- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Í vikunni staðfesti sveitarstjórn ársreikninginn fyrir árið 2024. Þriðja árið í röð skilum við bestu rekstrarniðurstöðu í sögu sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaða A+B hluta er jákvæð um 164 milljónir og rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 175 milljónir.
Samanlagður rekstrarafgangur A+B hluta á þessu kjörtímabili er því kominn í 417 milljónir og veltu fé frá rekstri sem er það fjármagn sem við höfum til að standa undir fjárfestingu er uppsafnað á kjörtímabilinu 591 milljónir. Í upphafi kjörtímabilsins var skuldahlutfallið (skuldir deilt í rekstrartekjur) 49% en stendur núna í 34%.
Við byrjuðum kjörtímabilið á því að taka til í rekstrinum sem lagði grunninn af þeirri vegferð sem við erum í. Á síðustu þremur árum höfum við fjárfest í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 481 milljónir ásamt því að sinna verulega miklu viðhaldi á eignum sveitarfélagsins. Allt þetta höfum við gert án þess að taka lán. Ég er mjög stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í rekstri sveitarfélagsins, en slíkum árangri er ekki hægt að ná nema með samstilltu átaki starfsmanna sveitarfélagsins og vil ég þakka öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf.
Árið 2025 er árið sem við munum sjá áþreifanlega þá miklu uppbyggingu sem við erum komin af stað með. Fjárfesting ársins er áætluð rúmar 800 milljónir og er þar bygging íþróttamiðstöðvar í Árnesi stærsti hlutinn. Nýtt deiliskipulag fyrir framtíðar uppbyggingu í Árnesi mun klárast á árinu. Við erum einnig að klára framkvæmdir í Skeiðalaug, erum að fara að byggja nýtt verknámshús við Þjórsárskóla, erum að fjárfesta í innviðum gámasvæðisins en í haust stefnum við á að setja upp brennsluofna fyrir dýraleifar og annan úrgang sem hingað til hefur farið í urðun.
Við erum enn í breytingum á umgjörð skólamála hjá okkur. Í haust verður 9. bekkur í fyrsta sinn í Þjórsárskóla og einnig erum við að fá nýjan skólastjóra í Þórsárskóla, en Bolette hefur tekið þá ákvörðun að fara að njóta lífsins og lýkur sínum starfsferli í vor. Ég þakka henni fyrir gott samstarf og vel unnin störf. Guðmundur Finnbogason tekur við sem skólastjóri Þjórsárskóla og hlakka ég til að vinna með honum og starfsfólki Þjórsárskóla að því að byggja upp öflugan skóla. Forsenda þess að geta byggt upp öflugt samfélag er að reka öfluga skóla, bæði leikskóla og grunnskóla. Við getum sannarlega verið stolt af því hvar við stöndum með skólana okkar og það framúrskarandi starfsfólk sem starfar þar.
Nú er hafin gríðarlega mikil uppbygging í sveitarfélaginu sem mun standa yfir næstu árin. Rauðukambar hafa nú gengið frá samningum við Jáverk um byggingu Fjallabaðanna í þjórsárdal og er steypuvinna að hefjast. Einnig eru virkjanaframkvæmdir að hefjast af fullum krafti þessa dagana. Samhliða því munum við sjá framkvæmdir við langþráðan Búðafossveg hefjast í sumar. Til að setja hlutina í samhengi, þá má gera ráð fyrir að síðar í sumar verði um 4-500 manns að vinna við byggingu Hvammsvirkjunar, Búrfellslundar, stækkun Sigölduvirkjunar, byggingu Fjallabaðanna og Búðafossveg. Sumarið 2026 má
gera ráð fyrir að fjöldinn verði á milli 7-800 manns að vinna við þessar framkvæmdir. Við munum sannarlega finna vel fyrir þessum auknu umsvifum á svæðinu. Í Rauðukömbum eru tilbúnar vinnubúðir fyrir um 40 manns og í Búrfelli er verið að standsetja vinnubúðir fyrir 80-100 manns sem verða teknar í notkun í sumar.
Eins og flestir vita þá höfum við allt þetta kjörtímabil staðið í baráttu fyrir því að undanþágu orkumannvirkja frá lögbundnum tekjustofni sveitarfélaga, fasteignaskatti, verði afnumin. Það er sanngirnismál að orkufyrirtækin borgi lögbundna skatta til sveitarfélaga eins og öll önnur fyrirtæki. Búið er að vinna gríðarlega mikla vinnu til þess að þetta raungerist og er áætlað á næstu dögum komi fram áformaskjal í samráðsgátt stjórnvalda þar sem boðuð lagabreyting verður kynnt. Ríkisstjórnin hefur boðað að málið verði á dagskrá næsta haustþings og klárað á þessu ári. Slík breyting er stærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar og mun leiða til þess að lífskjör á landsbyggðinni batna og sveitarfélög á landsbyggðinni verði samkeppnisfærari um hvar fólk velur sér búsetu. Það er sanngirnismál að ávinningur af orkuvinnslu skili sér með áþreifanlegum hætti í nærumhverfið og geri okkur kleift að byggja sterkari innviði og veita betri þjónustu til íbúa á landsbyggðinni.
Nýlega var ég kjörinn formaður Veiðifélags Þjórsár. Í Veiðifélagi Þjórsár eru samkvæmt samþykktum félagsins 181 jarðir sem eru aðilar að félaginu. Sveitarfélagið er eigandi tveggja jarða sem er aðili að Veiðifélagi Þjórsár ásamt því að hluti af vatnasvæði Þjórsár liggur í þjóðlendunum sem sveitarfélagið í samvinnu við forsætisráðuneytið hefur umsjón um. Ég hef verið ásakaður um að „taka yfir veiðifélagið“. Ég vill vekja athygli á því að á aðalfundinum var borin upp tillaga af stjórnarmanni í samræmi við vinnu stjórnarinnar síðustu ár þar sem veiðifélagið hefur barist gegn Hvammsvirkjun. Þeirri tillögu var vísað frá með öllum greiddum atkvæðum á fundinum. Ég kom nýr inn í sjö manna stjórn Veiðifélags Þjórsár og bauð mig fram til formanns. Þar var ég kosinn af meirihluta stjórnar til að verða formaður. Þeir sem kusu mig hafa mikla hagsmuni af því að lífríkið í Þjórsá og laxastofninn vaxi og dafni. Ég var því kosinn til formennsku með lýðræðislegum hætti til að ná árangri fyrir lífríkið, laxinn og félagsmenn í Veiðifélagi Þjórsár.
Stofnaður hefur verið hópur á samfélagsmiðlum undir nafninu Verndum Þjórsá og þar vegið að minni persónu. Ekki veit ég hver stendur að baki þeirri síðu og mun ég ekki svara fyrir mig gagnvart slíkri síðu sem enginn veit hver stendur á bak við.
Fyrrverandi formaður Veiðifélags Þjórsár hefur ekki spurt mig hvernig ég ætla að starfa sem formaður veiðifélagsins, heldur fullyrðir í bréfi til félagsmanna Veiðifélags Þjórsár, sem einnig hefur verið birt á síðu Verndum Þjórsá, að ég ætli ekki að verja lífríki og laxastofn árinnar heldur til að greiða götu Landsvirkjunar í frekari virkjanaframkvæmdum. Því tel ég nauðsynlegt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri um staðreyndir laxastofnsins og lífríkisins í Þjórsá.
Á árunum 1950-1965 veiddust að meðaltali undir 1.000 laxar í Þjórsá, enda var Þjórsá óbeislað jökulfljót þar sem takmörkuð skilyrði ljóstillífunar til fæðuframleiðslu áttu sér stað í gruggugu jökulvatninu ásamt því að verulegar sveiflur voru í rennsli Þjórsár þar sem hún var óbeisluð án virkjana. Með byggingu virkjananna á efri hluta vatnasvæðis Þjórsár og Tungnaár þá varð rennslið í Þjórsá jafnara ásamt því að vatnið varð minna gruggugt. Með grugg minna vatni þá verða betri skilyrði fyrir lífríkið í Þjórsá og lífríkið í Þjórsá hefur orðið sterkara með virkjununum. Það leiddi til þess að árleg veiði í Þjórsá tvöfaldaðist á árunum 1970-2000. Fram til 1992 komst laxinn aðeins 45 km inn í land á vatnasvæði Þjórsár, að fossinum Búða. Landsvirkjun kostaði byggingu laxastiga í fossinn Búða sem var tekinn í notkun árið 1992. Það opnaði leið fyrir laxinn sem eftir það komst alla leið upp að Búrfellsvirkjun eða 70 km inn í land á vatnasvæði Þjórsár. Sú aðgerð stækkaði búsvæði laxins um u.þ.b. 50% og varð til þess að veiði í Þjórsá hefur aukist verulega. Meðal árleg laxveiði í Þjórsá síðustu 10 ár hefur verið 4.279 laxar. Þær virkjanir sem Landsvirkjun hefur byggt og þær aðgerðir sem Landsvirkjun hefur kostað til að greiða göngu laxins í Þjórsá hefur því meira en fjórfaldað laxastofninn í Þjórsá og eflt lífríkið í Þjórsá.
Að mínu mati hefur fyrrverandi formaður Veiðifélags Þjórsár ekki unnið fyrir hagsmunum lífríkisins í Þjórsá, heldur einungis beitt veiðifélaginu til að vera á móti Hvammsvirkjun. Frá árinu 2014-2023 átti Veiðifélag Þjórsár engin samskipti við Landsvirkjun, nema í gegnum lögfræðinga til að berjast á móti Hvammsvirkjun. Slíkar aðferðir eru að mínu mati ekki líklegar til árangurs. Það var enginn vilji hjá fyrrverandi formanni Veiðifélags Þjórsár til að vinna með Landsvirkjun að því að halda áfram að byggja upp og efla lífríkið í Þjórsá.
Þessu ætla ég að breyta sem formaður Veiðifélags Þjórsár og mun vinna að því að gera vatnasvæði Þjórsá að verðmætasta og sjálfbærasta laxveiðisvæði í Evrópu, lífríkinu í Þjórsá til heilla og einnig til að hámarka verðmæti félaga í Veiðifélagi Þjórsár.
Hvernig ætla ég að gera þetta? Svarið við því er einfalt, vinna með Landsvirkjun í því að ná árangri í að efla lífríkið og stækka búsvæði laxins.
Á vatnasvæði Þjórsá eru 7 fossar sem eru ekki laxgengnir. Það eru því mikil tækifæri fólgin í því að byggja fleiri laxafarvegi fram hjá þessum fossum. Miklir möguleikar eru í því að stækka búsvæði laxins upp á tugi kílómetra ásamt því að fá inn mikinn fjölda af nýjum veiðisvæðum. Ég hef strax sett í gang vinnu við að kortleggja hversu mikið er hægt að stækka búsvæði laxins og þannig stækka stofninn. Þegar við skoðum söguna má sjá að sú orkuframleiðsla sem hefur átt sér stað á vatnasvæði Þjórsár hefur haft gríðarlega góð áhrif á lífríkið í Þjórsá og laxveiðina. Þrátt fyrir að búsvæði laxins minnki um 5,5% með Hvammslóni, þá er hægt að stækka búsvæðin um marga tugi prósenta með því að koma laxinum inn á ný svæði, eins og var gert með bygginu laxastigans við Búða.
Ég mun beita mér af fullum krafti sem formaður Veiðifélags Þjórsár að uppbygginu lífríkisins og laxins í Þjórsá. Ég mun berjast fyrir því að Landsvirkjun kosti bæði uppbygginu og rannsóknir sem skila Þjórsá að verðmætasta og sjálfbærasta laxveiðisvæði í Evrópu.
Ég mun halda áfram að vinna af heilum hug og miklu krafti að uppbygginu okkar frábæra samfélags og hlakka til verkefnanna fram undan. Núna þegar aðeins eitt ár er eftir af kjörtímabilinu er framtíðin björt og spennandi tímar fram undan. Ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram í næstu sveitarstjórnarkosningum og leiða Samvinnulistann til að halda áfram frekari uppbyggingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Gleðilegt sumar 😊
Haraldur Þór Jónsson
Oddviti