Hvað er samfélag?

Ég get allt eins spurt hvað er sveitarfélag eða hvað er mannfélag. Í hvernig samfélagi viljum við búa? Nútíminn gerir kröfur um góða þjónustu. Ekkert samfélag verður rekið án þess að börnin geti sótt leikskóla eða grunnskóla. Sorpið þarf að hirða og velferðarmálum þarf að sinna þar með er talin þjónusta við fatlaða og aldraða. Stjórnsýslulegar ákvarðanir þarf óhjákvæmilega að taka. Það þarf að hafa fólk í vinnu til að uppfylla þær samfélagslegu skyldur sem lagðar eru á sveitarfélög. Þetta kostar allt útgjöld. Samspil milli tekna og útgjalda verður alltaf línudans. Þeim tekjum sem koma í kassa sveitarfélagsins hefur verið útdeilt jafnharðan til rekstrar innviða. Ekki hefur verið safnað í sjóði.

Leikskólinn og myglan

Það er ekki hægt að segja að síðasta ár hafi endað vel eða nýtt ár byrjað vel í rekstrinum hjá okkur. En eins og kunnugt er blasir við að kostnaður vegna mygluskemmda í húsnæði leikskólans eru miklar og verða dýrar úrlausnar. Ekki er um að ræða neina kostnaðarþátttöku sjóða eða tryggingafélaga í þeim efnum. Það er ekkert annað í stöðunni en setja undir sig hausinn og klára þau útgjöld með einhverjum hætti. Það hefur borið talsvert á veikindum starfsmanna leikskólans á síðustu misserum. Vísbendingar eru um að þar geti hafa komið til áhrif vegna myglu á vinnustaðnum. Hentugt húsnæði bauðst undir leikskólann á Blesastöðum og ekki annað að sjá en starfið gangi vel á þeim stað eftir atvikum. Það er gert ráð fyrir að hægt verði að flytja leikskólann aftur í Brautarholt í fyrsta lagi í maí næstkomandi.

Rekstur

Að undanförnu hefur rekstur sveitarfélagsins verið glíma. Árið 2019 var okkur erfitt. Það kom til samdráttur í tekjum og á sama tíma jókst kostnaður mikið. Rekstur á árunum þar á undan gekk vel. Árið 2020 var einnig þungt í rekstri hjá okkur. Það styttist í að niðurstaða rekstrar þess árs liggi fyrir.

Skuldsetning sveitarfélagsins er enn sem komið er mjög skikkanleg. En ljóst er að ekki er hægt að sætta sig við að taprekstur ár eftir ár. Undirritaður unir því í öllu falli ekki.

Það eru áskoranir að reka sveitarfélag og varla hægt að ætlast til að það verði alltaf dans á rósum. Hér í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru tekjustofnar frekar góðir. En kostnaðarliðir eru líka þungir. Miklar fjárfestingar hafa átt sér stað á undanförnum árum svo sem í gatnagerð og fráveitu. Kostnaður við málaflokka í rekstri er meiri hér en í mörgum sambærilegum sveitarfélögum. Skeiða- og Gnúpverjahreppur er eina sveitarfélagið á landinu sem ekki innheimtir gjald fyrir vistun í leikskóla. Það er mín persónulega skoðun að þegar þrengir að í rekstrinum sé það ekki réttlætanlegt. En úr því að ekki er útlit fyrir að slíkri gjaldtöku verði komið á, þarf að finna aðrar leiðir í að hagræða í rekstri sveitarfélagsins. Það er  yfirleitt ekki vinsælt að taka ákvarðanir um að hækka útgjöld eða draga úr þjónustu. Á næstunni má búast við að lagðar verði fram tillögur til hagræðingar.

Upplýsingaflæði

Upplýsingagjöf frá sveitarfélögum til íbúa og annarra hlutaðeigandi aðila þarf að vera nægjanleg. Eitthvað hefur borið á þeim röddum sem finnst að á upplýsingafæði vanti héðan af skrifstofu sveitarfélagsins. Það þykir mér miður. Ekki ætla ég að víkjast undan því að ábyrgðin er mín hvað það varðar.  Mín upplifun er sú að um árabil hafi starfsfólk hér gert sitt besta til að koma frá sér  upplýsingum um flest það sem þarf að miðla upplýsingum um og aðgengi að sveitarstjóra hefur að ég held ekki verið erfitt. Ég og mitt samstarfsfólk hefur eftir því sem ég best veit lagt áherslu á að svara skilaboðum hratt og vel. Ég hef auk þess sent frá mér pistla öðru hverju um það sem er efst á baugi. Við setjum til að mynda inn fylgigögn á heimsíðu sveitarfélagsins með fundargerðum  frá sveitarstjórnarfundum, það er meira eða flest önnur sveitarfélög gera.

Fréttabréf

Eins og fram kom í pistli mínum í fréttabréfinu sem gefið var út í desember síðastliðnum verður breyting hvað varðar útgáfu fréttabréfsins. Það verður minna lagt í fréttabréfið. Framvegis munum við hér á skrifstofunni taka saman það helsta sem er á baugi og setja saman í eitt rit sem verður aðgengilegt á vefnum. Við munum bjóða íbúum 60 ára og eldri uppá að fá það sent og hugsanlega fleirum sem þess óska. Við gerum ráð fyrir að þetta rit verði gefið út einu sinni í mánuði.

Bókasafn

Það er ekki gert ráð fyrir að bókasafnið verði rekið í þeirri mynd sem það er nú nema fram undir vorið. Endanlega ákvörðun um útfærslu er ekki alveg ljós.
 

Nú hækkar sólin á lofti og dagurinn lengist. Það er ákaflega margt jákvætt hér í sveitarfélaginu. Hér eru öflug fyrirtæki með starfsemi. Mannauður og mannlíf er gott. Upp til hópa viðrist mér fólk búa við bærileg lífskjör hér. Þó að heldur hafi verið þungur róðurinn í rekstrinum undanfarin misseri þá trúi ég að til lengri tíma litið sé bjart yfir hér á þessu svæði.

Góðar stundir

Kristófer Tómasson sveitarstjóri