6. desember - Jólahefðir í Hollandi

Hinn Hollenski Sinterklaas
Hinn Hollenski Sinterklaas

Í Hollandi halda flestir jólin hátíðlega en ekki allir gefa gjafir á jólunum eins og tíðkast á Íslandi. Flestar fjölskyldur gefa gjafir í tengslum við aðra hefð sem nefnist ,,Sinterklaas”. Á aðfangadagskvöld borðar fólk saman góðan en óformlegan kvöldverð, oft með góðum vinum og þá er jafnan spilað. Margir fara í kirkju á aðfangadagskvöld og eru við stutta guðþjónustu. Jóladagur er formlegri en aðfangadagur. Flestir fara í kirkju á jóladagsmorgun og þá er mjög falleg og hátíðleg athöfn. Eftir kirkjuna fer fjölskyldan heim og er saman allan daginn. Fyrst er drukkið saman kaffi og síðan borðaður góður kvöldmatur um kvöldið, sem oft er í formi hlaðborðs með allskonar réttum. Á hlaðborðinu er oft mikið um villibráð, t.d. héra og gæs, en það eru ekki miklar hefðir í kringum jólamatinn svo matseðillinn er oft mismunandi milli ára. Annan í jólum fer fólk oft saman í gönguferð í skóginum eða stundar aðra útivist. Að kvöldi annars jóladags fer fólk gjarnan út að borða og unga fólkið fer út á lífið í framhaldinu.

Önnur þekkt hefð í Hollandi í desember er Sinterklaas, sem er hátíð barnanna og sú hátíð þar sem flestir Hollendingar gefa fjölskyldu og vinum gjafir. Kvöldið sem fólk skiptist á gjöfum er 5. desember en aðdragandinn er um það bil tvær vikur. Saga Sinterklaas er sú að eitt sinn var aðalsmaður á Spáni sem kallaður var Sint Nicolaas (e. Saint Nicolas) en kallaður Sinterklaas í Hollandi. Aðalsmaðurinn, sem er að minnsta kosti 500 ára gamall, kemur með skipi til Hollands. Meðferðis hefur hann gráan hest og aðstoðarmann sinn Piet. Sinterklaas hefur stórt hvítt alskegg, klæðist rauðri skikkju með gullnum krossi, með gullstaf í hendi og á höfði sér ber hann háan rauðan hatt. Sinterklaas kemur að landi í einhverri af mörgum hafnarborgum Hollands á stóra gufuskipinu sínu. Þangað er alltaf mættur fjöldi fólks sem tekur á móti honum og frá þessu er sýnt í ríkissjónvarpinu. Eftir að Sinterklaas er mættur til landsins geta börn farið að freista gæfunnar, sett skóinn sinn hjá arninum og vonað að Sinterklaas komi við hjá þeim. Það má alls ekki gleyma að setja gulrót í skóinn sem ætluð er hesti Sinterklaas. Sinterklaas ríður á hestinum yfir húsþökin, kemur niður strompinn og skilur eftir litlar gjafir í skónum. Hann fer líka í skólana og hittir börnin þar. Ef börn eru óþekk er alltaf viss hætta á því að Sinterklaas taki þau með sér til Spánar eftir 5. desember.

Sinterklaas er að sjálfsögðu að mestu fyrir yngstu börnin en eldri börn og fullorðnir halda þó líka upp á Sinterklaas með því að setja litla óskalista í körfu og hver og einn fjölskyldumeðlimur dregur úr körfunni einn lista. Svo kaupa allir gjöf fyrir þann sem þau drógu og semja þar að auki ljóð, sem í raun er frá Sinterklaas og fjallar um þann sem á að fá gjöfina. Þegar fjölskyldan kemur svo saman að kvöldi 5. desember opna allir gjafirnar sínar og þá á að giska hver samdi ljóðið og gaf gjöfina. Þetta er alltaf notaleg kvöldstund þar sem borðað er allskyns góðgæti, nammi og kökur sem eru sérstaklega búnar til handa Sinterklaas. Þá er líka gjarnan hlustað á sérstök Sinterklaas lög sem eru mikið sungin með börnunum í aðdraganda 5. desember. Eftir kvöldið yfirgefur Sinterklaas aftur landið og heldur heim á leið til Spánar á gufuskipinu, með hestinum og aðstoðarmanni sínum.

Jólakveðjur frá Klaas og fjölskyldu á Hæli 1