4. desember Í eftirleit

Fyrrum leitarmannakofi í Kjálkaveri - í sól og sumaryl
Fyrrum leitarmannakofi í Kjálkaveri - í sól og sumaryl

Í fyrsta bindi bókanna Göngur og réttir, sem gefið er út árið 1948, er saga af Gnúpverskum bændum í eftirleit síða hausts.  Sagan minnir á Aðventu -sögu Gunnars Gunnarssonar og bætir okkur ef til vill aðeins upp snjóleysið á þessari aðventu. 

Síðla hausts 1894 fóru þeir Ólafur Bergsson og Gísli Einarsson, þá bændur á Skriðufelli og í Haga í Þjórsárdal í eftirleit einir saman á afrétti Gnúpverja, er liggur vestan Þjórsár og nær inn að Hofsjökli. Þeir lögðu af stað úr byggð í öllu góðu, veður var heiðskírt og stillt og lítið frost og auð jörð. Þeir fóru sem leið liggur venjulega áfanga á degi hverjum. Fyrsta daginn fóru þeir inn í Gjá og er þangað þriggja stunda ferð úr byggð. Næsta dag fóru þeir í Gljúfurleit sex stunda ferð en þriðja daginn í Kjálkaver og er þá komin 14 stunda ferð úr byggð. Þennan dag leituð þeir svonefnda Norðurleit ofanverða og fundu 10 kindur. Þótti þeim sá dagur vel takast. Næsta dag ætluðu þeir sér að fara inn yfir Fjórðungssand. Þá var venja að haga þar leitum svo, að fara úr Kjálkaveri og þangað aftur en nátta sig ekki fyrir innan sandinn nema nauðsyn krefði. Fóru þeir af stað fyrir dögun í sama blíðviðri og verið hafði undanfarið. Þegar birta tók af degi fór loft að þykkna og útlit að ljótkast og áður en langt leið var komin svartaþoka. Þeir létu það þó ekki á sig fá og leituðu eins og þeir höfðu ætlað sér. Tíndu þeir saman um daginn 13 lömb til og frá. Voru þeir komnir með hópinn fram á svonefndan Krók á Fjórðungssandi þegar aldimmt var af nótt. Er staður þessi innst á sandinum og er þaðan full þriggja stunda ferð í Kjálkaver þeim sem lausir fara og skemmstu leið en miklu lengri tíma tekur það ef rekið er fé. Nú var orðið svo dimmt að ekki var þess kostur að fara venjulega leið kennileitalausa á sléttum eyðisandi. En svo hagar til, að Þjórsá rennur austan við sandinn en Kisa að vestan. Renna þessar ár saman sunnan við sandinn og myndast þar tunga sem nefnd er Sandtagl. Vestan við Kisu er svo Kjálkaver og er leitarkofinn, sem þeir ætluðu til fyrir ofan tunguoddann.

Þeir voru nú staddir þarna á sandinum í svo miklu myrkvi að þeir sáu ekki votta fyrir Þjórsá sem rann þó rétt við hlið þeirra. Nú tók að drífa, en stillilogn var. Sáu þeir sér nú ekki annað fært en að fylgja Þjórsá, þótt miklu lengri leið væri en það var þó því aðeins hægt að lognið héldist því að þeir sáu hana ekki en heyrðu niðinn. Héldu þeir nú áfram rólegir og öruggir. Var þá komin mikil snjódrífa en lognið hélst. Gengur þeir oftast og teymdu hestana en ráku kindurnar. Þótti þeim leiðin löng í myrkrinu. Þar kom að lokum að þeir þóttust vera komnir nógu sunnarlega og hugðu, að sér mundi óhætt að yfirgefa hina góðu leiðarstjörnu sína Þjórsá og halda yfir til Kisu og til kofans. Gerðu þeir nú þetta og sigu hægt og hægt áfram því að heldur voru lömbin farin að letjast. Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir voru komnir í grashnjóta sem hlutu að vera á Sandtaglinu.

Eru þar tvö smáver, annað sunnan til en hitt norðan til á taglinu. En svo voru þeir þá villtir orðnir þótt báðir væru þarna þaulkunnugir að þeir vissu ekki í hvoru verinu þeir voru. En sá var munurinn að ef þeir væru í syðra verinu áttu þeir að halda í útnorður til kofans en annars til útsuðurs. Ólafur var með góðan reiðhest, vanan fjallferðum og svo vegvísan að hann var viss að fara þá leið rétt, er hann hafði einu sinni farið á auðri jörð. Sagði þá Ólafur við Gísla: ,,nú skulum við yfirgefa reksturinn og fara á bak og láta Skol – en svo hét hesturinn – „ráða“. Gísli féllst á það. Stigu þeir nú á bak og gaf Ólafur Skol lausan tauminn og sló í hann. Tók klárinn þá fimlega til fótanna og stefndi til útnorðurs og vissu þeir ekki þá hvað hann fór. Allt í einu nam hesturinn staðar. Fóru þeir þá af baki og sáu að þeir voru komnir á gljúfurbarm við Kisu og var kofinn beint á móti hinum megin. Þurftu þeir þá ekki að fara nema lítinn spotta, upp fyrir gljúfrið og yfir ána og komu þeir svo til kofans. Ennþá var blæjalogn en mikil snjókoma. Þeir skiptu nú með sér verkum; skyldi Gísli sækja vatn í ketilinn, en Ólafur gefa hestunum úti. Þá urðu allt í einu þau alsnöggustu veðrabrigði, sem þeir nokkurn tíman höfðu vitað dæmi til, því að þegar Ólafur kom út í dyrnar, skall á óstætt ofsarok eins og reiðarslag með svartnættis kafaldi og hörkufrosti beint af hánorðri. Ólafur sneri aftur í snatri með heyið og lét hestana inn, en Gísli komst við illan leik frá ánni. Þeir byrgðu nú kofann að sér eftir föngum og lögðust til svefns. En slitróttur var svefninn vegna hamfara veðursins. Næsta morgun var enginn hægðarleikur að komast út úr kofanum því að kominn var hörð fönn fyrir dyrnar og meira en það: frá kofamæninum var óslitinn skafl og svo harður að ekki markaði spor í yfir á gljúfurbarminn hinum megin! Gljúfrið er þarna sjálfsagt 6-7 metra djúpt og 40 metrar á vídd og hafði verið autt kvöldinu áður. En nú sást ekki móta fyrir því!

Veðrið var enn með sama hætti eins og um nóttina og hélst þannig látlaust tilslökunarlaust í 9 dægur og var allt jafn á lofti, snjóbylur, sandur og möl.

Þeir vissu nú alveg, hvar þeir höfðu skilið við féð daginn áður og kom saman um að reyna að brjótast þangað þennan dag, en það bar engan árangur. Þeir fundu enga skepnu. Nú haga leitarmenn ferðum sínum svo, að þeir skilja nokkuð eftir af nesti og heyi hestanna í öllum leitarkofunum á leið inn eftir. Gera þeir það, til þess að þurfa sem minnst með sér að reiða. Þetta höfðu þeir félagar og gert og gátu því hvergi haft langa viðdvöl. Þraut nesti þeirra, er þeir höfðu verið þarna einn dag og tvær nætur. Lögðu þeir þá af stað suður að Dalsá, en þar var næsti leitarkofi. Þeim tókst að koma með sér þeim 10 kindum er þeir höfðu fundið á leið sinni inn eftir. Þeir komu í Dalsárkofann um kvöldið og létu þar fyrir berast. Dalsá er vont vatnsfall, ef nokkur vöxtur er í henni; rennur hún í halla miklum og hávöðum. Nú var hún ófær alls staðar er þeir félagar sáu til hennar, hálfstífluð og frosin af bylnum og frostinu, en grængolandi álar eftir henni miðri. Næsta morgun hófu þeir göngu upp með ánni og á þeirri leið fundu þeir tvö lömb. Komu þeir nú þar að, sem myndast hafði í ánni jakahrönn. Sáu þeir nú, að þar mundu þeir geta komist yfir ána, þegar þar að kæmi. Voru þeir í kofanum tvær nætur og einn dag, en voru þá aftur komnir að þrotum með vistir. Héldu þeir þá af stað suður í Gljúfurleit, en svo var veðrið afskaplegt að þeir urðu að skila kindurnar eftir, þótt undarlegt væri og tvö lömb voru svo þjökuð orðin að þeir urðu að slátra þeim. Þegar þeir nú sátu í Gljúfurleitarkofanum um kvöldið voru 8 dægur liðin síðan óveðrið skall á og enn var ekkert lát á því. En þegar leið á nóttina fengu þeir óljósan grun um það að breyting væri í nánd.

Má nærri geta að þeir hafa ekki verið áhyggjulausir, því að nú var um tvo vegi að velja og hvorugan góðan. Annar var sá að halda til byggða fúlir og félausir. Hinn kosturinn sem þeir völdu var að snúa við aftur og freista, ef þeir gætu bjargað skepnum þeim er þeir höfðu fundið. Það ferðalag var ekki árennilegt því að full dagleið var á þeim tíma árs hvora leið, en báðar leiðir urðu þeir að fara á einum degi. Mátti því ekkert út af bera. Þeir fóru af stað fyrir dögun, fóru gangandi en skildu hestana eftir í skjóli. Lítið munu þeir hafa nærst áður en þeir fóru af stað, því að nestið var nær þrotið en til ferðarinnar höfðu þeir lítið eitt af kjöti og hálfflösku af brennivíni. Þeir gengu nú sem leið lá á móti veðrinu. Var það svo illt að þeir áttu fullerfitt með að rata og fóru nokkuð afvega. En þegar þeir komu að Dalsá var kominn dagur og sáu þeir þá að veðrinu mundi senn slota því að byllaust var á hæstu tindum Kerlingarfjalla þótt kafald væri hið neðra. Þeir héldu því áfram og var veðrið orðið fullgott er þeir komu að Kisu. Hófu þeir nú leit um sandtaglið þar sem þeir höfðu skilið eftir 13 kindur í byrjun óveðursins fyrir 9 dægrum. Fundu þeir 10 kindur en 3 ekki og þóttust vita að þær hefðu hrakið í aðra hvora ána. Aldrei minntust þeir félagar að hafa séð skepnu jafn illa til reika og þessar. Urðu þeir að mylja utan úr og neðan úr þeim brynjuna og ná klakanum frá augum þeirra.

Héldu þeir svo af stað með þær og bættu í hópinn þeim 10 sem þeir höfðu skilið eftir við Dalsá. Eitruðu þeir fyrir tófu með skrokkunum af þeim tveimur lömbum er þeir höfðu slátrað. Nú var komið besta veður og komust þeir heilu og höldnu með féð um kvöldið í Gljúfurleit. Bar svo ekki fleira við sögulegt og komust þeir heim næsta dag og höfðu þá verið 12 daga að heiman, sem tekur venjulega ekki meira en 7-8 daga.

 

Sagan Í eftirleit, í bókinni Göngur og réttir.

Skrásett af Jóni Ófeigssyni yfirkennara.