Raðhús í byggingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Hákon Páll Gunnlaugsson byggingameistari við sökkulinn að raðhúsinu sem er að rísa í Árneshverfi
Hákon Páll Gunnlaugsson byggingameistari við sökkulinn að raðhúsinu sem er að rísa í Árneshverfi

Í þéttbýliskjarnanum við Árnes í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru hafnar framkvæmdir við byggingu þriggja íbúða raðhúss. Það er Hákon Páll Gunnlaugsson byggingameistari og fyrirtæki hans Selás-byggingar ehf, sem standa fyrir verkefninu. Framkvæmdir fara vel af stað og hefur Hákon þegar steypt sökkulinn. Byggingin telur samtals rúmlega 270 fermetra og er hver íbúð um sig um 90 fermetrar. Mikill skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Það má því ætla að íbúðirnar fyllist af fólki þegar þær verða tilbúnar til notkunar. Það er tæpur áratugur síðan byggt var síðast íbúðarhúsnæði í Árneshverfinu. Framtak Hákonar er fagnaðarefni.  Fleiri aðilar hafa sýnt því áhuga að byggja íbúðarhúsnæði í hverfinu. Auk þess eru í undirbúningi framkvæmdir við byggingu íbúða í hinum þéttbýliskjarnanum í sveitarfélaginu, Brautarholti.