Grænfáninn afhentur Þjórsárskóla í sjötta sinn

Grænfáninn afhentur Þjórsárskóla í sjötta sinn
Grænfáninn afhentur Þjórsárskóla í sjötta sinn

Þjórsárskóli fékk í dag 25. nóvember Grænfánann afhentan í sjötta sinn. Það er viðurkenning sem Landvernd veitir fyrir góða frammistöðu í umhverfisvernd. Samhliða því var undirritaður samningur milli skólans og  Skógræktar ríksins um samstarf til næstu þriggja ára. Af þessu tilefni héldu nemendur og starfsfólk skólans hátíð.  Skólar á grænni grein eða  Grænfánaverkefnið er alþjóðlegt verkefni sem hefur þann tilgang að auka umhverfismennt nemenda og styrkja umhverfisstefnu í skólum landsins. Verkefninu er stýrt hér á landi af Landvernd. Þegar skólar hafa uppfyllt viss skilyrði er þeim heimilt að flagga Grænfánanum í tvö ár eftir það. Ef skólar viðhalda góðu starfi á sviði umhverfismála áfram fá þeir endurnýjað leyfi til að flagga fánanum. Víða í Evrópu er Grænfáninn virtur sem tákn um umhverfisstefnu og árangursríka fræðslu á því sviði.

Markmið Grænfánaverkefnisins eru eftirtalin.

Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.

  • Efla samfélagskennd innan skólans.
  • Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
  • Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
  • Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
  • Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
  • Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.