744.186 kr og fyrir árið 2024 372.093 kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vinnu við gerð svæðisskipulags Suðurhálendis verði lokið og samþykkir þann viðbótarkostnað sem fellur í hlut Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Viðbótarkostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.

 1. Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknissviðs uppsveita. Fundargerð 258. fundar.

 1. Þéttbýlið Árnesi í landi Réttarholts; Heiðargerði og Hamragerði; Aukin byggingarheimild; Deiliskipulagsbreyting – 2303076.

Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til þéttbýlisins að Árnesi. Í breytingunni felst að byggingarheimildir á íbúðalóðum við Heiðargerði og Hamragerði eru rýmkaðar. Heimilt verður að vera með kjallara á íbúðarlóðum þar sem aðstæður og landhæð gefa tilefni til.

Afgreiðslu frestað. Sveitarstjóra falið að staðfesta að breytingin sé í samræmi við fráveitukerfi sveitarfélagsins.

 1. Hlíð 1 Laufvallargil L220188; Tvö frístundahús og aukahús; Deiliskipulag – 2303077

Lögð er fram tillaga nýs deiliskipulags sem tekur til lóðarinnar Laufvallagils L220188. Í deiliskipulaginu felst að skilgreindir eru tveir byggingarreitir þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu tveggja sumarhúsa allt að 120 fm að stærð á einni eða tveimur hæðum. Einnig er gert ráð fyrir tveimur aukahúsum, gestahús, geymslu eða baðhúsi. Hámarksnýtingarhlutfall lóðar er skilgreint 0,02.

Að mati sveitarstjórnar fellur stefna deiliskipulagsins ekki að heimildum aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem gert er ráð fyrir tveimur frístundahúsum innan stakrar lóðar. Skipulagið fellur jafnframt ekki að heimildum aðalskipulags er varðar landskika allt að 3 ha þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir allt að 3 hús innan nýtingarhlutfalls 0,03 s.s. íbúðarhús, gestahús og skemmu/geymslu. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir allt að 6 byggingum, einu sumarhúsi og tveimur aukahúsum á hvorum byggingarreit. Afgreiðslu málsins frestað og skipulagsfulltrúa UTU falið að annast samskipti við umsækjanda

 1. Fundargerðir starfsnefndar Samtaka orkusveitarfélaga

Fundargerðir starfsnefndar Samtaka orkusveitarfélaga frá 28. mars og 4. apríl lagðar fram til kynningar

 1. Aðalfundarboð Markaðsstofu Suðurlands

Lagt fram aðalfundarboð Markaðsstofu Suðurlands vegna aðalfundar sem fer fram fimmtudaginn 4. maí nk. á Landhótel í Rangárþingi Ytra.

 1. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, SASS. Fundargerð 954. fundar stjórnar

Lögð fram fundargerð 954. fundar stjórnar SASS frá 24. mars 2023. Á fundinum kynntu Ása Valdís Árnadóttir og Haraldur Þór Jónsson tilgang Samtaka orkusveitarfélaga ásamt tillögu starfsnefndar orkusveitarfélaganna er varðar tekjur sveitarfélaga af orkuvinnslu. Stjórn SASS bókar eftirfarandi: Stjórn SASS tekur undir bókun Samtaka orkusveitafélaga um mikilvægi þess að arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu skiptist með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagaðilar við orkuvinnslu. Tryggja þarf að nærumhverfið, þar sem orkan á uppsprettu sína, njóti sanngjarns ávinnings. Lögð er áhersla á að sveitarfélög fái hlutdeild í auðlindagjaldi og að fasteignaskattar verði greiddir af öllum fasteignum, þ.m.t. öllum mannvirkjum sem tengjast virkjunum og flutningi rafmagns. Er það í samræmi við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022-2026 um styrkingu og breikkun tekjustofna sveitarfélaga svo stuðla megi að fjárhagslegri sjálfbærni þeirra.

Auk þess áréttar stjórn SASS mikilvægi þessa að breyta raforkulögum til að tryggja að dreifikostnaður raforku sé sá sami í dreifbýli og þéttbýli.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fagnar stuðningi stjórnar SASS við málflutning Samtaka orkusveitarfélaga. Nærumhverfi orkuvinnslu er eini hagaðilinn sem hefur ekki notið sanngjarns ávinnings af henni. Mikilvægt er að leikreglur verði breyttar til að nærumhverfi njóti sanngjarns ávinnings. Þannig verði lagður grunnurinn að sátt um þá orkuvinnslu sem nauðsynlegt er að ráðast í til að orkuskiptin raungerist. Einnig er mikilvægt að raforkulögum verði breytt og tryggt að dreifikostnaður raforku verði sá sami í dreifbýli og þéttbýli.

 1. Brunavarnir Árnessýslu. Fundargerð 7. fundar stjórnar

Fundargerð 7. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu ásamt ársreikningi Brunavarna Árnessýslu fyrir árið 2022, lögð fram til kynningar.

 1. Arnardrangar hses. Fundargerð 4. fundar stjórnar

Fundargerð 4. fundar stjórnar Arnardangs hses frá 17. mars 2023 lögð fram til kynningar.

 1. Tónlistarskóli Árnessýslu. Fundargerð 204. fundar stjórnar

Fundargerð 204. fundar stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga frá 29. mars 2023, ásamt ársreikningi Tónlistarskóla Árnesinga fyrir árið 2022, lögð fram til kynningar.

 1. Bergrisinn bs. Fundargerð 52., 53. og 54. fundar stjórnar

Fundargerðir nr. 52., 53. og 54. fundar stjórnar Bergrisans bs lagðar fram til kynningar.

 1. Sambands Íslenskra sveitarfélaga. Fundargerð 921. fundar stjórnar

Fundargerð 921. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lagðar fram til kynningar

 1. Umhverfis- og tæknisvið uppsveita, UTU. Fundargerðir stjórnar

Fundargerðir nr. 98., 99. og 100. fundar stjórnar UTU, ásamt ársreikningi UTU fyrir árið 2022, lagðar fram til kynningar.

 1. Heilbrigðisnefnd Suðurlands. Fundargerð 266. fundar

Fundargerð 226. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands ásamt ársreikningi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. fyrir árið 2022, lögð fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:45. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 3. maí, kl 09.00, í Árnesi.

Skjöl