Vel sóttur opinn dagur í Fjallaböðunum í Þjórsárdal

Af framkvæmdasvæði Rauðukamba
Af framkvæmdasvæði Rauðukamba

Þann 12. október síðastliðinn var opinn dagur í Fjallaböðunum í Þjórsárdal, en um 100 manns lögðu leið sína að framkvæmdasvæðinu við Rauðukamba. Þar var gestum boðið að ganga um framkvæmdasvæðið með forsvarsfólki verkefnisins, fræðast um stöðu uppbyggingarinnar, spyrja spurninga og njóta góðra veitinga frá Kvenfélagi Gnúpverja. Farið var yfir teikningar af svæðinu, skipulag bygginganna og miðlunarsýningu sem áformað er að verði í gestastofunni við Sandá.

„Dagurinn heppnaðist afar vel og það var gaman að sjá breiðan áhuga frá íbúum og öðrum sem láta sig verkefnið varða. Það er alltaf verðmætt að eiga í góðu samtali við nærsamfélagið og við vonum að gestir hafi notið sín þrátt fyrir þokusúld,“ segir Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdastjóri Fjallabaðanna í Þjórsárdal.

Heimasíða tileinkuð verkefninu hefur verið opnuð og eins má fylgjast með framvindu á Facebook-síðu þess.

Forsvarsfólk Fjallabaðanna vill koma miklum þökkum á framfæri til allra þeirra sem komu að skipulagi opna dagsins.