Leikskólinn flytur starfsemina tímabundið að Blesastöðum

Leikskólinn Leikholt Ljósm khg.
Leikskólinn Leikholt Ljósm khg.

Skömmu fyrir jól greindist mygla í húsnæði leikskólans Leikholts. Í ljósi þeirra aðstæðna var það metið svo að ekki væri um annað að ræða en flytja starfsemina úr húsnæðinu. Nokkrir húsnæðiskostir hafa verið skoðaðir og metnir að undanförnu af því tilefni. Það var tekin ákvörðun um það síðastliðinn föstudag að flytja starfsemi leikskólans að Blesastöðum á Skeiðum í húsnæði sem áður hýsti dvalarheimili fyrir aldraða og hefur undanfarin ár hýst ferðaþjónustu. Núna um helgina hefur verið unnið af miklum krafti að flutningi á búnaði úr leikskólanum að Blesastöðum. Þar komu margar vinnufúsar hendur sjálfboðaliða að málum. Á Blesastöðum mun leikskólinn opna á allra næstu dögum.

Myglan greindist skæðust í eldri hluta húsnæðisins á neðri hæð. Einnig í nýlegri millibyggingu sem orsakast frá raka í þaki. Viðgerðir eru þegar hafnar, viðgerð á þaki er langt komin og jarðvegsskipti hafa farið fram meðfram hluta hússins. Ætla má að tileyrandi framkvæmdir og þrif taki talsverðan tíma og daginn verði tekið að lengja mjög þegar flutt verður að nýju í húsnæðið. Kostnaður við verkefnið hefur ekki verið fyllilega greindur enn sem komið er. Ljóst er að hann verður mikill og ekki líkur á að tryggingar eða sjóðir komi þar að.

Þess er vænst að allir hlutaðeigandi í samfélaginu sýni þessum aðstæðum þolinmæði og skilning.

Sveitarstjóri