- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Íþróttir og útivist
- Fréttir
- Mannlíf & menning
Dagana 19.–22. nóvember heimsækir Háskólalest Háskóla Íslands Uppsveitir og Flóa og býður nemendum, kennurum og íbúum svæðisins upp á sannkallað vísindaævintýri.
Í áhöfn lestarinnar eru vísindamenn úr fjölbreyttum greinum Háskóla Íslands, þar á meðal frá Rannsóknasetri skólans á Suðurlandi, sem miðla þekkingu sinni á lifandi og skemmtilegan hátt.
Fimmtudaginn 20. nóvember verða haldin fjölbreytt námskeið fyrir nemendur í 8.–10. bekk frá skólum svæðisins, Bláskógaskóla, Reykholtsskóla, Flúðaskóla, Kerhólsskóla, Þjórsárskóla og Flóaskóla. Öll kennslan fer fram í Flóaskóla.
Á meðal námskeiða í boði eru eðlisfræði skopparabolta og pappírsbáta, blaða- og fréttamennska, efnafræði á tilraunastofu, íþrótta- og heilsufræði, tölvuleikur og tölur, sjúkraþjálfun, leiklist, ævintýri fuglanna, jákvæð sálfræði og gervigreind. Hver nemandi situr þrjú námskeið.
Daginn áður, miðvikudaginn 19. nóvember, býðst kennurum grunnskólanna að sækja kennarasmiðjur og stendur valið á milli smiðja um gervigreind, verklega náttúruvísindakennslu og hegðunarvanda og ofbeldi nemenda.
Laugardaginn 22. nóvember verður Opið vísindahús í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi frá kl. 13 til 16 þar sem gestir á öllum aldri geta upplifað vísindin á lifandi og spennandi hátt. Þátttakendur geta m.a. látið reyna á hæfileika sína í því að taka fréttaviðtöl, prófað tól og tæki sjúkraþjálfara, kynnst ólíkum heimum gervigreindar og séð undur efnafræðinnar hjá Sprengju-Kötu. Þá geta gestir mælt gripstyrk sinn, spilað tölvuleik um tölur, fengið innsýn í eðlisfræði skopparabolta og pappírsbáta og kynnst ævintýrum fuglanna með fuglafræðingi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.
Aðgangur er ókeypis, öll hjartanlega velkomin og engin skráning nauðsynleg.
Kjörið tækifæri fyrir börn á öllum aldri, foreldra, ömmur og afa, frænkur, frændur, systkini og allt þar á milli.
Uppsveitir og Flói er þriðji áfangastaður lestarinnar í ár, en hún heimsótti Vopnafjörð og Patreksfjörð í vor. Frá árinu 2011 hefur Háskólalestin ferðast vítt og breitt um landið og miðlað vísindum á líflegan og fjölbreyttan hátt en markmiðið er að efla tengsl Háskóla Íslands við samfélög landsins og styðja við starf grunnskóla.
Háskólalestin hefur heimsótt vel á fjórða tug áfangastaða og hlotið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem hún kemur. Hún hefur einnig hlotið Vísindamiðlunarverðlaun Rannís.
Fylgjast má með ferð Háskólalestarinnar á https://haskolalestin.hi.is og á Facebook-síðu lestarinnar.