Sveitarstjórn

59. fundur 14. apríl 2021 kl. 12:10
Nefndarmenn
  • Fundargerð:  
  • 59. fundur 14. apríl 2021
  •  
  • Mætt til fundar:
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Björgvin Skafti Bjarnason
  • Einar Bjarnason
  • Ingvar Hjálmarsson
  • Matthías Bjarnason
Starfsmenn
  • Auk þess sat Kristófer A. Tómasson sveitarstjóri fundinn og ritaði hann fundargerð

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera. Oddviti stjórnaði fundi

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Ársreikningur 2020 fyrri umræða.

Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2020. Auðunn Guðjónsson endurskoðandi hjá KPMG mætti til fundarins undir þessum lið ásamt lið nr. 2 og 3. Hann fór yfir helstu staðreyndir ársreikningsins. Miklar umræður urðu um ársreikninginn. Tap varð á rekstri sveitarfélagsins  um 40,1 mkr. Nánar verður greint frá upplýsingum úr ársreikningnum við síðari umræðu. Samþykkt að vísa ársreikningi til síðari umræðu.

2. Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts

Lagður fram ársreikningur Hitaveitu Brautarholts fyrir árið 2020. Auðunn Guðjónsson endurskoðandi fór yfir helstu staðreyndir ársreikningsins. Ársreikningi vísað til síðari umræðu.

3. Endurskoðunarskýrsla 2020.

Lögð fram og kynnt endurskoðunarskýrsla fyrir rekstur og stjórnun sveitarfélagsins árið 2020. Auðunn Guðjónsson útskýrði helstu atriði skýrslunnar. Miklar umræður urðu um skýrsluna. Ekki gerðar athugsemdri við skýrsluna.

4. Rekstur jan-mars 2021. Sveitarstjóri lagði fram yfirlit yfir rekstur málaflokka janúar- mars 2021. Ljóst er að leggja þarf fram viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2021. Samþykkt að leggja viðauka fram á næsta fundi sveitarstjórnar.

5. Lántaka – möguleikar

Sveitarstjóri kynnti möguleika til lántöku sem kæmi til niðurgreiðslu yfirdráttar á ráðstöfunarreikningi sveitarfélagsins. Afgreiðslu frestað til næsta fundar sveitarstjórnar.

6. Barngildi -reglur.

Ræddar voru hugmyndir um breytingu á barngildum í leikskóla. Máli frestað til næsta fundar.

7. Ávaxtagjald

Lagðar fram hugmyndir um ávaxtagjald í leikskóla. Máli frestað til næsta fundar.

8. 214. Fundur Skipulagsnefndar.

Mál 23. Kílhraun land L191805; Áshildarvegur 2-26; Úr frístundabyggð í íbúðabyggð; Aðalskipulagsbreyting - 2009070

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna Kílhrauns land L191805, Áshildarvegur 2-26. Í breytingunni felst að frístundasvæði breytist að hluta til í íbúðarsvæði. Lýsing tillögunnar var kynnt frá 28. okt. - 18. nóv. Umsagnir sem bárust á kynningartíma eru lagðar fram við afgreiðslu málsins.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.       

Sveitarstjórn samþykkir ofangreinda tillögu um breytingu á aðalskipulagi í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Mál 24. Kílhraun land L191805; Áshildarvegur 2-26; Úr frístundabyggð í íbúðabyggð; Deiliskipulagsbreyting - 2009071

Lögð er fram deiliskipulagsbreyting sem tekur til um 11 ha svæðis að Áshildarvegi 2-26 í landi Kílhrauns í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Innan deiliskipulagsins er gert ráð fyrir að frístundalóðir breytist í íbúðarhúsalóðir. Gert er ráð fyrir byggingarheimild fyrir íbúðarhús allt að 350 fm og 60 fm aukahúsi.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkir ofangreinda deiliskipulagsbreytingu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Mál 25. Steinsholt 1 L166598; Steinsholt 1C og Steinsholt 1 land (1B) L166599; Breytt heiti og stofnun lóðar - 2103068

Lögð er fram umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar f.h. landeigenda, dags. 18. mars 2021, um stofnun 33.002 fm lands, Steinsholt 1C, úr jörðinni Steinsholt 1 L166598. Fyrirhugað er að byggja fjárhús á landinu. Aðkoman er frá Steinsholtsvegi um bæjarhlað Steinsholts. Jafnframt er óskað eftir að íbúðarhúsalóðin Steinsholt 1 land L166599 fái staðfangið Steinsholt 1B.

Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun landsins né staðföng skv. fyrirliggjandi umsókn. Ekki er gerð athugasemd við staðfestingu landskipta skv. 13. jarðalaga. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki fyrirliggjandi umsókn.

Sveitarstjórn samþykkir ofangreinda umsókn um stofnun lands, Steinsholt 1C, úr jörðinni Steinsholt 1 L166598. Einnig samþykkir sveitarstjórn að íbúðarhúsalóðin Steinsholt 1 land L166599 fái staðfangið Steinsholt 1B.

           

Mál 26. Andrésfjós L166434; Andrésfjós 1 og 2; Stofnun lóða - 2103070

Lögð er fram umsókn Sigurðar U. Sigurðssonar f.h. landeiganda, dags. 18. mars 2021, um stofnun tveggja lóða úr jörðinni Andrésfjós L166434. Um er að ræða annars vegar 3.567 fm lóð, Andrésfjós 1, utan um þegar byggt íbúðarhús og hins vegar 4.030 fm lóð, Andrésfjós 2, þar sem fyrirhugað er að byggja íbúðarhús á. Aðkoman er frá bæjarhlaði Andrésfjósa.

Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna skv. fyrirliggjandi umsókn. Ekki er gerð athugasemd við staðfestingu landskipta skv. 13. jarðalaga. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki erindið. Framkvæmdir innan lóða eru eftir atvikum háðar deiliskipulagi lóðanna eða grenndarkynningu.

 

Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti stofnun ofangreindra lóða og staðfestir umrædd landskipti skv. 13. gr. jarðarlaga.

 

9. Umsagnarbeiðni Akrahrepps Aðalskipulagslýsing

Lögð var fram skipulags- og matslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi Akrahrepps. Óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar. Sent af Rúnari Guðmundssyni skipulagsfulltrúa Skagafjarðar. Afréttarlönd Akrahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps liggja saman á litlu svæði.  Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við skipulags- og matslýsinguna.

10. Umsögn Vegagerðar um héraðsveg að Kílhrauni.

Lögð fram umsókn frá Vegagerðinni undirrituð af Svani Bjarnasyni um héraðsveg að Kílhrauni. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við umræddan veg.

11. Fundargerð 47. fundar Skóla og Velferðarnefndar

Fundargerð lögð fram og kynnt.

Mál til kynningar:

12. Eftirlitsmyndavélar á Suðurlandi

13. Þingsályktanir til umsagnar

14. 300. Fundargerð SOS

15. Þingsálykt. um lýðheilsustefnu

16. Aðgerðaráætlun Viðspyrna

17. Fundargerð Stjórnar Sambands Íslenskra Sveitarfélaga nr. 896

18. Önnur mál.

Sveitarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:

Það eru liðin rúmlega níu ár síðan undirritaður kom til starfa hjá sveitarfélaginu. Fyrir mér var það mikið lán á sínum tíma að vera valinn í starf sveitarstjóra. Þessi tími hefur verið mjög lærdómsríkur og á flestan hátt ánægjulegur en á tímum krefjandi. Fjölda fólks hef ég kynnst og starfað með, sveitarstjórnarfólki, starfsfólki sveitarfélagsins, öðrum íbúum samfélagsins, kollegum úr öðrum sveitarfélögum, svo nokkuð sé nefnt.

Nú komið að leiðarlokum í mínu starfi hér. Ástæður þess eru fleiri en ein. Eins og gerist, þá er eðlilegt að upp komi þær aðstæður að fólk sem starfar saman að rekstri verði ósammála um leiðir og áherslur. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að sýn sveitarstjóra og þeirra sem halda um tauma sveitarstjórnar séu í takt í sínum verkefnum. Þannig er því varið að sá sem þetta ritar hefur um nokkurt skeið bent á að breytingar þurfi að eiga sér stað í rekstri sveitarfélagsins. Breytingar sem miða að því að bæta afkomu þess. Þar má nefna þörf á að leggja á leikskólagjöld, hækka gjaldskrá sorpþjónustu, hækka álagshlutfall fasteignagjalda í A flokki, hætta rekstri Skeiðalaugar, svo nokkuð sé nefnt. Enn sem komið er hafa þær ábendingar ekki náð fram að ganga. Einnig hefur verið horft mjög til þess að ná niður rekstrarkostnaði í leikskóla og grunnskóla. Það hefur reynst erfitt. Þegar horft er til þess að rekstrarniðurstaða ársins 2020 er verulegt tap, annað árið í röð, verður ekki hjá því komist að ráðast í aðgerðir til að bæta reksturinn. Ég tek það mjög nærri mér að staðreyndin um afkomu sveitarfélagsins sé með þessum hætti. Hér er verið að sýsla með almannafé og brýnt að á því sé vel haldið. Það er að langt frá því að ég fyrri mig ábyrgð á því hvernig staðan er. Það má eflaust finna dæmi, fleiri en eitt sem ég hefði betur hagað málum með öðrum hætti en raun ber vitni. En að mínu mati hefði niðurstaðan orðið betri ef samstaða hefði verið um að fara þær leiðir sem ég hef lagt til á síðustu misserum.

Flest þau ár, þennan tæpa áratug sem ég hef starfað hér hefur rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins verið vel viðunandi. Síðustu tvö ár hafa farið á verri veg, eins og kunnugt er. Það eru engu að síður  möguleikar á að snúa rekstrinum á rétta braut, tekjustofnar hér eru frekar góðir. Kostnaður hefur hins vaxið mjög mikið. Ekki síst launakostnaður. Sveitarstjórn og aðrir sem koma munu að rekstri sveitarfélagsins á næstu misserum mega búast við að þurfa að taka ákvarðanir sem geta komið niður á pyngju þeirra sem nota þá þjónustu sem sveitarfélagið heldur úti. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að minnka þjónustu.

Í ljósi þessa sem ég hef hér nefnt segi ég starfi mínu sem sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps lausu. Æskilegt þætti mér að fá lausn sem fyrst frá störfum. En sé þess óskað er ég tilbúinn til að gegna starfinu út aprílmánuð og vinna áfram að þeim verkefnum sem eru mest aðkallandi um þessar mundir.

Ég þakka sveitarstjórn og samstarfsfólki fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum. Þó að leiðir skilji á þessum vettvangi, þá er ekki tilefni frá minni hálfu til að eftir standi sárindi eða kali. Ég hefði gjarnan viljað láta af störfum við jákvæðari aðstæður, en engu að síður er ég þakklátur fyrir það tækifæri sem ég hef fengið til að gegna jafn umfangsmiklu og lærdómsríku starfi. Ég vona að þessi ár mín í starfi hjá sveitarfélaginu skilji eftir eitthvað gagn fyrir samfélagið.  Ég óska sveitarstjórn og íbúum Skeiða- og Gnúpverjahrepps alls hins besta.

Kristófer Tómasson

Ingvar Hjálmarsson og Anna Sigríður Valdimarsdóttir lögðu fram eftirfarandi bókun:

Við hörmum þá stöðu sem upp er komin í okkar ágæta sveitarfélagi. Lýsum við mikilli ánægju með það samstarf sem við höfum átt við Kristófer. Óskum við eftir því að það ráðningarferli sem þarf að eiga sér stað verði frestað til næsta fundar svo sveitarstjórn fá smá tíma til að meðtaka þá stöðu sem upp er komin og vinna úr málum með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Björgvin Skafti, Einar og Matthías tóku undir bókunina.

 

 

Fundi slitið kl. 20:45.   Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn  miðvikudaginn  21. apríl nk. kl  16.00. í Árnesi.

 

 

_______________________

                                  Björgvin Skafti Bjarnason

 

_____________________________                         ___________________________

Einar Bjarnason                                                                     Ingvar Hjálmarson               

 ________________________                              _______________________

 Matthías Bjarnason                                                               Anna Sigríður Valdimarsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Gögn og fylgiskjöl: