Sveitarstjórn

42. fundur 17. apríl 2024 kl. 09:00 - 14:00 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Axel Á. Njarðvík
  • Gunnar Örn Marteinsson
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Árnesi, 17. apríl 2024

Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202404-0015

 

42. sveitarstjórnarfundur

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

 

1. Skýrsla sveitarstjóra á 42. sveitarstjórnarfundi

Heimsókn framkvæmdanefndar til íþróttafélagsins Fram.
Heimsókn framkvæmdanefndar til Verkstæðisins ehf.
Flothetta í Skeiðalaug.
Leikskólalóðin í Leikholti.
Fundur með Kvenfélagi Gnúpverja.
Héraðsnefndarfundur.
Fundur með HR Monitor.
Húsbúnaður í Þjórsárskóla.


2. Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 - fyrri umræða

​Haraldur Örn Reynisson endurskoðandi KPMG kom inn á fundinn og kynnti ársreikninginn og helstu niðurstöður. Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 lagður fram til fyrri umræðu.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 137,1 millj. kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 153,6 millj. kr. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.258,0 millj. kr. í A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.225,6 millj. kr.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 1.145,7 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 1.217,7 millj. kr.

Niðurstöður ársreiknings 2023 teknar til fyrri umræðu. Endurskoðun er enn í gangi með tilliti til byggðasamlaga og annarra samstarfsverkefna sem er ekki að fullu lokið.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vísa ársreikningi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2023 til síðari umræðu.


3. Ársreikningur Hitaveita Brautarholts 2023 - fyrri umræða

​Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts 2023 lagður fram til fyrri umræðu. Rekstrartekjur námu 5,1 millj. kr. á árinu 2023 og hækkuðu um 1 millj. kr. milli ára. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 0,6 millj. kr. Eigið fé í árslok var jákvætt um 15 millj. kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vísa ársreikningi Hitaveitu Brautarholts 2023 til síðari umræðu.


4. Stjórnsýsluskoðun KPMG 2023

Lögð fram til kynningar skýrsla um stjórnsýsluskoðun KPMG fyrir árið 2023. Samhliða vinnu við endurskoðun ársreiknings fyrir árið 2023 hefur verið kannað hvort almenn stjórnsýsla sveitarfélagsins og einstakar ákvarðanir af hálfu þess eru í samræmi við reglur um fjármál sveitarfélaga, ábyrga fjármálastjórn og upplýsingaskyldu sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 72. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Var í því sambandi kannað hvort sveitarstjórn hafi fylgt ákvæðum laga, reglna og samþykkta er lúta að stjórnsýslu, svo sem sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi frá KPMG kynnir skýrsluna og svaraði spurningum sveitarstjórnar.

5. Hitaveita Brautarholts 2023 - Afskriftartillaga 2024

​​​Lögð fram afskriftartillaga viðskiptakrafna Hitaveitu Brautarholts árið 2024 að fjárhæð 1.627.939 kr. Búið er að niðurfæra kröfurnar en óskað er eftir heimild til að afskrifa þær úr bókhaldinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að afskrifa kröfurnar í samræmi við framlagða afskriftartillögu.


6. Fjárhagsáætlun 2024 - afskrift viðskiptakrafna 2024

​​​​Lögð fram afskriftartillaga 2024 að fjárhæð 509.019 kr. Búið er að varúðarniðurfæra kröfurnar en óskað er eftir heimild til að afskrifa þær úr bókhaldinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að afskrifa kröfurnar í samræmi við framlagða afskriftartillögu.


7. Skólastefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps

​​Skólastefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps var samþykkt 18. október 2023 eftir tvær umræður í sveitarstjórn. Búið er að setja skólastefnuna í bækling sem er tilbúinn til dreifingar og er lagður fram fyrir sveitarstjórn til kynningar.


8. Frístund í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

​​Lagt fram erindi frá formanni skólanefndar um frístund/skólavistun nemenda á yngsta stigi grunnskólans. Í júní mun leikskólinn útskrifa tiltölulega stóran hóp nemenda sem þá fara í 1. bekk Þjórsárskóla. Greina þarf þörf á vistun/frístund áður en grunnskóli hefst. Mikilvægt er að hafa samráð og samstarf við foreldra og aðra hlutaðeigandi.

Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

 

9. Ungmennaþing

​​Lagt fram erindi frá formanni skólanefndar um nauðsyn þess að efla samstarf og samgang allra ungmenna í uppsveitum og Flóa á starfssviði Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.

Með þessu erindi er lagt til að haldið verði ungmennaþing fyrir alla nemendur á starfssviði SVÁ. Að sameiginlega verði staðið að góðu og málefnalegu málþingi þar sem allir nemendur komi saman, eigi lýðræðislegt samtal um sín málefni, móti ályktanir og tillögur sem sveitarfélögin taki síðan til sín.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að vísa erindinu til umræðu og áframhaldandi vinnslu í ungmennaráð Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

10. Fyrirhuguð kosning um nafn Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Á fundi sveitarstjórnar þann 10. janúar 2024 samþykkti sveitarstjórn að kosið verði um hvort halda eigi núverandi nafni Skeiða- og Gnúpverjahrepps eða hvort breyta eigi nafni sveitarfélagsins og að kosningin færi fram samhliða forsetakosningum 1. júní 2024. Sveitarstjórn taldi mikilvægt að góð umræða fari fram um mögulega nafnabreytingu og forsendu hennar. Haldinn var íbúafundur sunnudaginn 7. apríl þar sem fyrirhuguð kosning var kynnt. Í framhaldi af íbúafundinum og umræðum í samfélaginu leggur sveitarstjóri til að kosið verði þann 1. júní einungis um það hvort vilji sé hjá íbúum að skipta um nafn á sveitafélaginu. Verði niðurstaða kosninganna þannig að meirihluti sé fyrir því að velja nýtt nafn á Skeiða- og Gnúpverjahrepp muni kosningin verða bindandi og hafin verði nafnasamkeppni með það að markmiði að kjósa um nýtt nafn á sveitarfélaginu samhliða alþingiskosningum.

Gunnar Örn Marteinsson lagði fram eftirfarandi tillögu og bókun:

 

Ég legg til að fallið verði frá því að kjósa um hvort breyta eigi um nafn á sveitarfélaginu og meirihluti sveitarstjórnar sætti sig við niðurstöðu fyrri kosningar um þetta mál.

Kosið var um nafn á sveitarfélaginu fyrir átta árum þar sem ekki var samþykkt að skipta um nafn, engin haldbær rök hafa komið fram um að nauðsynlegt sé að ganga aftur til slíkra kosninga nú. Rétt er að benda á að ekki hafa allir rétt á að kjósa í forsetakosningum sem hafa þann rétt í sveitarstjórnarkosningum, það verður því alltaf ákveðin fjöldi íbúa sem hafa rétt á að kjósa til sveitarstjórnar sem hafa ekki rétt á að taka þátt í kosningum um nafn á sveitarfélaginu verði það gert samhliða forsetakosningum.

 

Vilborg Ástráðsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

 

Ég tel mikilvægt að kosið verði um hvort breyta eigi um nafn á stjórnsýsluheiti á sveitarfélaginu. Legg til að þeir hafi kosningarétt, til að kjósa um hvort breyta eigi nafni, sem eru á kjörskrá í sveitarstjórnarkosningum og þar að fái yngri kynslóðir einnig að kjósa, líkt og fordæmi eru fyrir í öðrum sambærilegum kosningum í öðrum sveitarfélögum.  Mikilvægt er að yngri kynslóðir hafi um það að segja hvert heitið verði á sveitarfélaginu.

Gunnar Örn Marteinnsson og Axel Njarðvík Árnason greiddu atkvæði með tillögu Gunnars Arnars Marteinssonar með tveimur atkvæðum. Haraldur Þór Jónsson, Bjarni Hlynur Ásbjörnsson og Vilborg Ástráðsdóttir greiddu atkvæði gegn tillögunni.

 

Samþykkt var með þremur atkvæðum, Haraldar Þórs Jónssonar, Bjarna Hlyns Ásbjörnssonar og Vilborgar Ástráðsdóttur, að samhliða forsetakosningum 1. júní 2024 verði kosið um hvort fara eigi í þá vegferð að velja nýtt nafn á sveitarfélagið eða halda áfram nafninu Skeiða- og Gnúpverjahreppur á sveitarfélaginu.

Gunnar Örn Marteinsson og Axel Njarðvík Árnason sátu hjá.

 

11. Erindi til sveitarstjórnar frá afréttamálanefnd Gnúpverjaafréttar

​Lagt fram erindi til sveitarstjórnar frá afréttamálanefnd Gnúpverjaafréttar er varðar breytingar á fjallskilum.

Umræða skapast um erindið. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að eiga nánara samtal við nefndina um breytt fyrirkomulag.

 

 

12. Úthlutun lóðar - Þingbraut 4

Á sveitarstjórnarfundi þann 5. apríl 2023 tók sveitarstjórn jákvætt í erindi Rauðukamba um atvinnulóð til uppbyggingar á u.þ.b. 1.000 fm. atvinnuhúsnæði fyrir lager o.fl. Síðan þá hefur sveitarfélagið keypt land sem var skipulagt fyrir atvinnulóðir og eru því 10 atvinnulóðir við Þingbraut lausar til úthlutunar. Sveitarstjóri leggur til að úthluta Rauðukömbum lóðina Þingbraut 4 í samræmi við áður gefið vilyrði og 18. gr. reglna um úthlutun lóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að úthluta lóðinni Þingbraut 4 til Rauðukamba ehf.

 

 

13. Heimild Umhverfisstofnunar vegna Hvammsvirkjunar

Heimild Umhverfisstofnunar vegna Hvammsvirkjunar barst Landsvirkjun þriðjudaginn 9. apríl. Miðvikudaginn 10. apríl óskaði Landsvirkjun eftir að Orkustofnun hefji vinnu við að uppfæra virkjunarleyfið. Heimildin og greining Umhverfisstofnunar á athugasemdum og umsögnum er lögð fram til kynningar fyrir sveitarstjórn.

 


14. Sumaropnun á skrifstofu Skeiða- og Gnúpverjahrepps

​Síðustu ár hefur skrifstofa sveitarfélagsins verið lokuð þrjár vikur í júlí. Sveitarstjóri leggur til að lokað verði frá og með mánudeginum 8. júlí til og með föstudagsins 26. júlí.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum sumarlokun skrifstofu Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá og með mánudeginum 8. júlí til og með föstudagsins 26. júlí.

 

15. ​Samningur við Flothettu

Samningur við Flothettu ehf. um leigu á aðstöðu í Skeiðalaug með það að markmiði að innleiða nærandi bað- og sundlaugamenningu í Skeiðalaug lagður fram til staðfestingar sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir framlagðan samning með fimm atkvæðum.

 

16. Gjaldskrá Skeiðalaugar

Lögð fram ný gjaldskrá við Skeiðalaug til samþykktar sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum nýja gjaldskrá fyrir Skeiðalaug og að hún taki gildi frá og með 1. maí 2024. Árskort gildir í báðar sundlaugar sveitarfélagsins.

 

17. Umsögn vegna Ákalls eftir sjónarmiðum vegna endurskoðunar laga um verndar- og orkunýtingaráætlun

Lögð fram umsögn sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna ákalls eftir sjónarmiðum vegna endurskoðunar laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Sveitarstjóra falið að klára umsögnin og skila í samráðsgátt stjórnvalda.

 

18. Umsögn vegna tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár

Lögð fram umsögn sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er snýr að Höfðaflötum við Vörðufell.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestir framlagða umsögn með fimm atkvæðum og felur sveitarstjóra að skila henni til Umhverfisstofnunar.

 

19. Skjalavistunaráætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Lögð fram til kynningar samþykkt skjalavistunaráætlun ásamt handbók. Með þessum áfanga er Skeiða- og Gnúpverjahreppur fyrsta sveitarfélagið í Árnessýslu til þess að ná þessum áfanga.

 

20. Leikskóladvöl utan lögheimilis

Lögð fram beiðni um leikskóladvöl í Leikholti fyrir barn sem hefur ekki lögheimili í sveitarfélaginu. Lögheimilis sveitarfélag hefur samþykkt að greiða fyrir dvölina út núverandi skólaár 2023/2024.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum beiðni um leikskóladvöl í Leikholti út núverandi skólaár 2023/2024.

 

Vilborg Ástráðsdóttir vék af fundi.

 

21. Samkomulag lóðahafa í Brautarholti

​Lagt fram til staðfestingar sveitarstjórnar samkomulag um skil á áður úthlutuðum lóðum sem falla þá til þeirra aðila sem voru dregnir út til vara. Lóðir sem um ræðir eru Vallarbraut 8-10 og Vallarbraut 11-13.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum skil á lóðunum og úthlutar þeim í samræmi við áður gerða lóðaúthlutun eins og kemur fram í framlögðu samkomulagi.

 

Vilborg Ástráðsdóttir kemur aftur inn á fundinn.

 

22. Skipun í stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum

Haraldur Þór Jónsson hefur óskað eftir að fara úr stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum. Skipa þarf nýjan fulltrúa fyrir hann.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að skipa Eirík Arnarsson í stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum.

 

23. Fundargerð skólanefndar nr. 12

Fundargerð 12. fundar skólanefndar lögð fram til staðfestingar í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum skóladagatal Þjórsárskóla 2024-2025, samkvæmt 1. lið fundargerðarinnar.

 

Undir 7. lið fundargerðar – Umsóknir til Þróunarsjóðs skólasamfélags Skeiða- og Gnúpverjahrepps voru til afgreiðslu fjórar umsóknir sem sveitarstjórn þarf að staðfesta.

Umsókn um styrk úr þróunarsjóði vegna námsferðar starfsmanna Þjórsárskóla í júní 2024.

Skólanefnd metur umsóknina svo, að hún falli að einhverju leyti að gildandi skólastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps og telur mjög jákvætt að leitað sé leiða til að auka víðsýni með heimsóknum í aðra skóla og að efla starfsmannahópinn í heild og þá sérstaklega í ljósi þess að framundan eru krefjandi tímar í breytingum á skólahúsnæði.

Það er þó ljóst að upplýsingar skortir um faglega stefnumörkun þeirra skóla sem áætlað er að heimsækja og hvernig megi líta á það sem ávinning fyrir skólasamfélagið. Einnig skortir sundurliðaða kostnaðaráætlun.

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu umsóknarinnar. Sveitarstjóra falið að kalla eftir frekari gögnum.

 

Umsókn um þróunarsjóð skólasamfélags Skeiða- og Gnúpverjahreppi vorönn 2024 ,,Innigarður“

Skólanefnd metur umsóknina þannig að hún fellur að gildandi skólastefnu og ávinning fyrir skólasamfélagið, á þann hátt að hún eflir fjölbreytileika í starfi leikskólans og að börn geti skapað, hannað og upplifað afrakstur eigin vinnu. Verkefninu er m.a. áætlað að auka samvinnu við nærsamfélagið og auka fjölbreytileika í kennsluháttum leikskólans.

Verkefnið er vel kynnt, markmið skilgreind og skipulag gott. Kostnaðaráætlun er skilgreind. Skólanefnd beinir því til sveitarstjórnar að samþykkja að veita verkefninu fjármagn og gera samhliða kröfu um skriflegan samning við styrkþega í samræmi við reglur sjóðsins.

Að verkefni loknu skal styrkþegi skila greinagerð um verkið í samræmi við 6. gr. sjóðsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita 220.000 króna styrk til verkefnisins. Að verkefni loknu skal styrkþegi skila greinagerð um verkið í samræmi við 6. gr. sjóðsins.

 

Umsókn um styrk úr Þróunarsjóði skólasamfélags Skeiða- og Gnúpverjahreppi

„Sjá, snerta, skynja og skapa.“

Skólanefnd metur umsóknina þannig að hún telst falla að gildandi skólastefnu og ávinning fyrir skólasamfélagið á þann hátt að verkefnið eflir tækifæri til skynjunar og sköpunar hjá yngsta aldurshópi leikskólans. Verkefninu er ætlað að efla leikskólann í að vinna með vitsmuna-, tilfinninga- og félagslegan þroska barnanna.

Verkefnið er vel kynnt, markmið skilgreind og skipulag gott. Kostnaðaráætlun er skilgreind. Skólanefnd beinir því til sveitarstjórnar að veita verkefninu fjármagn og gera samhliða kröfu um skriflegan samning við styrkþega í samræmi við reglur sjóðsins. Að verkefni loknu skulu styrkþegar skila greinagerð um verkið í samræmi við 6.gr. sjóðsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita 391.200 króna styrk til verkefnisins. Að verkefni loknu skal styrkþegi skila greinagerð um verkið í samræmi við 6. gr. sjóðsins.

 

Umsókn í þróunarsjóð Skeiða- og Gnúpverjahrepps vorönn 2024.

,,Á skíðum skemmti ég mér“

Skólanefnd metur umsóknina þannig að hún telst falla að gildandi skólastefnu og ávinning fyrir skólasamfélagið á þann hátt að verkefnið eflir útivist og er ætlað að örva líkamsfærni og jafnvægi barnanna og efla markvissa útivistarkennslu í leikskólanum.

Verkefnið er vel kynnt, markmið skilgreind og skipulag gott. Ávinningur fyrir skólasamfélagið og nemendur eru vel ígrunduð. Kostnaðaráætlun er skilgreind.

Skólanefnd beinir því til sveitarstjórnar að veita verkefninu fjármagn og gera kröfu um skriflegan samning við styrkþega í samræmi við reglur sjóðsins. Að verkefni loknu skulu styrkþegar skila greinagerð um verkið í samræmi við 6.gr. sjóðsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita 450.000 króna styrk til verkefnisins. Að verkefni loknu skal styrkþegi skila greinagerð um verkið í samræmi við 6. gr. sjóðsins.

 

 

Fundargerð skólanefndar að öðru leyti staðfest af sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

 

24. Fundargerðir 17., 18. og 19. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.


25. Fundargerð 324. fundar stjórnar SOS

Fundargerð lögð fram til kynningar.


26. Fundargerðir 6. og 7. fundar stjórnar Markaðsstofu Suðurlands

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.


27. Fundargerð 107. fundar stjórnar UTU

Fundargerð lögð fram til kynningar.


28. Fundargerð 19. fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu

Fundargerð lögð fram til kynningar.

29. Fundargerð 12. fundar Loftslags- og umhverfisnefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.


30. Fundargerð 11. fundar afréttamálanefndar Gnúpverja

Fundargerð lögð fram til kynningar.


31. Fundargerð 12. fundar Menningar- og æskulýðsnefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

32. Ársreikningur Listasafns Árnesinga 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.

 

33. Ársreikningur Héraðsnefndar Árnesinga 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.

 

34. Ársreikningur Tónlistarskóla Árnesinga 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.

 

35. Ársreikningur Héraðsskjalasafn Árnesinga 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.


36. Ársreikningur Almannavarna Árnessýslu 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.

 

37. Ársreikningur Brunavarnar Árnesinga 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.


38. Ársreikningur Byggðasafns Árnesinga 2023

Ársreikningur lagður fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 14:00. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 8. maí, kl. 9.00, í Árnesi.

Skjöl