21. desember jól hér og þar á langri ævi

Sigvaldi loftskeytamaður á Ísafirði 1976
Sigvaldi loftskeytamaður á Ísafirði 1976

Jólin hafa alltaf átt stóran þátt í mínu lífi og eru full af hefðum. Ég er fæddur á Selfossi 1954 og fyrstu árin eru að sjálfsögðu ekki í minni mínu en við systkinin erum 9 þannig að alltaf var margt um manninn á heimili foreldra minna. Alltaf var farið í kirkju á jólum en það átti að vísu við um allar helgar líka. Séra Sigurður Pálsson sem var þá prestur á Selfossi var góður vinur foreldra minna og mikill samgangur á milli heimilanna. Eftir að við fluttum frá Selfossi út á Seltjarnarnes hafði pabbi það fyrir sið að fara í kirkjugarðana á leiði horfina ástvina á aðfangadag. Þeim sið held ég enn í dag og fer ásamt elsta bróðir mínum á 15 leiði. Þetta er góður siður og fyllir mann gleði. Hjá foreldrum mínum voru alltaf gæsir í matinn á aðfangadagskvöld og svo hangikjöt á jóladag. Þrátt fyrir mikinn fjölda barna og síðar barnabarna var aldrei skortur á því heimili. Eftir matinn á aðfangadagskvöld var lesið jólaguðspjallið og síðan spilaði mamma Heims um ból á flygilinn og við sungum öll með. Spenningurinn var mikill og biðin eftir að opna pakkana var óendanleg.

Þann 23. nóvember 1975 flutti ég á Ísafjörð og hóf störf á loftskeytastöðinni. Þar sem ég var einn og þekkti engan á Ísafirði tók ég að mér vaktina á loftskeytastöðinni á aðfangadagskvöld. Ég bjóst við að það yrði ekki ánægjuleg vera en það breyttist fljótt. Kona sem vann á ritsímanum kom og færði mér jólamat og það gerði líka kokkur sem ég var í fæði hjá. Nóg var því að borða og mikið meira en það. Það sem gladdi mig líka var að afgreiða símtöl frá togurunum sem voru á sjó við ástvini í landi. „Góða kvöldið þetta er loftskeytastöðin á Ísafirði með símtal frá Svalbak.“ Leyndi sér ekki ánægjan í viðtakandi svo manni hlýnaði um hjartarætur. Ástina fann ég svo á Ísafirði og hún lifir enn á milli mín og minnar góðu eiginkonu 46 árum síðar. Fyrstu jólin heima hjá foreldrum hennar voru vonbrigði. Engin gæs, ekki jólaguðspjall en maturinn sem mér fannst ekkert sérstakur þá er í miklu uppáhaldi nú orðið.

Já tíminn líður og 2013 fluttum við í sveitina okkar. Ég hafði jú verið í sveit á Hamarsheiði frá 9 ára aldri og ekkert sumar leið án þess að komast þangað í girðingavinnu, heyskap eða bara að stinga út úr fjárhúsunum. Byggðum hús þar sem fjárhúsið hennar Siggu í Víðihlíð stóð áður og er með eitt flottasta útsýni sem hægt er að hugsa sér. Ég hóf störf hjá Landsvirkjun 2002 á fjarskiptadeild og þegar við höfðum ákveðið að byggja á Lómsstöðum fékk ég flutning í Búrfell. Það fór um mig eftir að ég fór að vinna þar og kynntist fæðinu sem þar var í boði. Einhver tíma sagði ég við Ingu Sveins á Stóra-Núpi sem þá kokkaði ofan í mína vakt að eftirleiðis væri engin tilbreyting í jólamatnum heima frá matnum sem við fengum um helgar hjá henni. Þvílíkir snillingar sem þessar konur voru þar með talið hún Guðbjörg Kolbeins á Hamarsholti. Nóg um það. Vegna flutninga milli vakta hef ég bara átt ein jól inni í Búrfelli en fer núna á vakt um jólin 19. des og verð til 27. des. Fjölskyldur okkar eru velkomnar til okkar um hátíðisdagana og aðfangadagkvöld eru menn yfirleitt með sínum en á jóladag hjálpast allir að við sameiginlegan kvöldmat. Reynt er að koma vinnu þannig fyrir að eftir hádegi á aðfangadag eru menn búnir að fara í stöðvarnar og ganga frá þeim eins og best verður á kosið. Á jóladag er skoðað í gegnum stjórnkerfin og myndavélar hvort allt sé í lagi og ef svo er reynum við að eiga rólegan dag hvað vinnu varðar. Bilanir gera hins vegar ekki boð á undan sér og þeim verðum við að sinna. Mestar líkur á bilunum er þegar stjórnstöð stöðvar eða ræsir vélar sem gerist oft um jól vegna álagsbreytinga. Annars svo það sé sagt er Landsvirkjun frábær vinnustaðum og vel um okkur starfsmennina hugsað.

Talandi um hefðir í upphafi svo það komi fram eru kirkjugarðarnir, hátíðarmessa, jólaguðspjallið og Heims umból enn til staðar ásamt hressilegri fjallgöngu. Við bræður höfum haft það fyrir sið á ganga á Keili á jóladag í fjölda mörg ár það auðveldar manni að halda kjörþyngd.

Kæru sveitungar og vinir gleðileg jól og takk fyrir árið sem er að líða.