Sveitarstjórn

44. fundur 12. ágúst 2020 kl. 16:00
Nefndarmenn
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Björgvin Skafti Bjarnason
  • Einar Bjarnason
  • Ingvar Hjálmarsson
  • Matthías Bjarnason
Starfsmenn
  • Auk þess sat Bjarni Hlynur Ásbjörnsson starfandi sveitarstjóri fundinn og ritaði hann fundargerð

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera

Árnesi, 10 ágúst, 2020

Raðnúmer fundar í GoPro skjalakerfi 202007-0006

44. Fundur Sveitarstjórnar

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

 

1. 197. fundargerð Skipulagnsnefndar UTU

Mál nr. 15. Kálfhóll 2A L228637; Kálfhóll 2 L166477; Markhóll; stofnun lóðar – 2006021. Lögð fram umsókn frá Elínu Þórðardóttur, dags. 8. júní 2020 um stofnun 3 ha lóðar úr landi Kálfhóls 2 og 0.44 ha lóðar úr landi Kálfhóls 2A sem síðar verða sameinaðar í landareign sem fengi nafnið Markhól.

Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna og sameiningu né staðfangið skv. fyrirliggjandi umsókn. Ekki er gerð athugasemd við staðfestingu landskipta skv. 13. jarðalaga. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki fyrirliggjandi umsókn með fyrirvara um umsögn Vegagerðarinnar fyrir nýrri vegtengingu og samþykki eigenda aðliggjandi landeigna á hnitsettri afmörkun.

Sveitarstjórn samþykkir stofnun ofangreindrar lóða og staðföng þeirra. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn fyrirliggjandi umsókn.

 

Mál nr. 16. Hvammsvirkjun: Virkjun Þjórsár á móts við Skarðsfjall: Deiliskipulag – 1509062.

Deiliskipulag vegna Hvammsvirkjunar tekur til tveggja sveitarfélaga, Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Kynning tillögu hefur verið kynnt sv.félögum og á íbúafundum, nú síðast var skipulagslýsing kynnt í janúar 2017 og tillaga að deiliskipulagi var auglýst í maí 2017. Landsvirkjun áformar að uppfæra tillögu deiliskipulags með hliðsjón af endurskoðuðum aðalskipulögum beggja sveitarfélaga. Engar umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á fyrirhugaðri framkvæmd. Fyrir liggja samningar við alla landeigendur sem framkvæmdin snertir beint. Landsvirkjun óskar eftir að setja aftur af stað vinnu við gerð deiliskipulags vegna Hvammsvirkjunar.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að vegna þess tíma sem liðinn er frá því að skipulagsferli lauk í síðustu meðferð málsins á árinu 2017 skuli hefja fullt skipulagsferli að nýju á grundvelli 40. gr. skipulagslaga. Nefndin telur að með áliti Skipulagsstofnunar frá 12.3.2018 sé ljóst að matsskýrsla framkvæmdaaðila uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Því er það álit nefndarinnar að framkvæmdin skuli ekki háð endurskoðun á matsskýrslu.
Skipulagsnefnd samþykkir að veitt verði heimild til deiliskipulagsgerðar að nýju og óskar eftir að fá uppfærða tillögu til afgreiðslu þar sem ýmsar breytingar hafa orðið á aðalskipulagi sveitarfélagsins frá því síðasta tillaga var kynnt.

Bókun.

Björgvin Skafti Bjarnason lagði fram eftirfarandi bókun:

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir að vegna þess tíma sem er liðinn frá því að skipulagsferli lauk í síðustu  meðferð málsins á árinu 2017 skuli hefja fullt skipulagsferli að nýju á grundvelli 40. Gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn telur að með áliti Skipulagsstofnunar frá 21.03. 2018 sé ljóst að matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Því er það álit sveitarstjórnar að framkvæmdin skuli ekki háð endurskoðun á matsskýrslu.

Sveitarstjórn samþykkir að veitt verði heimild til skipulagsgerðar að nýju með þeim breytingum sem orðið hafa á aðalskipulagi sveitarfélagsins frá því síðasta tillaga var kynnt.

 

Anna Sigríður

Telur að margar forsendur málsins hafi breyst og að 17 ára gömul matsskýrsla standist illa í dag. Telur að bókun skipulagsnefndar sé óskýr og þarfnist frekari skýringa.

Anna Sigríður lagði fram eftirfarandi bókun:

Bókun v/1. máls 44. fundar Sveitarstjórnar Skeiða og Gnúpverjahrepps 

Ég hef lýst í grófum dráttum sjónarmiðum Gróskulistans fyrir sveitarstjórn og ýmsum þeim rökum sem listinn telur fyrir því að endurhugsa þurfi áform um virkjun Þjórsár við Núp/Hvamm. Þar hef ég farið  yfir að matsskýrslan byggi að miklu leyti á yfir 17 ára gömlum gögnum og ýmsar forsendur og viðmið séu breytt á þeim tíma, spurningum sé ósvarað um hvernig nýtingu orkunnar yrði háttað og svo fram vegis.  

Ég tel að framkvæma þurfi á ný rannsóknir á áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda og óábyrgt að halda áfram þegar byggt er á svo gömlum gögnum og túlkunum, einkum þegar um er að ræða framkvæmd sem felur í sér óafturkræf áhrif á náttúru og umhverfi. Þar að auki tel ég að nýrri niðurstöður úr matsskýrslu um neikvæð áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á ferðaþjónustu og útivist og landslag og ásýnd séu þess eðlis að enn ríkari ástæða sé til að endurskoða önnur atriði í matsskýrslu sem og hugmyndirnar í heild. 

Anna Sigríður Valdimarsdóttir 

Ingvar

Spurst fyrir um hvort ekki væri eingöngu um breytingu á deiliskipulagi að ræða því óljóst er í tillögu skipulagsfulltrúa hvort um sé að ræða bæði aðal- og deiliskipulag eða eingöngu deiliskipulag. Í máli Skafta kom fram að um deiliskipulagsvinnu væri að ræða. Umræður urðu um 40. og 42. grein skipulagslaga. Fram kom að eftir að deiliskipulag er samþykkt, liggur fyrir í skipulagsferli að framkvæmdaleyfi verði til umfjöllunar þegar það verður lagt fram.

Tillagan er samþykkt með 4 atkvæðum gegn atkvæði Önnu Sigríðar.

 

Mál nr. 17. Þjórsárdalur Stöng (L178333); umsókn um byggingarleyfi; safnhús – endurbætur og viðbygging – 2002058.

Fyrir liggur umsókn Karls Kvaran, móttekin 28.02.2020 um byggingarleyfi til að byggja við safnahús 55 m2, gera endurbætur innanhúss og einnig byggja útsýnispall á viðskipta- og þjónustulóðinni Þjórsárdalur Stöng (L178333) í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Heildarstærð eftir stækkun á safnhúsi verður 386,5 m2.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu þar sem ekki er um aðra hagsmunaaðila að ræða. Útgáfa byggingarleyfis er háð samþykki Forsætisráðuneytisins.

Sveitarstjórn samþykkir að byggingarleyfi vegna málsins verði gefið út með fyrirvara um málsmeðferð í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

2. Undirritaður samningur um efnistöku, Galtalækur II

Lagður fram undirritaður samningur um efnistöku í reiðstíga, gönguleið og áningarhólf milli Landsvirkjunar, Sveins Sigurjónssonar og Sigurbjargar Elimarsdóttur.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn.

 

3. 11. fundargerð Afréttarmálanefndar 25.6.2020

Lögð var fram fundargerð 11. fundar Afréttarmálanefndar frá 25.6.2020. Fundargerðin var lögð fram og staðfest.

Ingvar sagði að Jón Bjarnason, fjallkóngur Hruanamanna hafi sent erindi til Héraðsnefndar um að fá upplýsingar frá almannavörnum um framkvæmd leita og rétta í ljósi Covit-19. Fram kom að almannavarnir eru að vinna að útfærslu á þeim málum þannig að hægt verði að uppfylla reglur um sóttvarnir.

 

4. Hellnaholt - beiðni um undanþágu vegna fjarlægðar frá vegi

Lögð voru fram bréf og fylgigögn vegna beiðni skipulagsfulltrúa til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um undanþágu vegna fjarlægðar byggingareits Hellnaholts, úr landi Fossness, frá vegi sem er innan þeirra marka sem kveðið er á í lið d í gr. 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð, vegna náttúrulegra aðstæðna.

Málið lagt fram til kynningar.

 

5. Beiðni um skólavist

Lögð fram beiðni um að nemandi með lögheimili utan Skeiða- og Gnúpverjahrepps fái heimild til að stunda nám í Þjórsárskóla, skólaárið 2020-2021.

Sveitarstjórn samþykkir beiðnina.

 

6. Nefnd um framtíð Árness

Lögð var fram fyrirspurn frá nefnd um framtíð Árness þar sem óskað er eftir því að fá frekari leiðbeiningar frá sveitarstjórn varðandi störf sín og umboð.

 

Skafti lagði fram eftirfarandi bókun:

Notkun á félagsheimilinu í Árnesi er margþætt og getur verið áfram  hvort sem samið er um veitingar og eða fleira við  núverandi rekstraraðila.

Sveitarstjórn óskar eftir því við nefnd um framtíðarhlutverk félagsheimilisins í Árnesi vinni áfram á sömu forsendum og hún hefur gert hingað til .

Bókunin var samþykkt

 

7. Minjastofnun - Endurbætur á Stöng í Þjórsárdal

Lagt var fram bréf frá Forsætisráðuneytinu varðandi endurbætur á Stöng í Þjórsárdal. Bréfið var lagt fram til kynningar.

 

8. Svar við umsókn um fjárveitingu til styrkvega 2020

Lagt var fram bréf Vegagerðarinnar, dags. 30. júní 2020, undirritað af Rannveigu Maríu Jóhannesdóttur varðandi úthlutun kr. 2.000.000,- til styrkvega í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Bréfið var lagt fram til kynningar.

 

9. Verkefni á sviði félagsþjónustu - upplýsingar frá sambandi sveitarfélaga

Lögð voru fram til kynningar bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi framkvæmd notendastýrðar persónulegrar aðstoðar og um upplýsingar um stöðu verkefna á sviði félagsþjónustu í júlí 2020.

 

10. Fundargerð 7.7.2020. Lögreglustjóri, bæjar- og sveitarstjóri v. covid 19

Lögð var fram til kynningar fundargerð frá fundi lögreglustjóra í suðurlandsumdæmi með bæjar- og sveitarstjórum vegna Covid-19 sem haldinn var þann 7. júlí 2020.

 

11. 43. fundur Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings

Lögð var fram til kynningar fundargerð 43. fundar Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings.

 

Önnur mál

 

Stóra-Núps vegurinn.

Anna Sigríður spurðist fyrir um það hvernig málið stendur varðandi lagningu vegar að kirkjunni að Stóra Núpi. Bjarni skýrði frá því að Vegagerðin hafi óskað eftir því að fá staðfestingu fyrir því hvernig kostnaði fyrir vegalagningunni umfram þátt Vegagerðarinnar verði skipt áður en til framkvæmdanna komi.

 

Fram kom að kvartað hafi verið undan skorti á viðhaldi og þrifum í Hólaskógi og þarf að ítreka við leiguhafa að sinna því.

Ingvar upplýsti að mikil óánægja er meðal íbúa við Vorsabæjarveg með framkvæmd á vegum Vegagerðarinnar. Vegurinn verður mjór og mun reynast hættulegur þegar stór ökutæki mætast.

Bjarni upplýsti að samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar mun vegurinn verða lagður fimm metra breiðri klæðningu, án frekari vegaxla. Jafnframt kom fram að Gnúpverjavegur verður unninn á sama hátt.

Fundi slitið kl. 17:30. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn  miðvikudaginn  19. ágúst 2020 kl.  16:00. í Árnesi.

 

 

Gögn og fylgiskjöl: