Er ferðamannastaður á landinu þínu?

Gjáin í Þjórsárdal
Gjáin í Þjórsárdal

Árlega uppfærir Markaðsstofa Suðurlands svokallaða Áfangastðaáætlun Suðurlands þar sem mörkuð er ákveðin framtíðarsýn og uppbyggingaráætlun svæðisins. Fyrir 15. september þurfa sveitarfélög á svæðinu að skila inn svokölluðum áherslulista sveitarfélaga, sem fer svo inn í áfangastaðaáætlun. Á fundi sveitarstjórnar núna í morgun samþykkti sveitarstjórn að bæta á áherslulistann eftirfarandi innviðauppbyggingu í Skeiða- og Gnúpverjahrepp:

  • Stórbætt öryggi, upplýsingagjöf og vegvísun við gatnamót Skeiða-og Hrunamannavegar (nr. 30) og Þjórsárdalsvegar (nr.32) - við Gunnbjarnarholt.
  • Heildstætt reiðvegakerfi í gegnum sveitarfélagið svo allstaðar sé hægt að ríða um sveitarfélagið með öruggum hætti og tengja reiðvegi við helstu áninga-og áfangastaði í nágrenni.
  • Bæta aðstöðu í og við fjallaskála sveitarfélagsins með bættu aðgengi, merktum reið- og gönguleiðum í nágrenni þeirra og á milli þeirra.

Þegar eru Stöng og Þjórsárdalur á áfangastaðaáætlun og fengu Minjastofnun og Umhverfisstofnun nýverið úthlutun verulegra fjárhæða úr Landsáætlun til uppbyggingar þar.  Fyrir áhugasama er gaman að skoða kortasjá Ferðamálastofu þar sem hægt er að sjá hvaða staðir og verkefni hafa hlotið úthlutanir úr bæði Landsáætlun og Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða undanfarið - Kortasjána má sjá hér

En betur sjá augu en auga og ef íbúar muna eftir verkefnum eða stöðum sem ættu heima á áherslulista sveitarfélagsins til uppbyggingar, bættu öryggi eða eflingu innviða má gjarnan senda ábendingar á netfangið hronn@skeidgnup.is og veitt er athygli á því að um er að ræða alla uppbyggingu ferðamannastaða hvort sem þeir eru á forsvari sveitarfélagsins, einkaaðila eða félagasamtaka. 

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.

Sjóðnum er heimilt að fjármagna framkvæmdir er snúa að:

  • Öryggi ferðamanna.
  • Náttúruvernd og uppbyggingu.
  • Viðhaldi og verndun mannvirkja og náttúru.
  • Fjármögnun undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna áðurgreindra framkvæmda.

Verkefni sem sett eru inn í gildandi áfangastaðaáætlun landshlutans njóta sérstakrar stigagjafar til viðbótar annarri stigagjöf.

Endilega hafðu samband við skrifstofu sveitarfélagsins ef þú vilt bæta öryggi, vernda náttúru og mannvirki eða bæta aðstöðu fyrir ferðamenn á þínu landi. 

Einstaklingum/ einkaaðilum er líka bent á að þeir geta líka óskað eftir samtali við Markaðsstofu Suðurlands með því að senda póst á vala@south.is

Lokaskil sveitarfélagsins á áherslulista inn í Áfangastaðaáætlun eru 15. september næstkomandi

Umsóknartímabil um styrki úr Framkvæmdasjóð Ferðamannastaða vegna framkvæmda á árinu 2024 er frá og með 11. september 2023 til kl. 13 fimmtudaginn 19. október 2023.

Upplýsingasíða um framkvæmdasjóð ferðamannastaða: https://www.ferdamalastofa.is/is/studningur/framkvaemdasjodur-ferdamannastada/upplysingasida-um-umsoknir