Sveitarstjórn

25. fundur 18. ágúst 2003 kl. 10:30
25. fundur hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps var haldinn þriðjudaginn 19. ágúst 2003 í Árnesi kl. 10:30. 
Fundinn sátu hreppsnefndarmennirnir Aðalsteinn Guðmundsson, Hrafnhildur Ágústsdóttir, Gunnar Örn Marteinsson, Þrándur Ingvarsson, Ólafur F. Leifsson, Matthildur Vilhjálmsdóttir og Tryggvi Steinarsson í forföllum Más Haraldssonar.  Einnig Ingunn Guðmundsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Dagskrá:
Norðlingaölduveita – afstaða hreppsnefndar.  Fyrir lá afrit af erindi Landsvirkjunar til umhverfisráðherra með umsókn um virkjunarleyfi og erindi frá Landsvirkjun til forsætisráðherra og samvinnunefndar miðhálendis um sama mál öll dagsett 7. ágúst 2003.  Einnig greinargerð frá Landsvirkjun um tilhögun Norðlingaölduveitu dagsett í Ágúst 2003.  Þá var lagt fram erindi frá Landsvirkjun dagsett 13. ágúst 2003 varðandi Norðlingaöldu þ.e. bréf Landverndar um framkvæmdir í Þjórsárverum dags. 5. ágúst 2003.
Til máls tók Hrafnhildur Ágústsdóttir og sagði frá samráðsfundum með fulltrúum Landsvirkjunar, Umhverfisstofnunar og sveitarfélaganna. Þá lagði hún fram tillögu og greinargerð í nafni meirihluta hreppsnefndar.
Tillaga:
,,Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur tekið til umfjöllunar erindi Landsvirkjunar varðandi gerð Norðlingaölduveitu, dagsett 23.06 2003. Hreppsnefnd fellst á að farið verði eftir tillögu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen sem kynnt var, ásamt úrskurði setts umhverfisráðherra, þann 30. janúar síðast liðinn, þ.e. að lónhæð verði 566 m y.s.  Hreppsnefnd hafnar alfarið lónhæð 568 m y.s  enda er um allt aðra framkvæmd að ræða en þá sem kynnt var í úrskurði m.t.t. umfangs og aurskolunar.
Að öðru leyti fellst hreppsnefnd á að veitan verði hönnuð og byggð samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar, en  endanlegt vatnsmagn sem hleypt yrði framhjá til að uppfylla skilyrði í úrskurði setts umhverfisráðherra verði ákveðið á grundvelli mælinga og vöktunar á næstu árum. Jafnframt fellst hreppsnefnd á að Litla-Arnarfellskvísl verði veitt í Þjórsárlón ef tryggt er að nægilegt framhjárennsli verði í farvegi hennar til að tryggja grunnvatnsstöðu innan friðlandsins.
Greinargerð:          
Afstaða hreppsnefndar til lónhæðar Norðlingaöldulóns í 566 m y.s. byggir m.a. á eftirtöldum atriðum:
1.      Óhætt er að fullyrða að sú sátt sem úrskurður setts umhverfisráðherra skapaði í þessu heita og viðkvæma deilumáli byggist á þeirri tillögu og stuðlar þannig að því að allir aðilar geti sætt sig við framkvæmdina og að verndun og nýting til orkuvinnslu fari saman. Í úrskurði umhverfisráðherra og forathugun VST er leitast við að uppfylla 3 skilyrði: Að framkvæmdin hafi engin langtímaáhrif inn í friðlandið, að hagkvæmni veitunnar sé viðunandi, o.þ.m.t. rekstraröryggi.
2.      Lónhæð í 566 m y.s. er forsenda þess að aurskolun sé raunhæfur kostur til að leysa vanda vegna aurburðar og setmyndunar.
3.      Rekstur lónsins við lægra vatnsborð að sumri en vetri skapar verulega hættu á þornun sets og jarðvegs og þar með auknar líkur á foki úr lónstæði.
4.      Mat á rekstraröryggi og arðsemi veitunnar virðist mismunandi en í tilhögun setts umhverfisráðherra er brugðist við þeim þáttum, annars vegar með færslu stíflu neðar í farveg Þjórsár og hins vegar með stækkuðu setlóni með veitu til Þjórsárlóns.
Vegna nálægðar lóns í 568 m y.s við friðlandsmörk má ætla að framkvæmdin hafi áhrif inn í friðlandið áður en langt um líður, t.d. vegna flóða og myndunar aurkeilu við innrennsli.”
Þrándur Ingvarsson tók til máls og mælti fyrir að samþykkt yrði lónhæð 568mys.  Hann lagði fram eftirfarandi tillögu frá fulltrúum minnihluta hreppsnefndar:
,,Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps fellst á lón í 568m.y.s. með þeim skilyrðum að fylgst verði með hugsanlegu foki úr lónstæði.  Varðandi framhjárennsli úr setlóni til að halda við grunnvatnsstöðu innan friðlands samþykkir hreppsnefnd niðurstöðu nefndar sem skipuð var fulltrúum umhverfisstofnunar, Landsvirkjunar, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, oddvita Ásahrepps. Hreppsnefnd áskilur sér rétt til frekari viðræðna við framkvæmdar og umsagnaraðila um útfærslu á veituframkvæmdum og vísar til úrskurðar ráðherra í því sambandi.  Hreppsnefnd mun fyrir sitt leyti stuðla að því að framkvæmdir geti gengið sem greiðast fyrir sig. “
Til vara lagði hann til að ákvörðun yrði frestað til hreppsnefndarfundar 2. september n.k.
Til máls tóku Gunnar Örn Marteinsson, Ingunn Guðmundsdóttir, Tryggvi Steinarsson.
Oddviti bar upp tillögu meirihluta og var hún samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír fulltrúar minnihluta voru á móti.  Þá var borin upp tillaga minnihluta og var hún felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fundargerðir til staðfestingar.
a)      Hreppsráðs frá 27. júlí
b)      Bygginganefndar uppsveita Árnessýslu frá 22. júlí
c)      Skólanefndar frá 28. júl
Umræður og afgreiðslur.  Tryggvi Steinarsson tók til máls varðandi lið2a í fundargerð hreppsráðs.  Ingunn um sama mál.  Gunnar Örn Marteinsson ræddi sama mál og væntanlegar viðræður um endurnýjun á leigusamningi vegna gisti og veitingaaðstöðu.  Ingunn ræddi samninginn.
Oddviti lagði til að settur yrði á fót starfshópur til að fara yfir málefni leikskóla, skipaður leikskólastjórum, formanni skólanefndar, sveitarstjóra fulltrúa foreldra og oddvita.  Samþykkt.
Þrándur bað um útskýringar vegna liðar 14. í fundargerð hreppsráðs, breytingar á fjárhagsáætlun,  Ingunn svaraði.
Tryggvi ræddi fundargerð skólanefndar lið 3 málefni skólavistunar.  Matthildur ræddi sama mál.
Fundargerðirnar staðfestar með fram komnum athugasemdum.
Aðrar fundargerðir
a)      Stjórnar Brunavarna Árnessýslu frá 24. júní
b)      Almannavarnarnefndar Árborgar og nágrennis frá 9. júlí
Fundargerðirnar lagðar fram.
Tillaga að þriggja ára áætlun Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sveitarstjóri kynnti tillöguna.  Þrándur ræddi áætlunina.  Áætlunin borin upp og samþykkt með fjórum atkvæðum.  Þrír fulltrúar minnihluta sátu hjá.
Vináttusamningur við sveitarfélagið Vestvaagoy í Lofoten í Noregi lagður fram til staðfestingar.  Sveitarstjóri greindi frá fundum með Per Kaare Holdal sem er fulltrúi áhugafólks í Vestvaagoy um samskiptin og hefur unnið að undirbúningi samningsins í samráði við sveitarstjórn þar.  Samningurinn staðfestur og samþykkt að hann verði undirritaður á báðum tungumálum.  Samþykkt að fela hreppsráði að skipa fimm manna vinabæjarnefnd.
Erindi frá heilbrigðis og tryggingamálaráðuneyti dags. 15. júlí þar sem óskað er afstöðu hreppsnefndar til sameiningar heilbrigðisstofnana á Suðurlandi. Ingunn tók til máls.  Hrafnhildur tók til máls og taldi að gæta þyrfti að því að þjónusta heilsugæslunnar í Laugarási yrði ekki skert.  Samþykkt að fela hreppsráði að svara erindinu.
Erindi frá skipulagsstofnun dagsett 24. júlí varðandi breytingu á aðalskipulagi í Brautarholti.
Erindið lagt fram.
Umsókn frá Karli Knudsen um lóðina Suðurbraut 5 í iðnaðarhverfi sunnan þjóðvegar við Árnes.
Samþykkt að úthluta lóðinni til Karls.
Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 25. júlí varðandi fyrirkomulag og kostnaðarskiptingu tónlistarkennslu.
Lagt fram til kynningar.
Önnur mál.
a)      Samþykkt að fela Árna Ísleifssyni að vera fjallkóngur 2003.  Honum falið ásamt oddvita að jafna niður í leitir.
b)      Samþykkt að fela Aðalsteini Guðmundssyni að sitja fund afréttamálafélags Flóa og Skeiða.
c)      Samþykkt að fela Guðfinni Jakobssyni að sitja aðalfund Vottunarstofunnar Túns ehf.
d)      Samþykkt að fela hreppsráði að setja reglur um tímamörk á framkvæmdir á úthlutuðum byggingarlóðum.  Reglurnar gildi í þeim samningum sem eftir er að gera um lóðarleigu.
e)      Tryggvi ræddi tómstundamál barna og ungmenna.
f)        Ólafur spurði um stöðu mála varðandi kaup á sumarbústað í Brautarholti, birtingu fundargerða og fundatilhögun hreppsnefndar, lýsti hann ánægju sinni með að hafa formlegt skipulag á fundum.
g)      Hrafnhildur vakti máls á ástandi afréttargirðingar.
h)      Gunnar Örn ræddi tómstundamál barna og ungmenna, birtingu fundargerða og afréttargirðingar.
i)        Samþykkt að fela sveitarstjóra að ræða við Landsvirkjun um girðingarmál.
 
Fundi slitið 13:10