Sveitarstjórn

42. fundur 10. júní 2020 kl. 12:10
Nefndarmenn
  • Anna Sigríður Valdimarsdóttir
  • Björgvin Skafti Bjarnason
  • Einar Bjarnason
  • Ingvar Hjálmarsson
  • Matthías Bjarnason
Starfsmenn
  • Auk þess sat Kristófer A. Tómasson sveitarstjóri fundinn og ritaði hann fundargerð. Oddviti stjórnaði fundi

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera
Sveitarstjóri óskaði eftir að tveimur málum yrði bætt á dagskrá. 14.Beiðni sveitarstjóra um leyfi frá störfum. 16. Tillögur til hagræðingar. Oddviti bætti við einu máli. 15.Ráðning starfsmanns tímabundið. Samþykkt samhljóða að bæta þeim málum við dagskrána

Fundargerð nr. 42   -  10. júní 2020

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

  1. Ársreikningur 2019 síðari umræða.

Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2019. Samhliða lögð fram sundurliðunarbók.

Helstu niðurstöður ársreikningsins eru eftirfarandi:

Rekstarniðurstaða samstæðu A og B hluta sveitarsjóðs er neikvæð um 36,5 mkr. Afkoman er mun lakari en síðustu ár.

Sveitarstjóri fór yfir helstu stærðir ársreikningsins.

Rekstrarreikningur: Heildartekjur A og B hluta námu 712,2 milljónum króna. Þar af námu skatttekjur 607,5 mkr. Útgjöld fyrir afskriftir og fjármagnslið námu 710.482 mkr. Þar af eru laun og launatengd gjöld 296 mkr. Rekstarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (framlegð) jákvæð um 1,8 mkr. Fyrir A hluta neikvæð um 14,6 mkr. Afskriftir námu 29,3 mkr og fjármagnsliðir voru neikvæðir um 8,5 mkr mkr.Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir samstæðu metnar á samtals 1,056 mkr. Fastafjármunir 939,8 mkr. Veltufjármunir 117,1 mkr. Langtímaskuldir námu 172,6 mkr. Eigið fé nam 796,6 mkr. Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 89,6 mkr.Eiginfjárhlutfall nam 71,3 % í lok árs. Skuldahlutfall var 43,9 % Skuldaviðmið 20,2 %. Veltufé til rekstrar 1,5%. Eigið fé á íbúa  1.233 þkr. Skuldir á íbúa 497 þkr. Skatttekjur á íbúa 995 þkr. Fjöldi stöðugilda 31.

Sveitarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:

Það eru mér mikil vonbrigði að rekstrarniðurstaða Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2019 skuli vera svo slæm sem raun ber vitni. Eins ég hef nefnt að hér eru ýmsar ástæður þess valdandi, samdráttur í sumum tekjuliðum er verulegur. Aukning í útgjöldum er í sumum liðum langt um fram það sem ætlað var. Sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins kann vel að vera að ég hefði mátt haga mínum störfum við fjármál sveitarfélagsins á síðasta ári í einhverjum tilfellum með öðrum hætti svo betri rekstarniðurstaða hefði hlotist af. Sé rekstrarniðurstaða þeirra átta ára sem ég hef gegnt starfi sveitarstjóra borin saman við niðurstöðu síðasta árs, þá er ljóst að hún sker sig úr með afgerandi hætti. Ég legg áherslu á að öll mín störf fyrir sveitarfélagið hafa verið unnin af fullum heilindum þann tíma sem ég hef starfað hjá sveitarfélaginu. Ég leyfi mér að fullyrða að það sama eigi við um aðra starfsmenn sveitarfélagsins. Erfitt er að spá fyrir um rekstrarniðurstöðu ársins 2020. En ekki er ólíklegt í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu að hún verði ekki eins og best er á kosið. Það er full þörf á að grípa til hagræðingar í rekstri sem fyrst til að ná niður rekstrarkostnaði. 

Anna Sigríður Valdimarsdóttir og Ingvar Hjálmarsson lögðu fram bókun frá minnihluta  sveitarstjórnar vegna samþykkta á ársreikningi 2019

Ljóst er að umtalsverð frávik eru frá fjárheimildum sveitarfélagsins fyrir árið 2019, miðað við fjárhagsáætlun ársins með viðaukum. 

Upplýsingagjöf til sveitarstjórnar fyrir árið var verulega ábótavant og fyrir vikið einnig brestir í  gerð viðauka hvort heldur fyrir frávik í rekstrartekjum eða gjöldum sveitarfélagsins, líkt og sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir.

Undirrituð lýsa þungum áhyggjum yfir rekstrarniðurstöðu ársins 2019 sem og þeim trúnaðarbresti sem milli sveitarstjórnar og framkvæmdastjórnar sveitarfélagsins, þ.e. sveitarstjóra og starfandi oddvita sem kemur fram í þeim brotalömum sem í ársreikningi þessum birtast. Sveitarstjórn mun þurfa bregaðst við neikvæðri rekstrarniðurstöðu með þungum en óhjákvæmilegum aðgerðum. 

Framangreint sem og ársreikningur 2019 sjálfur undirstrika mikilvægi raunsærrar og vandaðrar fjárhagsáætlunargerðar og reglulegrar eftirfylgni. Undirrituð telja að auki brýnt að bregðast við ábendingum endurskoðenda varðandi veikleika í innra eftirliti.

Skafti Bjarnason, Einar Bjarnason og Matthías Bjarnason lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Ljóst er að afkoma sveitarfélagsins fyrir árið 2019 veldur miklum vonbrigðum og ljóst að töluverðs aðhalds í rekstri er þörf í náinni framtíð. Sveiflan frá síðasta ári er um 150 milljónir en það ár var að mörgu leyti frávik sérstaklega hvað varðar tekjuhliðina. En líka hefur útgjaldahliðin vaxið langt umfram væntingar og fjárhagsáætlun á mörgum sviðum og þarf að bæta umtalsvert vinnu við áætlanagerð og endurskoðun á henni með reglulegum hætti og  þar með upplýsingagjöf til sveitarstjórnar og þeirra sem hún varðar.“

Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir árið 2019 samþykktur með 5 atkvæðum.

Endurskoðunarskýrsla ársins 2019 einnig lögð fram og var hún samþykkt með 5 atkvæðum.

Sveitarstjóri lagði einnig fram ársreikning Hitaveitu Brautarholts fyrir árið 2019. Tekjur námu 3,1 mkr útgjöld 1,6 mkr. Hagnaður eftir skatta 943 þkr

Eignir samtals 14,6 mkr.

Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts 2019 samþykktur með 5 atkvæðum.

  1. Útboð vikurnámur  Alefli  ehf  við Búrfell frestur til 15.06.2020

Lögð fram gögn vegna útboðs í vikurnám við Búrfell. Gögnin unnin af Ríkiskaupum. Afgreiðslu frestað.

3. Minjastofnun bréf  um Stöng skipulag. Lagt fram bréf frá Minjastofnun varðandi framkvæmdir á Stöng undirritað af Kristínu Huld Sigurðardóttur. Bréf lagt fram og kynnt.

4. Aðalfundarboð Lánsj.  þann 12.júní 2020. Fundarboð lagt fram.

5. Upp í sveit 2020. Dagskrá byggðahátíðarinnar ,,Upp í sveit“ lögð fram og kynnt. Hátíðin verður haldin 12- 14 júní næstkomandi. Menningar- og æskulýðsnefnd annast hátíðina.

6. 196. fundur Skipulagsnefndar. 27 maí 2020. Mál nr 26-31 þarfnast afgreiðslu

26. mál.  Klettar (L166589); umsókn um byggingarleyfi; geymsla mhl 07 - breyting á notkun - 1501091

Erindið sett að nýju fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa og óskað eftir endurnýjun á byggingarleyfi sem var samþykkt 23.07.2015. Sigrún Margrét Einarsdóttir sækir um byggingarleyfi til að breyta notkun á geymslu mhl 07 í yoga- og gistiaðstöðu á jörðinni Klettar (L166589) í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja endurnýjun byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur þörf á að grenndarkynna málið að nýju þar sem að eigendaskipti hafa átt sér stað á aðliggjandi lóð svæðisins.

Sveitarstjórn samþykkir endurnýjun byggingaleyfisins að undangenginni grenndarkynningu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010         

27. mál. Skáldabúðir L166594; Hrútmúlavirkjun; Vindorka; Aðalskipulagsbreyting - 2004012

Lögð er fram skipulagslýsing unnin af EFLU verkfræðistofu vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða-og Gnúpverjahrepps. Í breytingunni felst skilgreiningar á mögulegum vindorku virkjanakosti í landi Skáldabúða undir heitinu Hrútmúlavirkjun. Framlögð skipulagslýsing tekur til breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029, deiliskipulagi fyrir svæðið auk matslýsingu til samráðs um umfang og nákvæmni upplýsingar í umhverfisskýrslu.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að skipulagslýsingu verði samþykkt til kynningar á grundvelli 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leitað skal umsagnar hjá Skipulagsstofnun og helstu umsagnaraðilum samhliða kynningu fyrir almenningi.

Sveitarstjórn samþykkir skipulagslýsingu vegna ofangreinds mál tilkynningar á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010. Leitað verður umsagnar hjá tilheyrandi umsagnaraðilum.

28. mál. Flatir Réttarholt; Stækkun frístundasvæðis F27; Deiliskipulagsbreyting - 2005080

Lögð er fram umsókn dags.20.05.2020 frá Skeiða-og Gnúpverjahrepp er varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundasvæði F27 á Flötum í landi Réttarholts. Í breytingunni felst stækkun skipulagssvæðis og fjölgun lóða á svæðinu. Leiksvæði og boltavöllur eru felld út og í stað þess er bætt við opnu svæði og gönguleið á milli lóða 31 og 32. Lóð nr. 17 er tekin út fyrir deiliskipulagsmörki þar sem hún fellur ekki lengur undir frístundabyggð samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Skilmálar skipulagsins eru uppfærðir í heild sinni eftir breytingu þar sem m.a. er skilgreint nýtingarhlutfall lóða, kvaðir og byggingarheimildir.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að breyting á deiliskipulagi svæðisins verði samþykkt. Tillagan fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkir breytingu á deiliskipulagi ofangreinds svæðis. Samþykkt jafnframt að tillagan fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

29. mál. Stóra Hof L208877 og L203207; Markagilsflöt og Brúnir; Deiliskipulag - 1903002

Lagt er fram til afgreiðslu eftir auglýsingu deiliskipulag fyrir Stór Hof. Umsagnir og athugasemdir bárust frá Vegagerðinni og Minjastofnun sem hefur verið brugðist við innan deiliskipulags. Óverulegar breytingar eru gerðar á gögnum eftir auglýsingu þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsi á lóð merkt Brúnir 2 en Markagilsflöt 2 verði verslun og þjónusta.

Skipulagsnefnd UTU mælist til þess að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykki skipulagið eftir auglýsingu og að það taki gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda, eftir yfirferð Skipulagsstofnunnar, og með fyrirvara um að orðalag innan greinargerðar skipulagsins verði uppfært til samræmis við skilmála aðalskipulags. Frístundahús innan verslunar- og þjónustureita verði gestahús.

Sveitarstjórn samþykkir ofangreint skipulag eftir auglýsingu og að það taki gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda, eftir yfirferð Skipulagsstofnunar, og með fyrirvara um að orðalag innan greinargerðar skipulagsins verði uppfært til samræmis við skilmála aðalskipulags. Frístundahús innan verslunar- og þjónustureita verði gestahús.

30. mál. Löngudælaholt 20 L194604 og Löngudælaholt 21 L166670; Sameining lóða - 2005088

Lögð er fram umsókn Kristófers A. Tómassonar f.h. sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 29. apríl 2020, um sameiningu tveggja lóða við Kálfá. Óskað er eftir að sameina Löngudælaholt 20 L194604 og 21 L166670 í eina lóð í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar á fundi sem haldinn var 19. september 2018. Báðar lóðirnar eru skráðar 5.000 fm í fasteignaskrá. Inn á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar liggur fyrir samþykkt deiliskipulag frá 1995. Rökstuðningur fyrir sameiningunni er að önnur lóðin er óbyggileg.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við sameiningu lóðanna byggt á þeim forsendum að önnur lóðin sé óbyggileg. Forsenda fyrir sameiningu lóðanna er að gerð verði breyting á deiliskipulagi og að byggingarreitur nái ekki yfir óbyggilegt svæði. Nefndin mælist til þess að farið verði í heildar endurskoðun á deiliskipulagi svæðisins.

Sveitarstjórn samþykkir  sameiningu lóðanna byggt á þeim forsendum að önnur lóðin sé óbyggileg. Forsenda fyrir sameiningu lóðanna er að gerð verði breyting á deiliskipulagi og að byggingarreitur nái ekki yfir óbyggilegt svæði. Sveitarstjórn samþykkir að gert verið heildarskipulag um svæðið

 

31. mál. Minna-Hof L166581 og Réttarholt L166586; Búðafossvegur; Stofnun vegsvæða - 2005087

Lögð er fram umsókn Landsvirkjunar um stofnun tveggja vegsvæða vegna lagningu Búðafossvegar (23). Málið var áður tekið fyrir hjá skipulagsnefnd þ. 23. apríl 2012 sem gerði ekki athugasemd við stofnun vegsvæðanna en var frestað hjá sveitarstjórn á sínum tíma. Málið var tekið fyrir aftur á fundi sveitarstjórnar þ. 5. febrúar sl. og vísað að nýju til skipulagsnefndar þar sem langt er um liðið síðan málið var til umfjöllunar. Búðafossvegur er, skv. aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029, nýr tengivegur sem lagður verður frá Þjórsárdalsvegi (32) við Árnes til suðurs um nýja brú yfir Þjórsá. Annars vegar er óskað eftir að stofna 5,7 ha, Árnes vegsvæði, út úr jörðinni Réttarholt L166586 og hins vegar 3,15 ha, Minna-Hof vegsvæði, út úr jörðinni Minna-Hof L166581. Árnes vegsvæði er innan deiliskipulags fyrir Réttarholt og Árnes.

Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun vegsvæðanna skv. fyrirliggjandi umsókn og mælist til þess við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja erindið með fyrirvara um lagfæringu gagna í samráði við skipulagsfulltrúa.

Sveitarstjórn samþykkir stofnun vegsvæðanna skv. fyrirliggjandi umsókn

7. 11. fundur Menn og æsk. 21.02.2020. Fundargerð lögð fram og staðfest.

8. Samingur um Skeiðalaug sumar haust 2020. Lögð fram drög að samningi við Eyþór Brynjólfsson um rekstur Skeiðalaugar frá júní – september 2020. Samningur samþykktur samhljóða

9. Samningur um fréttabréf Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Lögð fram drög að samningi milli Amenic ehf og sveitarfélagsins um útgáfu fréttabréfs fyrir sveitarfélagsins. Samningurinn gildi til ársloka. Matthías Bjarnason vék af fundi undir þessum lið.  Samningur samþykktur með fjórum atkvæðum og sveitarstjóra falið að skrifa undir fyrir hönd sveitarfélagsins.

10. 41. fundur Skóla og velferðarnefndar Árnesþings. Fundargerð lögð fram og kynnt.

11. Úthlutun úr styrktarsjóði EBÍ 2020. Skeiða- og Gnúpverjahreppi var úthlutað 220.000 kr til verkefnisins ,,Birkiskógar við Búrfell“

12. Ársreikningur 2019 Reiðhöllin á Flúðum ehf. Lagt fram og kynnt.

13. Aðalfundarboð Veiðifélags þjórsár. Lagt fram og kynnt.

14. Beiðni sveitarstjóra um leyfi frá störfum. Sveitarstjóri kvaddi sér hljóðs og tilkynnti eftirfarandi. Að undanförnu hefur heilsufar mitt ekki verið eins og best verður á kosið. Af þeim ástæðum hefur mér verið ráðlagt að taka mér frí frá störfum um sinn. Því er ekki að leyna að slæm niðurstaða ársreiknings sveitarfélagsins á síðasta ári hefur einnig áhrif á að ég hyggst stíga til hliðar um sinn. Uppsafnaður orlofsréttur minn er mikill. Ég mun nýta mér hann, auk þess geri ég ráð fyrir að nýta veikindarétt minn að hluta. Ég óska eftir að mér verði veitt leyfi frá störfum frá 3. júlí til 1. október næstkomandi.

Kristófer Tómasson sveitarstjóri.

Ofangreind beiðni sveitarstjóra samþykkt samhljóða.

15. Ráðning staðgengils sveitarstjóra tímabundið. Oddviti lagði fram tillögu þess efnis að Bjarni Hlynur Ásbjörnsson í Hraunbrún gegni starfi sveitarstjóra meðan Kristófer Tómasson verður í leyfi á ofangreindu tímabili. Tillaga samþykkt með þremur atkvæðum

Ingvar Hjálmarsson og Anna Sigríður Valdimarsdóttir lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Nú liggur fyrir að sveitarstjóri hefur óskað eftir að taka sér leyfi til 1.október næstkomandi. Í ljósi þessa leggjum við til að oddviti gegni störfum sveitarstjóra þann tíma. Nú liggur það 

fyrir að skera þarf niður á öllum vígstöðum sveitarfélagsins til að snúa rekstrinum til betri 

vegar. Finnst okkur óábyrgt að ráða í stöðu sveitarstjóra tímabundið án þess að það fari í 

gegnum faglegt umsóknarferli og mun það auka verulega kostnað sveitarsjóðs. 

16. Tillögur til hagræðingar.

Sveitarstjóri hefur að undanförnu unnið að tillögum til hagræðingar í rekstri sveitarfélagins og lagði fram hugmyndir þess efnis. Sveitarstjóra falið að vinna hugmyndirnar ítarlegar og leggja þær fram til afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnar.

Fundi slitið kl. 18:20.    Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn  miðvikudaginn 1. júlí.  kl 16.00. í Árnesi.

Gögn og fylgiskjöl: