Sterk staða og áframhaldandi uppbygging

Fjárhagsáætlun 2026 staðfest í sveitarstjórn.

Í gær, miðvikudaginn 3. desember, var fjárhagsáætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2026 og 2027-2029 samþykkt í sveitarstjórn. Áætlunin sýnir skýrt sterka stöðu sveitarfélagsins og er áætlaður rekstrarafgangur næsta árs 137,6 milljónir. Á núlíðandi ári hafa staðið yfir mestu fjárfestingar í sögu sveitarfélagsins og samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2025 verða fjárfestingar ársins 2025 um 768 milljónir. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar á núlíðandi ári, þá ætlum við að fjárfesta meira á árinu 2026, en áætlaðar fjárfestingar ársins 2026 eru upp á 860 milljónir. Helstu fjárfestingar liggja í að klára nýja íþróttamiðstöð í Árnesi. Byggð verður tengibygging á milli Þjórsárskóla og íþróttamiðstöðvarinnar þannig að skóla, frístunda og íþróttastarf verði undir einu þaki. Farið verður í endurnýjun á leikskólalóð Leikholts og byggt verður nýtt húsnæði fyrir áhaldahúsið sem mun innihalda móttökustöð fyrir sorp. Hafist verður handa við gatnagerð í Árnesi ásamt því að hefja á framkvæmdir við vatnsból sveitarfélagsins við Steinsholt og í Vörðufelli. Framkvæmdirnar við vatnsbólin marka upphafið að uppbyggingu öflugrar vatnsveitu í gegnum allt sveitarfélagið.

Með sterkri stöðu sveitarfélagsins getum við horft bjartsýn til framtíðar og stefnum á frekari uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árin 2026-2029 eru áætlaðar fjárfestingar samtal 2.055 milljónir á sama tíma og áætluð afkoma sveitarfélagsins mun halda áfram að styrkjast.

Í kvöld, fimmtudaginn 4. desember, verður íbúafundur í Árnesi kl. 19:30 þar sem helstu atriði fjárhagsáætlunar verður kynnt ásamt þeim breytingum sem eru í gangi er varðar sorpmálin í sveitarfélaginu.

Framtíðin er björt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

fjarhagsaaetlun-2026-2027-2029-sidari-umraeda.pdf

Haraldur Þór Jónsson

Oddviti