- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:
|
1. Fundarsetning Vilborg Ástráðsdóttir, formaður skólanefndar, setti fund kl. 15:03 og bauð fólk velkomið. Hún spurðist fyrir um það hvort einhverjar athugasemdir væru við fundarboðið. Svo var ekki. Á fundinn voru mætt: Vilborg Ástráðsdóttir, Bjarni H. Ásbjörnsson, Sigríður Björk Marinósdóttir, Gunnhildur Valgeirsdóttir í forföllum Ingvars Hjálmarssonar, Kjartan Ágústsson í forföllum Önnu Maríu Flygenring, Guðmundur Finnbogason og Elvar Már Svansson. Ingvar Hjálmarsson og Anna María Flygenring boðuðu forföll. |
|
2. Málefni félagsmiðstöðvarinnar Ztart - starfsáætlun Elvar Már Svansson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Ztart, lagði fram starfsáætlun vetrarins. Markmið félagsmiðstöðvarinnar er að auka félagslega hæfni, þroska og jákvæða sjálfsmynd ungmenna með virkri þátttöku í starfi. Ungmennalýðræði er í heiðri haft þar sem ungmennin móta starfið. Félagsmiðstöðin er sjálfstæð rekstrareining og er óháð rekstri Þjórsárskóla. Hún þjónustar nemendur í 5. - 10. bekk í sveitarfélaginu. Áhersla er lögð á samstarf við aðrar félagsmiðstöðvar, forvarnarstarf og gott samstarf milli aðila sem koma að félags- og tómstundastarfi barna og ungmenna. Mikilvægt er að starfið taki mið af réttindum barna og ungmenna og byggir það á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem barnvænt samfélag er skilgreint. Barnasáttmálinn er rauður þráður í starfi félagsmiðstöðvarinnar Félagsmiðstöðin Zstart er staðsett í kjallara Þjórsárskóla og er opin fyrir nemendur á mið- og unglingastigi. Húsnæðið er skreytt af listamanninum Hansa og er vel búið afþreyingu fyrir nemendur. Félagsmiðstöðin fylgir skóladagatali Þjórsárskóla og er starfstíminn frá því í september og fram til loka maí. Finna má opnunartíma á facebook Ztart. Starfinu er ætlað að efla félagsfærin og tengsl barna og unglinga. Í því felst meðal annars að fara í ferðir, eins og böll, skemmtiferðir og söngkeppnir. Þar rís hæst unglingasamkoman SamFestingurinn sem haldin er í Laugardalshöll á hverju ári. Forvarnarstarf félagsmiðstöðvarinnar er í samstarfi við nokkra aðila, eins og Ungmennaráð Þjórsárskóla og foreldrafélögin. Þetta starf er einnig mikilvægur hlekkur í því að stuðla að heilsueflandi samfélagi. Ztart tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í starfi sínu. Þar verður sérstök áhersla lögð á undirmarkmið 3.5 um eflingu forvarna og meðferðar vegna misnotkunar vímuefna eins og fíkniefna og áfengis. Einnig verður lögð áhersla á undirmarkmið 5.1 um að afnema alla mismunun gagnvart konum og stúlkum. Undirmarkmið 12.5 fjallar um að forvarnir minnki úrgang, auki endurvinnslu og endurnýtingu og að draga úr sóun fyrir árið 2030. Undirmarkmið 12.8 fjallar um að fyrir árið 2030 verði tryggt að fólk um allan heim sé upplýst og meðvitað um sjálfbæra þróun og hvernig lifa skal í sátt við náttúruna. Að síðustu verður unnið að undirmarkmiði 16.1 um að draga verulega úr hvers kyns ofbeldi. Rætt var um hvort það væri ekki gott að geta mælt virkni og áhuga nemenda á starfinu í upphafi starfsins og síðan síðar til þess að fá einhvern samanburð. Umræður urðu um málið. |
|
3. Málefni félagsmiðstöðvarinnar Ztart - áherslur í fjárhagsáætlun Elvar Már lagði til að gert verði ráð fyrir kostnaði vegna ferða á Samfés og SamFestinginn, ásamt viðbótarhlutum sem eykur á fjölbreytni starfsins. Gjöf kvenfélaganna gefur tilefni til þess að setja upp stúdíó sem nýst gæti nemendum til að vinna upptökur í rými sem heldur utan um þau og veldur lítilli truflun frá umhverfinu. Umræður urðu um málið. |
|
4. Málefni félagsmiðstöðvarinnar Ztart - skýrsla forstöðumanns Skýrsla forstöðumanns Ztart var í formi myndbands sem sýnir nemendur í félagsstarfi. Skólanefnd þakkar Elvari fyrir mjög góða byrjun á starfi félagsmiðstöðvarinnar og spennandi tíma fram undan. Umræður urðu um málið. Elvar fór af fundi kl. 15:35. |
|
5. Málefni Þjórsárskóla - starfsáætlun 2025 - 2026 Skólastjóri, Guðmundur Finnbogason, lagði fram starfsáætlun Þjórsárskóla 2025 - 2026. Skóladagatal er með hefðbundnu sniði. Tveir tvöfaldir dagar eru á dagatalinu, skógarferð að hausti og árshátíð skólans, að þessu sinni að hausti. Vísað er að öðru leyti í starfsáætlunina sem finna má á vefsvæði Þjórsárskóla. Umræður urðu um málið. Skólanefnd staðfestir starfsáætlun Þjórsárskóla 2025 -2026.
|
|
6. Málefni Þjórsárskóla - breyting á skóladagatali Skólastjóri lagði fram ósk um breytingu á skóladagatali. Upplýst var um breytingar á tímum vegna Háskólalestar HÍ sem tekur þátt í smiðjum í Flóaskóla. Um minni háttar tilfærslur er að ræða og þær hafa einungis áhrif á tvær kennslustundir á mið- og unglingastigi miðvikudaginn 19. nóvember. Umræður urðu um málið.Skólanefnd samþykkir breytingu á skóladagatali.
|
|
7. Málefni Þjórsárskóla - áherslur skólastjórnenda í fjárhagsáætlun 2026 Skólastjóri fór yfir áherslur Þjórsárskóla í fjárhagsáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2026. Gera þarf ráð fyrir endurnýjun á tölvubúnaði fyrir miðstig og skipta út tölvum sem eru úr sér gengnar. Unnið verður í Microsoft-umhverfi og skýjalausnir nýttar. Bæta þarf aðeins innanstokksmuni í skólahúsnæðinu og gera þarf ráð fyrir búnaði í verknámshúsið eftir því sem þörfin knýr á eftir að húsið verður komið í fulla notkun. Skoða þarf möguleika á því að geta keypt vinnu og sérfræðiþekkingu vegna atriða eins og ferða og heimsókna. Umræður urðu um málið. Ingibjörg Sæunn Jónsdóttir kom á fund kl. 15:58.
|
|
8. Málefni Þjórsárskóla - áætlun um innleiðingu skólastefnunnar Skólastjóri ræddi stöðu innleiðingar á skólastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 - 2028. Skólastjóri sagði frá því að hann taki fyrir á hverjum fundi með starfsmönnum einn til tvo punkta varðandi skólastefnuna og hvernig hún geti komið inn í skólastarfið. Þannig er hugmyndin sú að skólastefnan sé ávallt á dagskrá og henni þannig komið smátt og smátt inn í starfið. Lagt var til að settur verði á laggirnar starfshópur sem fari yfir skólastefnuna og dragi fram að hluta framkvæmdaáætlun um næstu skref um frekari innleiðingu. Umræður urðu um málið. Helga Guðlaugsdóttir og Anna Greta Ólafsdóttir komu á fundinn kl.16:07. Sylvía Karen Heimisdóttir kom á fundinn kl. 16:12.
|
|
9. Málefni Þjórsárskóla - skýrsla skólastjóra Skólastjóri lagði fram skýrslu sína um starfið frá síðasta skólanefndarfundi. Hann ræddi við nýja starfsmenn um hvernig móttökurnar hafi verið, hvernig gengi að koma sér inn í starfið og hvað mætti gera til að auðvelda þeim að komast inn í ný verkefni. Aðstöðuleysi hefur haft dálítil áhrif, sérstaklega þar sem verknámshúsið er ekki alveg tilbúið. Flestar stofur eru í notkun öllum stundum. Viðtölum við foreldra er lokið og eru þeir almennt mjög ánægðir með það hvernig veturinn fer af stað. Nokkrir kennarar fóru á námskeið um Ritunarrammann og var mikil ánægja meðal þeirra með námskeiðið og verkfærið. Ritunarramminn hjálpar nemendum við að þróa textavinnu og auðveldar kennurum að nota til að leiðbeina. Kennarar og stjórnendur skólans fóru á Kennaraþing og námsstefnu SÍ þann 10. október. Góður vettvangur til að hitta kollega og ræða málin. Þar var meðal annars fjallað um gervigreind í skólastarfi og hvernig ætti að takast á við hana í skólastarfinu. Skólinn tók á móti góðri gjöf frá kvenfélögunum í sveitarfélaginu. Um var að ræða hljóðupptökubúnað og myndavél fyrir myndbönd af bestu gerð til notkunar í skólanum og við félagsmiðstöðina. Frábær gjöf sem opnar ýmsa möguleika í listsköpun. Lesfimiæfingar hafa verið lagðar fyrir og er unnið úr niðurstöðum þeirra. Auka þarf áhuga nemenda á bóklestri almennt, sem þarf að vinna með heimilum og samfélaginu. Danskennsla fer fram eins og undanfarin ár og verður afraksturinn að einhverju leyti hluti af árshátíðinni. Sundkennsla er mánaðarlega í Skeiðalaug fyrir nemendur í 5. og 6. bekk. Unglingastigið fer í íþróttir einu sinni í mánuði í Brautarholti sem hefur mælst mjög vel fyrir og svarar ákalli um betri aðstöðu til íþróttanáms. Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað eftir áramót með það fyrir augum að fjölga skiptum ef hægt er. Rýmingaræfing var haldin í skólanum þann 22. október og fengu nemendur og kennarar mikið hrós frá slökkviliðinu að lokinni æfingu. Unnið er að innleiðingu BRAVO innra matskerfis í skólanum. Samfélagslöggur komu í heimsókn í skólann nýverið. Er það liður í samstarfi sem lögreglan vill eiga við skólasamfélagið. Undirbúningur árshátíðarinnar er í fullum gangi. Nemendur og kennarar eru mjög spenntir fyrir verkefninu. Árshátíðarvinnan fer svo á fullt þann 6. nóvember. Næsta smiðjuferð verður í Flóaskóla þar sem menning mun ráða ríkjum. Háskólalest Háskóla Íslands kemur þar við og munu kennarar HÍ halda smiðjur fyrir nemendur á unglingastigi og námskeið fyrir kennara. Skólanámskrá hefur verið endurskoðuð og endurnýjuð af kennurum í samræmi við breyttar áherslur á Aðalnámskrá. Nýja námskrá má finna á vefsvæði skólans og er hún aðgengileg fyrir nemendur og foreldra. Skólanum barst boð frá Flúðaskóla um þátttöku í lokaferð 10. bekkjar næsta ár. Eftir umræður við foreldra og nemendur var það ákvörðun þeirra að fara sína eigin ferð. Flúðaskóla er þakkað fyrir boðið og foreldrum og nemendum er þakkað fyrir opið og gott samtal. Það er spennandi fyrir skólasamfélag að skapa sínar eigin hefðir og leita leiða til að efla og opna á samstarf í allar áttir. Skólastjóri lagði einnig fram öryggis- og heilbrigðisáætlun skólans sem finna má á vefsvæði hans. Umræður urðu um málin. Skólanefnd beinir því til sveitarstjórnar að fundin verði lausn í málefnum náms- og starfsráðgjafa gagnvart skólunum, en þau mál hafa verið í ólestri undanfarið.
|
|
10. Sameiginleg málefni - skýrsla formanns skólanefndar Formaður skólanefndar, Vilborg Ástráðsdóttir, fór yfir skýrslu sína um starfið frá síðasta skólanefndarfundi. Byggingaframkvæmdir ganga vel, verknámshúsið er á lokametrunum og er áætlað að smíðakennsla geti hafist núna eftir helgi í húsinu, en kennsla í myndlist/textíl og heimilisfræði í nóvember. Aðeins eru innréttingar eftir og að loka gólfinu. Samstarf við iðnaðarmenn hefur verið einstaklega gott og þeir sinna verkinu af áhuga og metnaði fyrir nemendurna okkar og kennara. Framkvæmdir við íþróttamiðstöðina okkar ganga að sama skapi mjög vel og eru vel á áætlun. Í næstu viku er áætlað að loka þakinu og koma gluggunum í húsið á næstu vikum. Áætlað er að halda reisugili þegar síðasta sperran er komin upp (lyftuhúsi). Á sveitarstjórnarfundi 15. október var tekin sú ákvörðun að segja upp samningi um samstarf við Hrunamannahrepp um félagsmiðstöðina Zero, eins og hún er í núverandi mynd. Eins og kunnugt er hefur verið stofnuð félagsmiðstöð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Ztart, og er nú ætlað að það verði öflugt samstarf þeirra á milli. Eins hafa orðið breytingar á fyrirkomulagi fulltrúa í skólanefnd Hrunamannahrepps og nú eru það áheyrnarfulltrúar sem sitja fundina. Þróunarsjóðinum hafa borist áhugaverðar umsóknir og leggur formaður til teams fund til að fara yfir umsóknirnar. Umræður urðu um málið. Bjarni fór af fundi kl. 17:00. Guðmundur fór af fundi kl. 17:05. |
|
11. Málefni til kynningar - Háskólalestin Lagt var fyrir erindi frá lestarstjóra Háskólalestarinnar, Kristínu Ásu Einarsdóttur, er varðar Háskólalest Háskóla Íslands. Um er að ræða lifandi vísindafræðslu fyrir sveitarfélögin í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahrepp, 19. - 20. nóvember næstkomandi. Opið vísindahús verður haldið laugardaginn 22. nóvember á Borg í Grímsnesi þar sem gestir á öllum aldri geta spjallað við fræðimenn um vísindin á lifandi og skemmtilegan hátt. Umræður urðu um málið. |
|
12. Málefni til kynningar - Gjöf frá kvenfélögunum Formaður skólanefndar kynnti gjöf frá kvenfélögunum í sveitarfélaginu til félagsmiðstöðvarinnar Ztart og Þjórsárskóla. Kvenfélögin gáfu stafræna myndupptökuvél og hljóðupptökubúnað. Umræður urðu um málið. Skólanefnd þakkar af heilum hug kvenfélögunum fyrir þessa höfðinglegu gjöf. |
|
13. Málefni Leikholts - starfsáætlun 2025-2026 Leikskólastjóri, Anna Greta Ólafsdóttir, lagði fram starfsáætlun leikskólans Leikholts 2025 - 2026. Þetta skólaár verða starfræktar þrjár deildir og ein stoðdeild með fjölda barna á bilinu frá 9 - 20. Vísað er að öðru leyti í starfsáætlunina sem finna má á vefsvæði Leikholts. Umræður urðu um málið. Skólanefnd staðfestir starfsáætlun Leikholts 2025 -2026.
|
|
14. Málefni Leikholts - áherslur í fjárhagsáætlun 2026 Leikskólastjóri fór yfir áherslur Leikholts í fjárhagsáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2026. Gera þarf ráð fyrir endurnýjun á leikbúnaði og efnivið fyrir leik barna. Nauðsynlegt er að bæta einnig í leikbúnað á leikskólalóðina. Áætlað er að amk 50 börn hefji leikskólavist haustið 2026 og gera þarf ráð fyrir þeim fjölda ásamt annarri fjölgun í fjárhagsáætlun. Umræður urðu um málið. 15. Málefni Leikholts - áætlun um innleiðingu skólastefnunnar Leikskólastjóri ræddi stöðu innleiðingar á skólastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 - 2028. Leikskólastjóri tekur undir fyrri bókun um stofnun samráðshóps um innleiðingarferli skólastefnu. Umræður urðu um málið |
|
16. Málefni Leikholts - Ársskýrsla 2024 - 25 Leikskólastjóri lagði fram ársskýrslu Leikholts fyrir síðasta skólaár. Helstu hápunktar skólaársins voru: SÍ-verkefnið og endurskoðun skólanámskrár færðust nær lokamarki. Innleiðing Meta Geta innra mats gæðakerfisins auk innleiðingar á rafrænu fundarkerfi og innleiðingu á Kinderpedia samskiptakerfinu. Heilsuefling og sjálfbærnisáherslur: Sund, skíðaþjálfun, útinám og gróðurverkefni. Nýtt brunaviðvörunarkerfi sett upp í júní 2025. Ný kjarasamningsákvæði, allir FOSS starfsmenn í 36 stunda vinnuviku og aðrir í vinnustyttingum. Rekstur innan fjárhagsáætlunar; þróunarstyrkir nýttir í sex verkefni. Gott foreldrasamstarf var áberandi á skólaárinu, bæði í viðburðum (árshátíð, vorhátíð, öryggisfundur) og með aukinni upplýsingagjöf um Kinderpedia. Einnig ber að nefna gott samstarf við skólanefnd og sveitarfélagið sem og aðra aðila skólasamfélagsins. Leikskólinn Leikholt stendur því vel faglega og rekstrarlega, með skýrar umbótaáherslur og traustan grunn til að þróa skólastarfið enn frekar á komandi starfsári. Áherslur næsta skólaárs eru að: Gefa út og innleiða fullbúna SÍ-handbók í skólanámskrá. Klára innleiðingu Meta Geta gæðakerfis og fundargerðakerfis og vera komin með nýja leikskólalóð. Skólaárið 2024–2025 gekk vel og einkenndist af jákvæðri stemningu, virkri þátttöku og öflugri faglegri samvinnu. Það var bæði viðburðarríkt og lærdómsríkt, þar sem mörg mikilvæg skref voru stigin í átt að markvissri skólaþróun og auknum gæðum í öllu skólastarfi. Við höfum notið góðs af samhentu og metnaðarfullu starfsfólki, öflugum foreldrasamskiptum og dýrmætum stundum með börnunum sjálfum. Verkefni ársins, hvort sem það voru tengd innra mati, nýjum námsáherslum eða endurbótum á aðstöðu, endurspegla samvinnu, framtíðarsýn og viljann til að gera enn betur. Með þessum orðum vil ég þakka öllum sem lögðu sitt af mörkum á árinu og horfum með von, tilhlökkun og bjartsýni til næsta skólaárs – með það að leiðarljósi að byggja áfram á sterkum grunni og efla skólastarfið í Leikholti enn frekar. Umræður urðu um málið.
|
|
17. Málefni Leikholts - skýrsla leikskólastjóra Leikskólastjóri lagði fram skýrslu sína um starfið frá síðasta skólanefndarfundi. Mönnun á leikskólanum hefur lagast og eru horfur góðar eftir áramót þegar fleiri starfsmenn koma til starfa, þá verður betra jafnvægi. Nú eru 45 börn í Leikholti og 2 bætast við á þessu ári. Í upphafi nýs árs bætast 3 börn í hópinn. Áætlað er að í lok skólaárs verði um 54 börn á leikskólanum. Kynningardagur leikskólans gekk mjög vel og var afslöppuð stemning í húsinu þegar foreldrar gengu um skólann, spjölluðu við starfsfólkið um starfið. Börnin sýndu foreldrunum allt það áhugaverða sem þau hafa unnið að. Stemningin endurspeglar skólabraginn og skólasamfélagið - afslappað og kærleiksríkt. Haustþing kennara var haldinn á Selfossi og var fróðlegur. Deildarstjórar sóttu ráðstefnu um leikskólamál. Lögð er áhersla á endurmenntun starfsmanna, en svigrúmið hefur verið lítið í haust vegna manneklu. Bætt verður úr því eftir áramótin. Verkefnið SÍ (snemmtæk íhlutun) er á lokametrunum og verður kynnt sveitarstjórnum og skólanefndum þann 7. nóvember. Elsti árgangur Leikholts æfir stíft fyrir 70 ára afmæli Tónlistarskóla Árnesinga. Brunaæfing var haldin nýlega og tókst vel. Skráð voru atriði til úrbóta. Rýmingaráætlun og teikningar sem fylgja henni hafa verið uppfærðar að hluta, tengd uppfærslu á brunakerfinu. Leikskólinn var lokaður frá kl. 12 á kvennafrídaginn. Umræður urðu um málið. |
|
18. Fundi slitið Fleira var ekki gert. Formaður sleit fundi kl. 18:00. |
Þeir fulltrúar sem voru á fundinum staðfesta fundargerðina með rafrænni undirritun.