Sveitarstjórn

78. fundur 05. apríl 2022 kl. 14:30
Nefndarmenn
  • Björgvin Skafti Bjarnason
  • oddviti
  • Anna Kristjana Ásmundsdóttir
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Einar Bjarnason
  • Ingvar Hjálmarsson
Starfsmenn
  • Auk þess sat Sylvía Karen Heimisdóttir sveitarstjóri sem einnig ritaði fundargerð

Fundur settur kl 14.30 og spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera

1. Loftslagsstefna staðan og næstu skref

Hrönn kynnti stöðuna á vinnu við loftslagstefnu sveitarfélagsins. Búið er að færa í loftslagsbókhald tölur frá síðasta ári, m.a. vegna aksturs starfsmanna í sveitarfélaginu, reksturs húsnæðis sveitarfélagsins, reksturs sundlauga, rafmagnskostnaðar og kostnaðar vegna úrgangs. Næstu skref eru að senda inn þessi gögn og fá niðurstöður yfir kolefnislosun stofnana sveitarfélagsins. Sveitarstjórn hrósar Hrönn fyrir vel unnin störf við söfnun og vinnslu gagna.

 

2. Umsókn um leikskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum umsókn um leikskóladvöl barnsins utan lögheimilissveitarfélags fram að sumarfríi leikskólaárið 2021-2022, að því gefnu að það sé pláss fyrir barnið í leikskólanum enda mikilvægt að barnið komist inn á leikskóla sem fyrst. Samþykkt er að greiða eftir viðmiðunargjaldskrá sambands íslenskra sveitarfélaga um leikskólagjöld.

 

3. Bugðugerði 6

Bjarni Sverrisson fyrir hönd Br. Sverrissonar ehf., óskar eftir að skila lóðinni Bugðugerði 6 sem hann fékk úthlutaða 13. jan 2021. Lóðin er skilgreind fyrir þriggja íbúða raðhús. Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að lóðinni Buðugerði 6 verði skilað og sveitarstjóra falið að auglýsa lóðina aftur til endurúthlutunar.

 

4. Húsnæðismál

Buðugerði 5b

Fasteign sveitarfélagsins að Bugðugerði 5b hefur verið í útleigu sem félagslegt húsnæði síðustu ár. Gera má ráð fyrir að húsið verði autt fljótlega eftir páska. Í framhaldinu þarf að fara í mikið viðhald innanhúss. Ekki er bið eftir félagslegu húsnæði í sveitarfélaginu. Eftirspurn hefur verið eftur íbúðinni bæði til leigu sem og kaupa.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að íbúðin verði sett á sölu í núverandi ástandi. Sveitarstjóra er falið að láta gera verðmat á eigninni og koma henni í sölu.

 

 

 

Skeiðalaug

Eins og oft hefur komið fram er húsnæði Skeiðalaugar illa farið og ljóst er að fara þarf í miklar framkvæmdir þar sem nema hundruðum milljóna ef vel á að vera til að hægt sé að halda Skeiðalaug gangandi. Sveitarstjórn náði samkomulagi við arkitekt hússins, Jes Einar, sem hefur samþykkt tillögur um endurbætur á húsnæði Skeiðalaugar.

 

5. Brautarholt notkun félagsheimilis

Brátt fer að sjá fyrir endann á framkvæmdum í félagsheimilinu í Brautarholti. Nú er verið að leggja lokahönd á glæsilega nýja aðstöðu í félagsrými hússins. Sveitarstjóri og oddviti héldu fund með aðilum frá Leikholti, foreldrafélaginu Leikstein, Búnaðarfélagi Skeiðamanna, kvenfélagi Skeiðamanna, ungmennafélagi Skeiðamanna, ásamt hönnuði og verkstjóra að breytingum á félagsrými húsnæðisins. Voru aðilar sammála því að koma húsinu í not að teknu tilliti til starfsemi Leikholts.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að húsið verði nýtt í samkomur, eins og skírnarveislur, fermingarveislur, afmæli, erfidrykkjur, ættarmót, fundi og námskeið. Ekki verður leyft að halda áfengisskemmtanir í húsinu. Sveitarstjóra er falið að auglýsa eftir umsjónaraðila á bæði félagsrými sem og félagsheimilinu í Brautarholti í heild og útfæra gjaldskrá.

 

6. Gámasvæði

Í ljósi þess að grenndargámastöðvar hafa verið settar upp bæði í Árnesi og Brautarholti og mikils kostnaðar við að reka tvær gámastöðvar í sveitarfélaginu er lagt til að annarri gámastöðinni verði lokað. Fara þarf í að setja upp vökvahellt plan á báðum stöðum vegna spilliefna. Í Árnesi er svæðið girt af og stutt í aðstöðu fyrir starfsmenn í áhaldahúsi sveitarfélagsins. Í Brautarholti þarf að girða svæðið af með öryggisgirðingu og koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn. Í ljósi þeirrar vinnu sem leggja þarf í við að loka svæðinu í Árnesi en koma upp góðu gámasvæði og góðri aðstöðu í Brautarholti er lagt til að gámasvæði í Brautarholti verði lokað og það svæði deiliskipulagt fyrir iðnaðarlóðir. Þá er lagt til að opnunartími gámasvæðis í Skeiða- og Gnúpverjahreppi verði frá kl 14- 16 á miðvikudögum og kl 10-14 á laugardögum.

Sveitarstjórn samþykkir með 5 atkvæðum að loka gámasvæðinu í Brautarholti frá og með 1. maí og að farið verði í að deiliskipuleggja svæðið fyrir iðnaðarhúsalóðir.

 

7. Hreinsunarátak - gámaleiga

Mikilvægt er að ítreka frekar flokkun úrgangs og snyrtimennsku í sveitarfélaginu. Lagt er til að hreinsunarátak verði í sveitarfélaginu frá 15. maí og fram að sveitahátíð 16. júní. Bændum verði boðið að fá járnagáma heim að bæjum án endurgjalds í 2 daga þennan tíma. Íslenska gámafélagið mun þá koma með gámana og sækja þá eftir tvo daga.Vikuna 10.- 16. júní verður frítt að koma með sorp á gámastöð.

 

8. Laun kjörstjórnar

Laun kjörstjórnar rædd í samræmi við ákvörðun sveitarstjórnar á 71. fundi sveitarstjórnar 17. nóvember 2021. Lagt er til að greitt verði áfram fyrir fundarsetu líkt og kveðið var á um í upphafi kjörtímabilsins. Á kjördag verði nefndarmönnum greitt fyrir hverja unna klst. Lagt er til að formanni nefndar verður greitt 7.000 kr. á klst en öðrum nefndarmönnum 4.950 kr. Sveitarstjórn samþykkir laun til kjörstjórnar með 5 atkvæðum.

 

9. Skólaakstur.

Sveitarstjóri greindi frá því að samningar við skólabílstjóra væru lausir núna í lok þessa skólaárs.

Sveitarstjórn samþykkti með 4 atkvæðum að framlengja samninga við bílstjóra um eitt ár. Sveitarstjóra falið að ræða við skólabílstjóra um áframhaldandi akstur skólaárið 2022-2023.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa máls vegna fjölskyldutengsla.

 

10. Fjárhagsáætlun. Reglur um viðauka við fjárhagsáætlun

Sveitarstjóri lagði fram til samþykktar reglur um viðauka við fjárhagsáætlun.

Sveitarstjórn samþykkti með 5 atkvæðum reglur um viðauka við fjárhagsáætlun.

 

11. Styrktarbeiðni Íslandsdeildar Transparency Int.

Styrktarbeiðni frá Íslandsdeild Transparency International að fjárhæð 50.000 – 250.000 kr. til að tryggja rekstrargrundvöll Íslandsdeildar sem berst gegn spillingu og fyrir heilindum í stjórnsýslu, stjórnmálum og viðskiptalífi.

Sveitarstjórn hafnar erindinu með 5 atkvæðum.

 

12. Opin svæði. Heilsueflandi samfélag

Tillaga frá verkefnastjóra heilsueflandi samfélags um kaup á 6 körfum til að setja upp frisbýgolfvöll, annars vegar með 4 körfum á Reykjanesinu Árnesi og hins vegar í Brautarholti, ásamt bekkjum. Áætlaður kostnaður eru um 1.000.000 kr.

Sveitarstjórn vísar málinu til Menningar- og æskulýðsnefndar.

 

13. Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita. Fundargerð 236. fundar skipulagsnefndar.

 

17. Brautarholt; Færsla Vallarbrautar og þétting byggðar; Deiliskipulagsbreyting - 2104010

Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar er varðar deiliskipulag Brautarholts í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eftir auglýsingu og uppfærslu á skipulagsgögnum. Helstu breytingar á deiliskipulaginu er þær að gatan Vallarbraut færist um 10-12m til austurs og suðurs. Bætt er við gönguleiðum, útivistarsvæði og leiksvæði bæði vestan við byggðina og eins sunnan við núverandi borholu hitaveitunnar auk þess sem skilgreint er svæði fyrir grenndargámasvæði norðan sundlaugar. Athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum skipulagsuppdrætti.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum breytingu á deiliskipulagi svæðisins og að málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi og verði auglýst á ný vegna uppfærðra skipulagsgagna. Málið verður sérstaklega kynnt þeim sem athugasemdir gerðu við fyrri auglýsingu málsins.

 

18. Búrfellsvirkjun sundlaug L166702; Borhola; Framkvæmdarleyfi - 2203026

Lögð er fram umsókn Rauðukamba ehf. um framkvæmdaleyfi. Um er að ræða umsókn sem tekur til endurútgáfu á framkvæmdaleyfi til borunar rannsóknarhola við Rauðukamba í Þjórsárdal, tilvísunarnúmer 1908075. Með umsókninni fylgja gögn fyrri umsóknar. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða mun bora þegar leyfi hefur verið endurnýjað og veður og aðstæður leyfa.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum að ekki verði gerð athugasemd við endurútgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi, er ekki talin þörf á grenndarkynningu.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins.

 

19. Bæjarás; Veiðihús; Deiliskipulag - 2203038

Lögð er fram umsókn frá Stóru-Laxárdeild veiðifélags Árness er varðar nýtt deiliskipulag sem tekur til veiðihúss að Bæjarási í landi Laxárdals. Innan lóðarinnar er heimilt að byggja allt að 400 fm hús á einni hæð sem þjónar starfsemi tengdri veiðifélagi árinnar. Hús sem gestir geta haft tímabundna gistingu í og þegið þá þjónustu sem verður í boði. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að leigja húsið út til gistingar fyrir ferðamenn allt árið um kring.

Skipulagsnefnd UTU telur að framlögð deiliskipulagstillaga sé ekki í fullu samræmi við aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem núverandi landnotun veiðihúss svæðisins er skilgreind sem afþreyingar- og ferðamannasvæði. Nefndin telur eðlilegt að landnotkun nýs veiðihúss verði skilgreind með sambærilegum hætti og þegar er gert innan aðalskipulags vegna veiðihúsa. Mælist nefndin því til þess að unnin verði skipulagslýsing vegna breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem skilgreint verði landnotkunin afþreyingar- og ferðamannasvæði á því svæði sem deiliskipulagstillagan tekur til. Samhliða verði heimildir er varðar AF2 sem tekur til veiðihúss í landi Skarðs 1 og 2 teknar til endurskoðunar í takt við bókun sveitarstjórnar frá 02.03.2022 vegna samsvarandi deiliskipulags á því svæði. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að hún verði kynnt samhliða tillögu aðalskipulagsbreytingar.

 

20. Selið L222243; Fyrirspurn - 2202061

Lögð er fram fyrirspurn frá Selshjáleigu ehf til skipulagsnefndar vegna lóðar Sels L222243. Í fyrirspurninni felst að óskað er eftir heimild til að setja niður stöðuhýsi og sumarhús á landinu á litlum lóðum í samræmi við framlagðan uppdrátt.

Skipulagsnefnd telur að núverandi heimildir aðalskipulags er varðar frístundasvæði nái ekki utan um framlagðar áætlanir um uppbyggingu innan svæðisins. Nefndin beinir því til umsækjanda að hafa samráð við skipulags- og byggingarfulltrúa UTU um hugsanlegar lausnir sem gætu hentað svæðinu og verið í takt við heimildir aðalskipulags er varðar uppbyggingu á frístundasvæðum og heimildum byggingarreglugerðar.

Afgreiðslu málsins frestað.

 

21. Búðarnáma E13; Aukið umfang efnistöku; Aðalskipulagsbreyting - 2203049

Lögð er fram skipulagslýsing ásamt umsókn frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi er varðar breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Í breytingunni felst stækkun á Búðarnámu merkt E13 á aðalskipulagi. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er stærð Búðanámu 50.000 m3. Með breyttu aðalskipulagi verði efnismagn námunnar allt að 125.000 m3. Nánar verður gert grein fyrir breytingunni í greinargerð aðalskipulagsbreytingar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

14. Stjórnsýslukæra v. vegaskrár Skeiða-og Gnúpverjahrepps

Umsagnir Umhverfisstofnunar og skipulagsstofnunar auk greinargerðar frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi vegna kæru Náttúrugriða um annmarka við framlagningu vegaskrár í Þjórsárverum í tengslum við gerð aðalskipulags sveitarfélagsins, lagðar fram til kynningar.

Sveitarstjórn er sammála um að koma vegaskránni að bæta úr formlegum annmörkum og koma vegaskránni í réttan farveg þannig að hún uppfylli skilyrði laga og reglugerða þar um.

15. Römpum upp ísland- Átaksverkefni

Lagt fram til umræðu og kynningar.

Sveitarstjóra falið að skoða málið betur.

 

16. Úrgangstölur 2021 frá SOS

Úrgangstölur frá Sorpstöð Suðurlands frá árinu 2021 til samanburðar við fyrri ár lagðar fram til kynningar. Óverulegar breytingar eru á milli ára. Endurnýting lækkar örlítið á meðan förgun og endurvinnsla eykst.

 

17. Dómsmálaráðuneytið. Sýslumannsembætti

Bréf dómsmálaráðherra um endurskipulagningu sýslumannsembætta lagt fram til kynningar.

 

18. Samband íslenskra sveitarfélaga. Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka

Viðmiðunarreglur um framlög lagðar fram til kynningar.

 

19. Seyrustjórnun. Fundargerð og minnisblað

Fundargerð og minnisblað lögð fram til kynningar.

 

20. Byggðasafn Árnesinga. Fundargerð 23. fundur stjórnar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

21. Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerð 908. fundar stjórnar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

22. Samband íslenskra sveitarfélaga. Bókanir stjórnar

Bókanir sambands íslenskra sveitarfélaga um átak í hringrásarhagkerfi og innleiðingu barnaverndarlaga lagðar fram til kynningar.

 

23. Bergrisinn. Fundargerð af fundi aðildarsveitarfélaga.

Minnisblað frá fundi aðildarsveitarfélaga lagt fram til kynningar.

 

24. Þingsályktunartillögur og frumvörp

Þingsályktunartillaga um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaráætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030 lögð fram til kynningar.

 

Frumvarp til laga um fjarskipti lagt fram til kynningar.

 

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna tilfærslu fasteignaskrár frá Þjóðskrá Íslands yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar lagt fram til kynningar.

 

25. Önnur mál löglega fram borin.

Matthías Bjarnason hefur óskað, af persónulegum ástæðum, eftir lausn frá setu í sveitarstjórn og öðrum störfum fyrir sveitarfélagið. Anna Kristjana Ásmundsdóttir mun taka sæti Matthíasar í sveitarstjórn út kjörtímabilið.

 

 

Fundi slitið kl. 17:55. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 27. apríl, kl 14.00. í Árnesi.

 

Gögn og fylgiskjöl: