Evrópski menningarminjadagurinn 14. október

Minjar og náttúra á Íslandi
Minjar og náttúra á Íslandi

Í tilefni af evrópska menningarminjadeginum 2017 sem ber yfirskriftina Maður og náttúra verður tekið á móti gestum á milli kl 12 og 16 þann 14. október í Laugarvatnshellum í Bláskógabyggð. Hellarnir tveir hafa verið höggnir í móberg í Reyðarbarm ofan Laugarvatnsvalla, miðja vegu milli Laugarvatns og Þingvalla. Hellarnir hafa í gegnum tíðina verið í alfaraleið á milli Suður- og Vesturlands og hafa löngum verið notaðir sem áningarstaður, afdrep fyrir gangnamenn og sem fjárhellar. Í upphafi 20. aldar hóf fólk fasta búsetu í hellunum og bjuggu þar tvær fjölskyldur hvor á eftir hinni og ráku meðal annars greiðasölu. Kristján X Danakonungar fékk þar í Íslandsheimsókn sinni árið 1921 skyr með rjóma hjá Vigdísi Helgadóttir húsfreyju. Mögulega hefur fólk hafist við í hellunum í fyrndinni en um það er erfitt að fjölyrða.

Menningarminjadagarnir eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem eiga hlut að Menningarsáttmála Evrópu. Allt frá Aserbæsjan í austri, Tyrklands í suðri, Portúgals í vestri og Íslands í norðri. Markmið menningarminjadaganna er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna.

Viðburðir sem tengjast menningarminjadeginum verða um allt land og má finna dagskrána á heimasíðu stofnunarinnar og á fésbókarsíðu.

Veturinn 2016 - 17 hafði Smári Stefánsson á Laugarvatni (Laugarvatn Adventure) forgöngu um að endurgera stærri hellinn, eins og hann var þegar síðast var búið í honum, í samráði við sveitarfélagið, Ríkiseignir og Minjastofnun Íslands. Framkvæmdin hefur tekist geysilega vel og hefur Minjastofnun nú fengið Smára og félaga til að leiðsegja gestum um hellana og vera þannig fulltrúar og innlegg Sunnlendinga til hins evrópska menningarminjadags.