9. desember Jólahangikjötið hennar Sigrúnar

Sigrún og Diddi innan um hangikjöt, reykt svið, bjúgu og fleira
Sigrún og Diddi innan um hangikjöt, reykt svið, bjúgu og fleira

Í aldanna rás hefur íslenska sauðkindin haldið lífinu í íslensku þjóðinni. Gefið henni ull og kjöt. Matarmenningin hefur þróast í gegnum árin en hefðin er sterk hvað varðar verkun á hangikjötinu og þá sérstaklega sauðakjötinu. Í gamla daga þegar lítið var um salt, var sauðakjötið hengt upp í rjáfur í hlóða eldhúsinu þar sem konurnar elduðu matinn og látið taka í sig reykinn , meyrna og þorna og haft sem sparimatur á jólum. Þótti sauðakjötið best, en það er kjöt af veturgömlum hrútum sem búið er að gelda árinu áður.

Í mínum sauðakofa nota ég kjöt af veturgömlum sauðum og gimbrum. Það er bragðmeira en lambakjötið. Það er sett í saltpækil í c.a 10 daga, síðan hengt upp í reykkofann og reykt í nokkra daga við tað og birki sem kemur hvoru tveggja frá bænum. Sjálfbærni....(tískuorðið í dag...) Síðan hengi ég það upp í skemmunni og þar fær vindurinn að leika um það eins og veður leyfir.. .ómissandi á jólaborðið.

Vel hangið læri er hrikalega gott hrátt, og reyktur hryggur er góður forréttur. Tökum laufabrauðsflís og setjum t.d. hangisallat ofan á...sem gæti verið svona :

Hrátt hangiket (í bitum eða hakkað )

1 poki klettasallat (mulið í matvinnsluvél )

1 dós sýrður rjómi.

Fullt af hollustu.

Hangikjötið er best moðsoðið, þ.e. soðið í c.a 2-3 tíma við mjög vægan hita.

Svo er flatkaka með hangikjöti, það besta ef þú þarft að útbúa þér nesti sem duga á daginn. Framparturinn er ýmist sagaður í bita eða settur í rúllu, uppstúf, grænar baunir,og rauðkál, og góðar íslenskar kartöflur þá getur jólamaturinn ekki klikkað...!

Jólakveðjur.
Sigrún Fossnesi.