Pistill frá oddvita

Frá framkvæmdum við íþróttahúsið
Frá framkvæmdum við íþróttahúsið

Á síðasta mánudag opnaði skrifstofa sveitarfélagsins eftir þriggja vikna sumarlokun. Hlutirnir eru því smá saman að fara í fastar skorður eftir sérstaklega mikla sumarblíðu síðustu vikurnar, enda framundan ekta íslensk sumarverður, þ.e.a.s. rok og rigning!
Það hafa verið töluverðar framkvæmdir í og við Þjórsárskóla í sumar. Í ágúst bætist 9. bekkur við í Þjórsárskóla, svo það fjölgar verulega í skólanum. Til að undirbúa fjölgunina höfum við verið í breytingum þar sem smíðastofan var tekin út og miðstigið stækkað inn í rýmið sem smíðastofan var í ásamt því að gera sér anddyri fyrir miðstigið. Einnig hófum við í sumar framkvæmdir við nýtt 200fm verknámshús við hliðina á Þjórsárskóla. Búið er að steypa plötuna í húsinu og mun nýja húsið rísa af fullum krafti eftir verslunarmannahelgina og verða tekið í notkun í haust. Þar mun verða ný smíðastofa, ný myndlistar- og textílstofa ásamt nýrri heimilisfræðistofu.
Framkvæmdirnar við íþróttamiðstöðina hafa gengið mjög vel á árinu og eiga þeir verktakar sem hafa unnið í framkvæmdinni mikið hrós skilið fyrir gott skipulag og góð vinnubrögð. Nú er steypuvinnan á síðustu metrunum ásamt því að langt er komið með að ganga frá öllum lögnum, fráveitu og hreinsistöð í jörðu. Fljótlega eftir verslunarmannahelgina byrjum við að sjá límtrés burðarvirkið rísa og áður en veturinn skellur á verður búið að reisa allt burðarvirki og loka húsinu. Við munum svo nýta tímann í vetur fyrir innivinnu. Ef verkefnið heldur áfram á jafngóðum hraða og hingað til verður íþróttasalurinn og búningsklefar komnir í notkun fyrir næstu páska.
Öll aðstaða fyrir skólann, frístundir og íþróttir verða því orðnar eins og best verður kosið haustið 2026 þegar Þjórsárskóli verður orðinn heildstæður grunnskóli 1-10. bekk. Þá munum við geta skipulagt heildstætt skóla-, frístunda- og íþróttastarf í samfellu á einum stað ásamt því að aðstaðan mun nýtast öllum íbúum sveitarfélagsins.
Síðustu mánuði hefur mikil vinna átt sér stað við að þróa framtíðar skipulag íbúabyggðar í Árnesi. Við höfum nú þegar haldið þrjá íbúafundi um verkefnið, en Páll Jakob Líndal, Dr. í umhverfissálfræði hjá Envalys hefur leitt þessa vinnu fyrir okkur. Við munum á næstu vikum auglýsa fjórða íbúafundinn um framtíðar skipulag íbúabyggðar í Árnesi og fara vel yfir hvernig Árnes muni líta út í framtíðinni.

Framkvæmdir við Fjallaböðin hafa verið á fullum krafti í allt sumar. Uppsteypan ríkur áfram af miklum krafti og er hótelið og baðlónið byrjað að taka á sig mynd. Í haust stendur til að halda opinn dag fyrir íbúa til að koma og skoða framkæmdirnar en það verðu auglýst frekar þegar nær dregur.

Hvammsvirkjun hefur verið töluvert í fréttum undanfarnar vikur, en þann 9. júlí felldi hæstiréttur úr gildi virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar. Í dómnum kom fram að lögum hafi verið breytt eftir að virkjanaleyfið var gefið út, en dæmt er eftir þeim lögum sem voru í gildi þegar virkjanaleyfið var gefið út. Hefði hæstiréttur dæmt eftir núgildandi lögum hefði virkjanaleyfið ekki verið felt úr gildi. Landsvirkjun sótti um bráðabirgða virkjanaleyfi til Umhverfis- og orkustofnunar þann 11. júlí ásamt því að þann 14. júlí sótti Landsvirkjun um til Umhverfis- og orkustofnunar að stofnunin hefji á ný málsmeðferð við afgreiðslu á umsókn um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Miðað við núgildandi lög mun Landsvirkjun fá bráðabirgða virkjanaleyfi eigi síðar en 8. ágúst og gera megi ráð fyrir að nýtt varanlegt virkjanaleyfi verði gefið út í haust. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) kvað upp bráðabirgða úrskurð vegna stöðvunarkröfu kærenda. Fallist var á að stöðva framkvæmdir sem eiga sér stað í frárennslisskurði Hvammsvirkjunar. Allar aðrar undirbúningsframkvæmdir geta haldið áfram. ÚUA á ennþá eftir að skila endanlegum úrskurði í þeim kærumálum er varða framkvæmdaleyfi sem Skeiða- og Gnúpverjahreppur gaf út í október 2024. Eins og fram kom í dómi Hæstaréttar, þá hefði virkjanaleyfið ekki verið fellt úr gildi samkvæmt núgildandi lögum. Því má ætla að óvissu um Hvammsvirkjun hafi verið eytt um leið og nýtt virkjanaleyfi hefur verið gefið út, sem verður samkvæmt núgildandi lögum í næstu viku.

Í byrjun þessa árs varð sú breyting er varðar förgun á dýrahræjum sem skila sér í dýragámana, að ekki er lengur heimilt að fara með dýrahræin í urðun. Því hefur þurft að keyra úrganginn í brennslu til Kölku á Reykjanesskaga. Sú breyting hefur leytt af sér gríðarlega kostnaðarhækkun, yfir 200%. Samkvæmt núgildandi lögum er okkur skylt að innheimta notendur þjónustunnar fyrir þessum kosnaði. Ljóst er að kostnaðurinn við núverandi fyrirkomulag er orðinn einfaldlega allt of mikill, en nauðsynlegt er að brenna dýrahræin til að uppfylla kröfur til förgunar á þessum úrgangi. Við höfum því fest kaup á sérstökum brennsluofni sem uppfyllir allar kröfur um förgun á dýrahræum. Brennsluofninn mun koma til landsins í haust og við stefnum að því að hann verði tekinn í notkun í október. Með þessu móti munum við geta tryggt förgun í samræmi við ítrustu kröfur ásamt því að við bindum vonir við að kostnaðurinn verði ekki meiri en hann var í eldra fyrirkomulagi, áður en þessar miklu hækkanir dundu á okkur. Við munum boða alla bændur á samráðsfund í haust um breytt fyrirkomulag á söfnun og förgun dýrahræja.
Fleira er það ekki að sinni,
Haraldur Þór Jónsson, oddviti