18. desember Bernskujól á Selfossi

Ég er fæddur og uppalinn í mjólkurbúshverfinu á Selfossi. Jólin eins og ég man þau úr æsku voru mjög hefðbundin frá einu ári til annars. Þá var ekki mikið um ljós og skreytingar, nema þá inna dyra í híbýlum. Í Kaupfélaginu var alltaf skreytt ein glugga útstilling í byrjun desember, þá var tjaldað fyrir gluggann eftir lokun i búðinni og tjaldið dregið frá milli ellefu og tólf um kvöldið.

Ef ég man rétt var fenginn sérfræðingur að sunnan í verkið. Við strákarnir úr Mjólkurbús hverfinu létum okkur hafa það að labba niður í Kaupfélag til að sjá dýrðina þegar dregið var frá. Kórónan var jólasveinn sem hneigði sig fyrir þeim sem voru að horfa á. En mikið voðalega var okkur oft orðið kalt þegar loks dýrðin birtist.

Tveim til þremur dögum fyrir jól vorum við strákarnir úr hverfinu sendir út yfir á, sem kallað var, að sækja jólasteikina í frystinn hjá sláturfélaginu. Við þeir yngri vorum á ábyrgð þeirra sem eldri voru. Á þessum árum voru ekki almennt til bílar á heimilum og flestir feðurnir unnu í Mjólkurbúinu þar sem voru unnir langir vinnudagar alla daga vikunnar. Við krakkarnir vorum því oft látin sjá um aðdrætti.

Mér er sérlega minnisstæður aðfangadagur ein jólin, en þá uppgötvaði móðir mín að jólasteikin var horfin. En hún hafði geymt hana í snjó við útidyrnar. En á þessum tíma voru ísskápar ekki almennt á heimilum. Það varð mikið uppistand og getgátur um það hvað hefði orðið af steikinni. Svo mundi einhver eftir því að pósturinn sem var að bera út síðasta jólapóstinn hafði verið með hund með sér. Sem betur fer var sporrakt í snjónum svo hægt var að rekja ferðir póstsins og fannst jólasteikin svo eftir nokkra leit við hús í hverfinu. Sem betur fer hafði henni verið vel pakkað inn svo hundurinn hefur ákveðið að grafa hana niður í snjóinn og geyma til seinni tíma.

Venjan var, að ekki var skreytt fyrir jólin fyrr en á þorláksmessukvöld og var mikil hátíðarstund þegar faðir minn náði í kassann sem hafði að geyma toppinn á jólatrénu, en toppurinn var geymdur í kassa, vafinn með bómull og tuskum og var úr svo þunnu gleri, að allir héldu niðri í sér andanum af spenningi um hvort hann kæmist ólaskaður á tréð.

Ekki var kveikt á trénu fyrr en klukkan sex á aðfangadags kvöld og hófst þá borðhald, sem þó gat farið úr skorðum því þegar klukkuna vantað um 15 mínútur í sex, þá sló rafmagnið iðulega út. Skýringin var sú, að á flestum heimilum var verið að elda á sama tíma og kerfið þoldi ekki álagið.

Ég stóð við stofugluggann í stofunni, úti var logndrífa og Jóakim nágranni okkar sem var starfsmaður hjá rafveitunni fór af stað á rafveitu trukknum að leita að rafmagninu.

Jólakveðjur
Gummi á Reykhól