Viljayfilýsing um húsnæðisuppbyggingu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Kristófer Tómasson, sveitarstjóri skrifuðu þann 18. nóvember sl. undir viljayfirlýsingu um aðkomu stjórnvalda að húsnæðisuppbyggingu í Árnes- og Brautarholtshverfum. Með því verður unnið að fjölgun leiguíbúða í sveitarfélaginu en leiguhúsnæði skortir mjög í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Fyrsti þáttur verkefnisins felur í sér aðkomu Íbúðalánasjóðs að fjármögnun byggingar á allta að fimm íbúðum í þéttbýliskjörnunum. Mjög þarft er að nýtt húsnæði rísi í sveitarfélaginu, ekki síst í ljósi íbúafjölgunar sem væntingar standa til að verði í sveitarfélaginu á næstu misserum í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu Hálendisbaðanna í Þjórsárdal. Íbúðalánasjóður mun koma að útfærslu verkefnisins og hefur sjóðurinn ákveðið að leggja sveitarfélaginu til eins milljóna króna styrk til þróunar þess. Styrkurinn er veittur sem hluti af sérstöku tilraunaverkefni sjóðsins, sem snýr að því að örva húsnæðisuppbyggingu utan suðvesturhorns landsins og bregðast við erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði, ekki hvað síst á landsbyggðinni.