8. desember jól í Danmörku og á Íslandi

Svolítið danskt jólatré - með alvöru kertum
Svolítið danskt jólatré - með alvöru kertum

Ég á mjög góðar minningar frá jólunum þegar ég var barn. Fyrir hádegi á aðfangadag fór pabbi minn með okkur systkinin að leggja blóm á leiðin hjá formæðrum og forfeðrum okkar. Eftir hádegi var farið í kirkju og síðan heim að drekka te og borða smákökur. Amma og afi voru alltaf hjá okkur, mamma mín var mjög dugleg að passa uppá ömmu og afa og hafa þau alltaf hjá okkur á jólunum. Þess vegna var alltaf fjölmennt hjá okkur á aðfangadagskvöld. Í kvöldmat var grjónagrautur með möndlu og möndlugjöf í forrétt og síðan oftast bæði pörusteik og villibráð í aðalrétt. Við dönsuðum öll saman í kringum jólatréð og sungum mikið. Síðan skiptumst við á gjöfum. Heima hjá okkur var alltaf keypt stórt jólatré og það skreytt með fléttuðum hjörtum, heimatilbúnu skrauti og alvöru kertum. Á aðfangadagskvöld voru kertin tendruð og öll önnur ljós slökkt á meðan við dönsuðum kringum tréð. Ég man hvað mér fannst það jólalegt og fallegt. Alla tíð síðan hef ég haldið í þann sið að setja kerti á jólatréð, mér finnst það mjög hátíðlegt.

Á jóladag vorum við heima í rólegheitum, það var alltaf mjög notalegur dagur. Við krakkarnir fengum að vera í náttfötunum allan daginn og nutum þess að skoða gjafirnar og lesa nýju bækurnar sem við höfðum fengið. Það var ekki fyrr en ég var orðin fullorðin að ég áttaði mig á því hvaða siðir komu frá pabba fjölskyldu og hverjir úr móðurætt. Foreldrar mínir höfðu gott lag á að skapa góðar minningar saman, halda í gamla siði og búa til nýjar hefðir.

Þegar ég kom til Íslands og byrjaði að halda jól hér voru siðirnir sem Siggi var alinn upp við ekki svo frábrugðnir þeim sem ég þekkti úr minni barnæsku. Fyrstu mörg árin borðuðum við lambalæri á aðfangadagskvöld en í seinni tíð höfum við verið með villibráð. Á Hæli var alltaf sungið mikið og dansað í kringum jólatréð alveg eins og ég ólst upp við. Helsti munurinn er sá að við förum ekki í kirkju á aðfangadag en í staðinn lesum við húslestur og syngjum jólasálma heima.

Á jóladag borðum við alltaf hangikjöt, sem Óli í Geldingaholti reykir fyrir okkur, með heimalöguðu rauðkáli og uppstúf. Í Danmörku var ég vön að fá bara grjónagraut á jólunum en á Hæli var grjónagrautur í hádeginu á hverjum laugardegi. Það tók svolítið jólastemninguna af grautnum frá mér. Núorðið erum við með möndlugraut í hádeginu á aðfangadag og þá er nauðsynlegt að gleyma ekki að fara með stóra skál af graut með miklum kanilsykri og smjöri upp á háaloft fyrir litlu jólasveinana sem best er að hafa góða.

Jólakveðjur frá Bolette á Hæli 1