Aðfangadagur jóla - jól í fjárhúsi

Presturinn í fjárhúsunum
Presturinn í fjárhúsunum

Aðventan og jólin eru dásamlegur tími. Ég hef alltaf verið jólabarn en sem strákur þá kveið ég dálítið fyrir jólunum ekki af því að mér fyndist þau leiðinleg heldur vegna þess að mér fannst svo erfið tilhugsunin þegar þau væru búin. Þegar leið á aðfangadagskvöld og pökkunum fækkaði undir trénu tók að þyrma yfir mig og þegar mest lét brast ég í grát yfir því að nú væri bráðum allt búið! Á þeim tíma voru litlar sem engar skreytingar settar upp heima fyrr en á Þorláksmessu en það átti síðar eftir að breytast. Það var því kærkomið þegar undirbúningstími jólanna lengdist. Jólafastan með öllum sínum litbrigðum er eiginlega orðin eins og hluti jólanna og því full ástæða til að bægja frá öllum kvíða strax í byrjun desember því þá er svo langt í jólin!

Ómissandi upptaktur jólanna sjálfra er að hlusta á jólakveðjurnar sem hljóma í útvarpinu á Þorláksmessu frá morgni til kvölds. Þá upplifi ég sterkt hvernig við sem þjóð erum eins og ein fjölskylda. ,,Elsku amma og afi...elsku vinir mínir nær og fjær til sjávar og sveita...hugheilar jólakveðjur...“ Ákveðinn hápunktur er svo þegar kirkjuklukkurnar hringja stundvíslega kl. 18 á aðfangadagskvöld. Þá er heilög stund á mínu heimili og ekki laust við að maður verði aðeins viðkvæmur í sér.

Eftir að við fluttum hingað í sveitina þá hefur fjárhúsið fengið sinn sess í ritúalinu. Upp úr fjögur á aðfangadag er haldið til gegninga og gefið gott á garðann. Hrútum er hrósað og kindum klappað. Á jóladag er síðan hátíðartónið æft yfir morgungjöfinni. ,,Baaarn er ooss fæætt“ og svo framvegis. Kindurnar eru góðir áheyrendur og láta sér fátt um finnast þótt stundum sé frjálslega farið með, líta ekki einu sinni upp frá garðanum þegar húsbóndi þeirra blessar og reynir af veikum mætti að feta sig upp í hæstu hæðir tónstigans. Að því loknu er sest á garðabandið og lagt við hlustir. Hvernig söfnuðurinn rífur í sig ilmandi töðuna er líka heilög stund. Andakt af bestu gerð.

Síðan taka jólamessurnar við. Gæðastundir með fólkinu mínu. Sannkallaður vinafundur þar sem við heyrum gömlu góðu sálmana sungna af hjartans list. Og öll tökum við undir í lokin: Heims um ból, helg eru jól. Hátíðin minnir okkur á ríkidæmið sem fólgið er í þessu einfalda og sanna. Fjárhús og fegurð. Kærleikur og kertaljós. Barn í jötu. Ljós í myrkri. Vonina sem fæddist í fjárhúsi tökum við í fangið og berum með okkur inn í nýtt ár. Gleðileg jól!