11. desember Jólahald árið 1920

Stóra Núpskirkja
Stóra Núpskirkja

Jón Eiríksson frá Steinsholti segir frá:

Ég man nú eftir jólunum fyrir um 70 árum, eða frá árinu 1920 og þessir jólasiðir breyttust lítið næstu 20 árin, nema nokkuð þegar útvarpið kom, en það kom til okkar 1936. Þá var húsið sem fólkið var í kallað baðstofa. Þar borðaði fólkið og svaf og þar var ullin kemd og spunnin, prjónað úr bandinu eða ofið í vefstól. Trégólfið var orðið slitið og hrjúft og var sandskúrað tvisvar í viku og auðvitað á aðfangadaginn, svo að það yrði sem hreinast um jólin. Við strákarnir sóttum sandinn til þess að skrúbba gólfið með í Brandsgil, sem er austur við Kálfá og bárum hann á bakinu. Önnur hreingerning fór líka fram á jólaföstunni, á bænum öllum.

Þrír steinolíulampar voru til þess að lýsa upp bæinn. Stóri lampinn sem hékk í baðstofumæninum, hann var 14 líru sem var þvermál glassins, svo var 10 líru lampi, sem hékk á vegnum utan á baðstofunni eða þá í frambænum. Í eldavélarhúsinu var svo átta líru lampi. Í bæjarsundinu milli baðstofu og skemmunar lá olíutunnan. Úr henni var tekið á brúsa og hellt úr honum á lampana.

Fyrir jólin voru lamparnir pússaðir og fægðir. Fægiduftið var aska úr eldavélinni eða hlóðunum. Svo þurfti líka að hreinsa kveikina og sótið úr lampaglösunum.

Jólatréð var leggur gerður úr sveru orfsefni sem festur var á stöðuga undirstöðu. Hann var sverastur neðst en mjókkaði upp eftir og tálgaðar á hann stallar fyrir greinarnar að sitja á. Greinarnar voru úr kunnum sykurkassafjölum, svo breiðum um miðju að tálga mátti til að smokka á legginn. Greinarnar voru í kross á hverjum stalli. Svo var þetta klætt með krækiberjalyngi, sem við sóttum upp í Smjörvörðuás. Úr kaupstaðnum var fenginn smápakki með jólaskrauti. Það voru kúlur á stærð við kríuegg með mörgum sterkum litum. Svonefnt englahár var sett utaná lyngið. Kertin voru sett á enda hverrar sykurkassagreinar. Þau hafa verið 13, eitt á toppi trésins. Þetta voru snúin smákerti með nokkrum litum. Þá eru ótaldir þessir flötu eða þríhyrndu bréfpokar sem voru hengdir á tréð (kramarhús), þeir voru jafnmargir fólkinu með smávegis kruðum handa hverjum.

Á Þorláksmessu var hangiketið soðið í stóra sláturpottinum á hlóðunum í gamla hlóðaeldhúsinu. Það hafði hangið í eldhúsmæninum frá haustinum. Þá voru líka flatkökurnar bakaðar á eldavélinni eða hellunni yfir hlóðunum.

Þegar leið á aðfangadaginn var ég orðinn leiður að bíða eftir að jólin byrjuðu. Klukkan var orðin fjögur og farið að dimma en jólin máttu ekki byrja fyrr en klukkan sex. Þá var kveikt á stóra lampanum og farið að borða. Það var saltketssúpa. Síðan var lokið við fjósverkin og mjólkin skilin í skilvindunni sem var í króknum bak við stigan upp á loftið. Nú höfðu allir fataskipti og þá voru jólagjafirnar teknar upp. Enginn mátti fara í jólaköttinn. Gjafirnar gátu verið skór, sokkar eða vetlingar, svo kertastokkur með samskonar kertum og á jólatrénu og svo spil. Stundum komu nýjar útgáfur af spilum og þá var gaman að skoða nýju mannspilin. Svo komu íslensku spilin með fornmannamyndirnar eftir Mugg, Guðmund Thorsteinsson. Þarna kom Njáll (skegglaus), Skarphéðinn, Grettir, Gísli Súrsson, Auður Vésteinsdóttir, Bergþóra o.s.frv. Ekki mátti spila þetta kvöld. Við máttum bara skoða nýju spilin.

Nú var farið að syngja jólasálmana og lesa jólaguðspjallið. Á meðan brunnu kertin á jólatrénu. Svo var farið að narta í það sem var í pokanum á jólatrénu. Víst gekk vel að ljúka því. Nú var farið að líða á kvöldið en nú var kaffið eftir og súkkulaðið. Kaffibrauðið var jólakaka, vínarbrauð, sódakaka, smákökur, lummur, kleinur o.fl. Auðvitað allt heimabakað.

Jólakortin voru ekki komin í tísku. Þau komu 20 árum seinna. Þó gátum við skoðið jólagjafirnar þó að fábreittar væru.

Svo kom að því hátíðlegasta. Það var að hafa bjart alla nóttina í baðstofunni, því að þá og á nýársnótt var látið loga á stóra lampanum. En þá þurfti líka að fylla hann af olíu úr brúsanum. Ég ákvað að vaka einhverntíma næturinnar til þess að njóta þessarar birtu.

Jóladagurinn byrjaði með því að mamma færði okkur súkkulaði og með því í rúmið, en fyrstu verkin voru auðvitað að kveikja upp í eldavélinni og bæta olíu á lampann. Í morgunmatinn var grjónagrautur með rúsínum ásamt fleiru. Á þessum árum var hann alla daga um kl. 10. Nokkru fyrir hádegi var farið að búa sig til kirkjuferðar, því að oftast var messað á Stóra-Núpi annan hvorn jóladaginn. Flestir fóru gangandi og þótti ekki löng kirkjuleið. Hlíðarfólkið fór beint “yfir fjallið” og svo sömu leið og við. Oft var ís á Kálfá um jólin. Þá þurfti að hafa með sér sparibuxurnar og spariskóna, því að ekki var gott að vaða snjóin í þeim. Við gengum á hrossa- eða kúskinnskóm og í snjósokkum utanyfir þeim, sem náðu upp fyrir hné. Sinn hvoru megin við heyhlöðuna á Stóra-Núpi voru geymsluskúrar þar sem við höfðum buxna- og skóskifti. Sumir fóru inn í Heimsskaut sem var herbergi í norðurenda hússins á Núpi. Eftir messu gengu flestir í bæinn og þar var spjallað um daginn og veginn og þar dreifði séra Ólafur Jólakveðjunni, sem var blað sem dönsk skólabörn sendu íslenskum. Það var með líku sniði og Æskan eða Unga Ísland með jólasögum og öðru efni fyrir unglinga, í íslenskum búningi. Ekki man ég eftir öðru en góðu kirkjuveðri. Alltaf voru einhverjir heima við gegningar þó að aðrir færi til kirkju en liðið var á daginn þegar komið var heim. Þá fór að líða að fjósamálum. Þau verk gengu nokkuð fljótt því að kvöldgjöfin var látin í laupana að morgninum. Mjaltir biðu fram yfir mat hátíðakvöldin

Í rökkrinu á jóladaginn var farið að taka til stóra skammtinn. Hangiketið hékk í eldhúsinu, mæninum sem sumir nefndu rótina, yfir taðstálinu frá því um haustið. Það var soðið á Þorláksmessu og var nú í trogunum, stóru sláturtrogunum. Skammtur fullorðinna var sauðalæri eða bógur og síðubiti 2-4 rif (kallað áskurður). Jólaketið entist fólki í 1-2 vikur til þess að renna í. Við krakkarnir fengum mun minna eftir aldri og stærð. Svo fylgdi kartöflujafningur, flatkaka með sméri og sætsúpa var á eftir. Diskinum fylgdi stórt kerti, sem mátti festa á rúmstólpann og lesa við kertaljósið. Tólgarkertum man ég ekki eftir.

Þegar kvöldverkum var lokið las pabbi húslesturinn með tilheyrandi sálmasöng. Eftir það gátu allir farið að spila við baðstofuborðið. Púkkið var okkar jólaspil. Það hafði ekki ákveðna tölu þátttakaenda. Þar komust allir að sem vildu spila og höfðu rúm við borðið. Pamfíllinn var okkar uppáhaldspersóna í spilunum. Gjaldeyrir var óbrendar kaffibaunir eða kvarnir úr þorskhausum. Púkkið var spilað með fjöri og við það þurfti ekki heilabrot. Á annarsdagskvöld var fremur spilað sólóvist. Þá létur þeir yngri nægja Hund eða Svartapétur.

Þrettándans var minnst með vökukaffi og kaffibrauði og með spilum. Þá kvaddi síðasti jólasveinninn. Þeir voru ekki nema 13 þá.

Á gamlárskvöld sáum við snemma að kvöldinu brennur víða í Rangárvallasýslu, en ég man minna eftir þeim heima. Þá var lesin áramótahugvekja með sálmasöng og svo spiluð vist til miðnættis. Nýárskvöld var líkt og hin hátíðarkvöldin. Á nýársnótt logaði ljósið á stóra lampanum eins og á jólanóttina.

Jón skrifar þessa frásögn árið 1990 en hann lést þann 2. desember 2003