Áramótapistill sveitarstjóra

Kæru sveitungar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og vona að þið hafið náð að njóta hennar með fólkinu ykkar.

Áramót eru alltaf ákveðin tímamót í lífi okkar allra. Börnin hlakka til næsta árs því þá verða þau árinu eldri, við fullorðna fólkið horfum hins vegar yfir farin veg á sama tíma og við lítum til framtíðar. Um leið vakna oft upp alls konar tilfinningar, eins og söknuður, eftirsjá, gleði, ánægja, eftirvænting, spenna, hlýja, kærleikur, ást og þakklæti svo eitthvað sé nefnt. Allt tilfinningar sem eiga rétt á sér og tilfinningar sem gott er að taka með sér inn í hið nýja ár. Því það eru þessar tilfinningar sem færa okkur lærdóm og þroska, af sumu getum við verið stolt af og af öðru getum við lært af.

Ég sjálf strengi aldrei áramótaheit en í nokkur ár hef ég sett mér alls konar markmið sem ég skrifa niður í litla vasabók og geymi á góðum stað. Í lok hvers árs sest ég niður með vasabókina og fer yfir markmið fyrra árs og set mér ný markmið fyrir það næsta. Þessi markmið hafa í gegnum árin verið af margvíslegum toga. Ég set mér alltaf heilsutengd markmið, lærdómsmarkmið, hvað ætla ég að læra nýtt á árinu, hvernig ætla ég að þroskast í lífi, leik og starfi. Ég set mér alltaf markmið tengd móður hlutverkinu, markmið tengd vináttu, fjárhagsleg markmið og jafnvel markmið tengd framkvæmdum eða breytingum.

Þegar markmiðin eru komin niður á blað þá skrifa ég niður leiðirnar sem ég ætla mér að fara til að ná þessum markmiðum. Það að skrifa niður markmiðin gerir þau svo sýnileg, jafnvel raunveruleg, og ómeðvitað þá nær maður þeim á einhverjum tímapunkti. Í þessi sjö ár sem ég hef haldið þessa vasabók hef ég alltaf náð að merkja „náð“ við hvert markmið... að undanskildu einu markmiði í ár; Að geta staðið á höndum!!!

En það er líka allt í lagi að ná ekki settu markmiði, þá færir maður það til næsta árs, aðlagar það jafnvel og breytir leiðinni eða tekur það til allsherjar endurskoðunar.

Þetta er ekkert ósvipað í rekstri, það eru gerðar stefnur og áætlanir, fjárhagsáætlanir, og þar með sett fram ákveðin markmið og leiðir til að þeim. Í rekstri Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur svo sannarlega ekki verið staðið á höndum á árinu heldur voru hendur látnar standa fram úr ermum, ef svo má segja.

Framkvæmdir:

Í upphafi árs hófust framkvæmdir við viðbyggingu Skeiðalaugar. Um er að ræða um 270 m2 sem hýsir nú líkamsræktaraðstöðu með aðgengi fyrir alla. Framkvæmdum lauk í sumar og hinn 17 júní fór fram formleg vígsla á húsnæðinu sem er hið glæsilegasta og aðstaðan góð. Í dag æfir þar fjöldinn allur af fólki og eru æfingatímar í boði fyrir alla aldurshópa, unga sem aldna.

Í sumar hófust framkvæmdir við 200 m2 verkmenntahús sem staðsett er við Þjórsárskóla og hýsir smíðastofu, mynd- og textílmennt og heimilisfræði. Framkvæmdir gengu vel og var húsið afhent til notkunar núna rétt fyrir jólafrí. Húsið er góð viðbót við húsakost Þjórsárskóla og held ég að mér sé óhætt að segja að það sé mikil eftirvænting hjá bæði starfsfólki og nemendum Þjórsárskóla að hefja starf þar í upphafi næsta árs.

Á árinu héldu framkvæmdir áfram við stærstu fjárfestingu sveitarfélagsins, íþróttamiðstöðina okkar í Árnesi, sem er um 3.700 m2 að stærð. Í mars var reistur byggingarkrani og hafist handa við að reisa húsið sjálft. Veðurguðirnir hafa verið okkur mjög hliðhollir í framkvæmdunum og hafa þær gengið vonum framar. Í nóvember sl. var búið að reisa húsið og hófust framkvæmdir að innan í desember. Ber að þakka öllu því góða fólki sem hefur komið að framkvæmdinni.

Fjárfest var í efni til að tryggja vatnsveituna í Árnesi og ný borholta við Hitaveitu Brautarholts var tekin í rekstur ásamt því að kláraðar voru framkvæmdir að viðbyggingu við dæluhús yfir nýju borholuna.

Fræðslumál

Í Þjórsárskóla urðu breytingar á árinu, Bolette K. Höeg, lét af störfum eftir 14 ár sem skólastjóri. Við hennar starfi tók Guðmundur Finnbogason.

Í haust hóf 9 bekkur göngu sína og eru núna rúmlega 60 börn í Þjórsárskóla. Hefur skólastarfið farið mjög vel af stað í vetur. Farið var í útilegu í haust og árshátíð var haldin núna í nóvember. Einnig hafa smiðjur verið haldnar þar sem börnin hitta og vinna með nemendum grunnskóla allra uppsveita og Flóa. Félagsmiðstöðin Ztart, sem staðsett er í kjallara Þjórsárskóla, er með metnaðarfullt starf fyrir alla nemendur 4.-10. Bekkjar, tvisvar sinnum í viku, undir dyggri handleiðslu Elvars og Hólmfríðar.

Í Leikholti heldur faglegt og metnaðarfullt starf áfram hjá Önnu Gretu og öllu því góða starfsfólki sem þar er. Nemendur þar eru nú um 50 talsins. Húsnæði Leikholts var allt tekið í gegn á síðustu árum og er því svigrúm til að taka á móti frekari fjölgun barna. Á árinu hefur leikskólalóðin verið í hönnun í samráði við starfsfólk og foreldra og er stefnt að því að fara í breytingar á henni á næsta ári.

Umhverfismál

Miklar breytingar standa nú yfir í sorpmálum sveitarfélagsins. Í haust ákvað sveitarstjórn að framlengja ekki samningi við Íslenska Gámafélagið heldur færa sorpþjónustu sveitarfélagsins inn í þjónustumiðstöðina. Markmið breytinganna er að bæta þjónustuna og ná betri árangri í rekstri úrgangsmála. Búið er að fjárfesta, til viðbótar við jarðgerðarvélina, í ruslabíl, krókheysisbíl, gámum, brennsluvél fyrir dýr og pressu fyrir pappa og plast. Fyrsta ferð við söfnun almenns úrgangs, plast, heyrúlluplasts og pappa nú í desember gekk mjög vel en breytingarnar eru enn í gangi og er starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar og skrifstofu ennþá að finna rétta taktinn í ferlinu.

Skipulagsmál og lóðir

Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað jafnt og þétt sl. 3 ár og eru í lok árs 2025 um 675 talsins. Í þéttbýlum sveitarfélagsins eru nú í byggingu um 25 íbúðir, auk þess sem 3 íbúðir eru nú orðnar íbúahæfar. Einnig liggja fyrir 16 skipulagðar lóðir til frekari íbúðauppbyggingar eða fyrir allt að 29 íbúðir.

Á árinu var áfram unnið að breytingu á deiliskipulagi í Árnesi með virku samráði við íbúa og er gert ráð fyrir að nýtt deiliskipulag taki í gildi á árinu 2026.

Framtíðin

Árið 2025 er síðasta heila ár þessa kjörtímabils og í maí nk. fara fram sveitarstjórnarkosningar. Ekki liggur enn fyrir að fullu hverjir hyggjast gefa kost á sér. Slíkri óvissu fylgir þó alltaf tækifæri og fyrirheit um nýja möguleika.

Þó mikið hafið áunnist og mikil uppbygging hefur verið sl. ár þá býður árið 2026 upp á fjölmörg ný tækifæri. Áfram er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu og í áætlunum fyrir árið 2026 er gert ráð fyrir að klára bygginu íþróttahússins í Árnesi, byggja tengibyggingu á milli Þjórsárskóla og íþróttahúss, koma upp betri aðstöðu á sorpmóttökustöð sveitarfélagsins, taka í gegn leikskólalóðina í Brautarholti, laga og bæta opin svæðin í kringum Skeiðalaug og gamla bókasafnshúsið og tryggja vatnsveitu sveitarfélagsins til framtíðar, svo fátt eitt sé nefnt.

Mikil uppbygging er einnig á meðal íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu. Tækifæri til að byggja frekar undir gott samfélag og gott sveitarfélag eru víða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Með áframhaldandi uppbyggingu, vandaðri stjórnsýslu, vandaðri ákvarðanatöku sem byggir á framtíðarsýn og virkri þátttöku íbúa er hægt að halda áfram að efla gott samfélag fyrir alla aldurshópa.

Megi nýtt ár færa ykkur öllum hamingju og gleði.

Með vinsemd og virðingu,

Sylvía Karen Heimisdóttir