Iðnaðarhúsnæði byggt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Fyrsta skóflustungan að iðnaðarhúsnæði við Árneshverfi Síðastliðinn föstudagur, 9 september var viðburðaríkur í Skeiða – og Gnúpverjahreppi Þá var tekin fyrsta skóflustungan að nýju húsnæði við Tvísteinabraut við Árneshverfi. Það er Búnaðarfélag Gnúpverja sem stendur fyrir byggingunni. Um er að ræða veglegt og vandað iðnaðarhúsnæði um 500 fermetrar að stærð. Stálgrindarhús á steyptum sökklum, klætt með samlokueiningum. Brunavarnir Árnessýslu hafa þegar gengið frá kaupum á hluta af húsnæðinu undir nýja slökkvistöð. Skeiða – og Gnúpverjahreppur verður með eitt bil undir áhaldahús hreppsins. Þá hafa Björgvin og Petrína í Laxárdal keypt hluta hússins undir kjötvinnslu og Landstólpi ehf keypti talsvert rými í húsinu undir sína starfsemi. Það var formaður Búnaðarfélagsins Arnór Hans Þrándarson bóndi í Þrándarholti sem tók fyrstu skóflustunguna með myndarlegri beltagröfu. Er þar með þetta mikilvæga verkefni hafið. Landstólpi ehf mun sjá um grunn hússins og reisa það en Búnaðarfélagið mun sjá um að fullklára það til afhendingar. Áætlanir hljóða uppá að húsið veðri fullbúið afhent nýjum eigendum eigi síðar en 15.maí 2017. Það heyrir tvímælalaust til gleðitíðinda bygging sem þessi muni rísa. Mikið framfaramál er um að ræða fyrir samfélagið. Sveitarstjóri