10. desember Jól í Hondúras

Jólasvínið með ananas og kirsuberjum
Jólasvínið með ananas og kirsuberjum

Ég heiti Irma og er frá Hondúras í mið Ameriku, er gift Guðmundur Árnason frá Þjórsárholti og eigum 3 börn , Ásta Ivalo , Jörundur Tadeo og Irma Ósk, ég hef búið á Íslandi síðan 1998 þarf af hér í Gnúpverjahreppi síðustu 13 ár.

Desember var alltaf sérstaklega skemmtilegur mánuður þegar við systkinin vorum krakkar, við erum 3: 2 bræður og ég, á mínu heimili var þannig að á sunnudögum klæddum við okkur upp extra fín til að mæta í kirkjuna í messu kl.11 en í desember fór maður í sínu allra bestu föt, "kulda fötin", eins og í jólakvikmyndum frá Bandaríkjunum, rúllukragapeysur og svona fínerí sem var ekki alltaf það þægilegasta í 20 stiga hiti en þetta var eini sénsinn til að nota svona föt því desember er kaldasti mánuður ársins. Tilhlökkun var svo mikil og andrumsloftið breytist á einu nótt, það er alltaf spilað tónlist hvert sem þú ferð í Honduras, matarbúðir, veitingastaðir,verslunarmiðstöð og bara út um allt allt árið en í desember eru merengue og salsa tónlist alltaf fyrir valinu og lögin eru um gleði, þakklæti, glæstar vonir og fjör. Það er allt einhvern veginn svo létt og indælt og þú getur ekkert annað en látið þér líða vel. Það er mikið um götumarkaði með vörur tengt jólum eins og jólaávextir sem fyrir okkur eru rauð vinber, rauð epli og perur, rompopo sem er jóladrykkur eins og eggjapúns , nacatamales, torrejas og fl. Þar eru líka skreytingar fyrir jötuna í öllum stærðum og gerðum, það er hefð að hafa jötuna undir jólatrénu, því er stillt upp og skreytt en jesúbarnið ekki sett í hana fyrr en um miðnætti 24 des. þegar hann fæddist ( eða fyrir okkur kaþólsk).

24 des. er eldað og borðað allan daginn, fjölskyldur safnast saman og nágrannar kíkja í heimsókn yfir daginn, svo klæðum við okkur í sparifötin og horfum saman á jólamessuna í beinni útsendingu frá Vatíkaninu. Eftir það er dansað og spjallað og bara hafa gaman saman. Klukkan 12 á miðnætti setjum við Jesú barnið í jötuna og svo höldum uppá það með að borða saman. Á matseðlinum er annað hvort kalkúnn eða heilsteikt svínalæri með ananas og kirsuberjum , eftir matinn fara börnin að sofa svo jólasveinninn komist sem fyrst með gjafirnar en fullorðna fólkið heldur áfram að dansa alla nóttina. Þann 25., eldsnemma um morguninn eru pakkarnir opnaðir og svo eru bara notalegheit restina af deginum.

Hér má finna uppskrift og leiðbeiningar um matreiðslu á nacatamales  (reyndar á spænsku, en fyrir þá sem vilja spreyta sig og tala ekki spænsku er hægt að treysta á internetið við þýðingar)

 

Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Kærleikskveðjur
Irma Elisa Díaz Cruz