Kosningar um breytingu á nafni Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Kjörkassinn
Kjörkassinn

Á 42. sveitarstjórnarfundi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, miðvikudaginn 17. apríl sl. ákvað sveitarstjórn að þann 1. júní næstkomandi, samhliða kosningum um forseta Íslands kjósi íbúar sveitarfélagsins um það hvort skipta eigi um nafn eða ekki. Verði niðurstaða kosninganna þannig að meirihluti sé fyrir því að velja nýtt nafn á Skeiða- og Gnúpverjahrepp og hafin verði nafnasamkeppni með það að markmiði að kjósa um nýtt nafn á sveitarfélaginu samhliða alþingiskosningum.

Rétt til þátttöku í íbúakosningum hafa, samkvæmt 3. mg. 133. gr. sveitarstjórnarlaga, hver íslenskur, danskur, finnskur, sænskur eða norskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning hefst og á skráð lögheimili í því sveitarfélagi sem íbúakosning fer fram.  Erlendur ríkisborgari (af öðru þjóðerni en talið er upp hér fyrir ofan) hefur rétt til þátttöku ef hann hefur átt skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir lokadag atkvæðagreiðslu, ef hann hefur náð 18 ára aldri og er með skráð lögheimili í sveitarfélaginu.  

Kjörskrá kemur til með að liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins frá föstudeginum 17. maí nk.  og kjörstaður verður í Þjórsárskóla líkt og forsetakosningin. 

Hægt er að kjósa utan kjörfundar á skrifstofu Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá og með föstudeginum 17. maí frá kl. 9.00 - 16.00 mánudaga til fimmtudaga en 8-14 á föstudögum - á virkum dögum.