Nýr starfsmaður á skrifstofu sveitarfélagsins

Árnes
Árnes

Hrönn Jónsdóttir hóf störf sem fulltrúi á skrifstofu Skeiða- og Gnúpverjahrepps 1. nóvember síðastliðinn. Helstu verkefni Hrannar eru skjalavarsla, greiðsla reikninga, upplýsingagjöf, símsvörun og annað tilfallandi.  Hrönn mun setjast í stól Kristjönu H. Gestsdóttur sem mun láta af störfum á næstunni eftir farsæl störf fyrir sveitarfélagið um árabil. Hrönn hefur lokið BSc. námi í ferðamálafræði og hefur auk þess stundað nám í Búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hrönn er ýmsum störfum vön og hefur síðastliðin ár verið verslunarstjóri Fóðurblöndunnar á Selfossi. Um tíma var Hrönn framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar. Auk þess hefur hún meðal annars starfað í ferðaþjónustu, tómstundastarfi með ungmennum, stundakennslu, fiskverkun og í sláturhúsi. Hrönn er gift Gylfa Sigríðarsyni bónda og eiga þau saman tvö ung börn, þau stunda sauðfjárbúskap í Háholti. Við væntum góðs af störfum Hrannar og bjóðum hana velkomna til starfa.