Nýtt ár framundan með góðum væntingum

Enn eitt árið hefur runnið sitt skeið. Að mínu mati hefur árið þokað okkur áfram á braut framfara hér í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ég vona að íbúum hafi liðið bærilega og helst betur á árinu sem var að kveðja. Eins og gerist eru persónulegar aðstæður misjafnar, fólk stendur frammi fyrir gleði suma daga og sorg aðra daga.

Þjónustustigið

Frá hálfu sveitarfélagsins hefur verið kappkostað að veita góða þjónustu á öllum sviðum. Ég vona að það sé upplifun íbúa að sveitarfélagið standi sig hvað það varðar. Það er jú meginhlutverk hvers sveitarfélags að veita mannsæmandi þjónustu. Ég heyri til að mynda að orðspor grunnskóla og leikskóla sé mjög gott. Börnum í leikskólanum hefur fjölgað umtalsvert á liðnum árum og fjöldinn í grunnskóla er uppá við ef litið er til síðustu ára. Það bendir til að barnafólki finnist áhugavert að búa í sveitarfélaginu. Tómstundastyrkur til ungmenna hefur verið hækkaður í 80.000 kr og munum við halda áfram að styðja við eldri borgara. Vona ég sannarlega að þeir sem leita erinda til okkar á skrifstofunni upplifi gott þjónustustig.

Framkvæmdir

Það hefur verið lokið við lagningu malbiks á götur í þéttbýliskjörnunum í Brautarholti og við Árnes. Auk þess hafa verið lagðar gangstéttir. Fráveitumálum hafa einnig verið gerð skil. Kostnaður við þetta verkefni er mikill eins og gefur að skilja. Lítill hluti af þeim kostnaði mun lenda á fasteignaeigendum í kjörnunum. Boðið verður uppá að dreifa þeim kostnaði eftir hentugleika á allt árið framundan. Heildarkostnaður við verkefnið er nálægt 140 milljónum en aðeins um 15-20 % kostnaðar mun lenda á fasteignaeigendum.

Með þessum framkvæmdum hefur ásýnd og yfirbragð þéttbýliskjarnanna orðið enn snyrtilegra. Ég hef orðið var við að utanaðkomandi fólk lítur hingað hýru auga. Ryk og holur í götum, mun nú heyra sögunni til. Fullyrða má að verðmæti fasteigna í kjörnunum mun stíga umtalsvert við þessar framfarir. Meira er byggt af íbúðarhúsnæði þessi misserin en verið hefur um langt skeið og munu ef að líkum lætur fleiri íbúðabyggingar fara af stað á þessu ári. Innan skamms verður byrjað á byggingu iðnaðarhúsnæðis við Tvísteinabraut um 500 m2 að stærð. Það er Bílaspítalinn ehf. sem stendur að þeirri byggingu.

Önnur verkefni

Gengið hefur verið frá kaupum sveitarfélagsins á tveimur íbúðum. Þær eru í sitt hvorum kjarnanum, önnur er komin undir þak og fljótlega verður hafist handa við byggingu hinnar. Það stendur til að leigja eða selja þessar íbúðir, það verkast eftir aðstæðum.

Í samstarfi við Hitaveitu Gnúpverja hefur sveitarfélagið unnið að því að virkja nýja borholu  í Þjórsárholti sem gefur mikið magn af heitu vatni. Hún var boruð árið 2018 með miklum árangri. Umhverfi við félagsheimilið Árnes og Þjórsárskóla hefur verið bætt með endurnýjun hellulagna. Almennu viðhaldi hefur verið gerð góð skil.

Vinnu við nýtt aðalskipulag sveitarfélagsins merkt árunum 2017-2029, er nú svo gott sem lokið eftir þriggja til fjögurra ára ferli, marga fundi, mikla vinnu og mikinn kostnað. Samhliða því hafa verið framkvæmdar nokkrar deiliskipulagsbreytingar á landeignum sveitarfélagsins.

Þjórsárdalurinn

Í nóvember síðastliðnum var skrifað undir samkomulag milli Rauðakambs og sveitarfélagsins með aðild forsætisráðuneytisins um leigu á landspildu við Reykholt í Þjórsárdal til uppbyggingar ferðaþjónustu. Fulltrúi forsætisráðuneytis ritaði einnig undir samkomulagið, sem eigandi þjóðlendunnar. Vinna Rauðakambs ehf. við hönnun mannvirkja og annan undirbúning stendur nú yfir og er reiknað með að framkvæmdir hefjist síðar á þessu ári. Ljóst er að þarna er um stórar framkvæmdir að ræða og standa vonir til að þarna skapist mörg störf til frambúðar. Forsvarsmenn Rauðakambs ehf, leggja uppúr því að störfin verði skipuð íbúum sveitarfélagsins og nágrannasveitarfélaga.

Fleira er að gerast í Þjórsárdal. Friðlýsing á afmörkuðu svæði þar mun taka gildi innan skamms, margt vinnst með því, í öllu falli landsvarsla og ekki síður lagfæring á landsvæðinu meðal annars með lagningu gangstíga.

Árið framundan

Á því ári sem nú er að hefjast verður lögð áhersla á að láta hjólin snúast sem fyrr. Þá er ég með í huga fyrst og fremst þjónustu við íbúa og aðra er við eiga, viðhald eigna og framkvæmdir. Eftir stórar fjárfestingar á síðustu árum þarf heldur að hægja á. En hendur verða ekki lagðar í skaut.

Ég óska öllum er þessar línur lesa farsældar á árinu 2020.

Kristófer Tómasson sveitarstjóri