Gleði og glaumur á Uppsprettunni

Leikhópurinn Lotta skemmtir gestum
Leikhópurinn Lotta skemmtir gestum

Byggðahátíðin Uppsprettan var haldin í Skeiða – og Gnúpverjahreppihelgin 18. -19. júní s.l. Meðal atriða voru leikhópurinn Lotta, pöbbakvöld með Magga Kjartans, handverkssýningin ,,Bjástrað á bæjunum“ , myndgáta og ratleikur auk hoppukastala og klifurveggs. Auk þess var heimsmeistaramótinu í fótboltanum gerð skil á stóra tjaldinu á laugardeginum.

Keppnin ,,Brokk og skokk“ var haldin á laugardeginum. Þar fóru hestar og mannfólk á kostum í stórkostlegri keppni. En þessi keppni hefur fest sig í sessi og var nú haldin í fjórða sinn. Þar er keppt í tveimur riðlum. Fjölskylduhringur og íþróttahringur fyrir lengra komna.

Á hátíðinni voru veitt Hvatningarverðlaun. Að verðlaununum standa ungmennafélögin tvö í sveitarfélaginu, Ungmennafélag Skeiðamanna og Ungmennafélag Gnúpverja ásamt Sveitarfélaginu.

Hvatningarverðlaun skal veita einstaklingum sem sýnt hafa góða frammistöðu í íþróttum eða félagsstörfum, eða hafa verið til fyrirmyndar með einum eða öðrum hætti. Verðlaunin eru hugsuð sem hvatning til áframhaldandi góðra verka.

Verðlaunin voru veitt þeim Bergsveini Vilhjálmi Ásmundssyni frá Norðurgarði og Valgerði Einarsdóttur frá Hæli.  Bergsveinn æfir handbolta með 5. flokki karla á Selfossi og hefur verið útnefndur baráttmaður hjá sínu liði. Þar er hann lykilmaður. Valgerður æfir frjálsar íþróttir og körfubolta. Hún hefur náð sérlega góðum árangri í langstökki og hástökki og er þar komin í fremstu röð jafnaldra á landsvísu.

Það er mál manna að hátíðin hafi tekist virkilega vel í alla staði. Aðsóknin var góð og voru veðurguðirnir sanngjarnir. Rétt eins og þeir eru oftast nær í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Stemningin var sérlega góð. 

  • Brokk og skokk