Sveitarstjórn

45. fundur 05. júní 2024 kl. 09:00 - 13:00 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Axel Á. Njarðvík
  • Gunnar Örn Marteinsson
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Árnesi, 5. júní 2024

Raðnúmer fundar í WorkPoint skjalakerfi F202405-0022

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera.

Óskaði oddviti eftir að fá að setja inn erindi um umsagnarbeiðni við veitingu tækisfærisleyfis vegna sveitahátíðarinnar Upp í sveit. Var það samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum og verður það mál nr. 17 á dagskrá.

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla sveitarstjóra á 45. sveitarstjórnarfundi

Fundur vegna fyrirhugaðra breytinga í Þjórsárskóla.
Auglýsing eftir leikskólastjóra.
Fundur með Landnýtingu.
Fundur með Límtré Vírnet.
Fundur með staðarhaldara í Árnesi.
Heimsókn í Skaftholt.
Rútuslys hjá Lionsklúbbnum Dynk.
Þjórsárdalurinn, umsjón og gjaldtaka.
SASS aukaaðalfundur í Vestmannaeyjum.
Nefndir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

2. Rekstrarskýrsla jan- aprí 2024

​Lögð fram rekstrarskýrsla fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins. Útsvarstekjur hækka um 19,9%, tekjur af fasteignaskatti hækka um 9,8% og framlög frá jöfnunarsjóði hækka um 28% miðað við sama tímabil árið 2023. Stærsti hluti rekstrarkostnaðar fyrstu fjóra mánuði ársins fer í fræðslu og uppeldismál eða 52,19% af skatttekjum.

Heilt yfir lítur árið ágætlega út, flestar deildir eru enn innan áætlunar. Íbúar í sveitarfélaginu um mánðarmótin maí/júní voru samtals 620 talsins og hefur þeim fjölgað um 4,9% frá 1. janúar sl. en þá voru þeir 591 talsins.

Framundan er mikil uppbygging innviða og því er mjög mikilvægt nú sem áður að vera með stöðugt rýni á reksturinn, gæta ráðdeildar og sýna ábyrgð í rekstri.

 

3. Fjárhagsáætlun 2024- Viðauki I

​Lagður fram til samþykktar viðauki I við fjárhagsáætlun 2024. Áhrif hans eru jákvæð um 13,4 milljónir. Tekið hefur verið tillit til aukinna tekna vegna fasteignaskatta og lóðaleigu, tekna af svokölluðu lóðagjaldi og tekna af námuréttindum sem voru umfram áætlanir. Gert er ráð fyrir kostnaði vegna skipulagsbreytinga, kaupa á innanstokksmunum í félagsmiðstöð í Þjórsárskóla, auknu framlagi til Tónlistarskóla Árnesinga vegna kjarasamningshækkana og auknum kostnaði vegna stofnunar lóða í kringum skálana á afrétti.

Fjárfestingaráætlun var endurskoðuð, m.t.t. breytinga á framkvæmdaáætlun í Þjórsárskóla, Leikholti, Neslaug, Skeiðalaug, á Gámasvæði og í Þjórsárdal. Var fjárfestingaráætlun lækkuð um 170 millj kr. og áætluð ný lántaka á árinu endurskoðuð m.t.t. þessara breytinga og lækkuð um 100 millj kr. Áhrif breyttrar fjárfestingaráætlunar og lægri lántöku á rekstur er um 3,9 millj kr. en fjármagnskostnaður lækkar um 3,5 millj kr. og afskrifir um 0,4 millj. kr.

Áhrif viðaukans á rekstur eru jákvæð um alls um 13,4 millj. kr. Hagnaður af samstæðu í árslok 2024 er áætlaður m.v. fjárhagsáætlun með viðaukum samtals 19,1 mill kr.

Áhrif viðaukans á sjóðstreymi er hækkun á handbæru fé m.v. fyrri fjárhagsáætlun um 79,5 milljónir kr. Samtals handbært fé í árslok er því áætlað 129 milljónir kr.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðauka I við fjárhagsáætlun 2024 og felur sveitarstjóra að skila honum inn til viðkomandi aðila.

 

 

4. Skipurit og verkaskipting á skrifstofu Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Lagt fram fyrir sveitarstjórn áður samþykkt skipurit fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp ásamt verkaskiptingu allra starfsmanna á skrifstofu sveitarfélagsins sem hefur verið staðfest af endurskoðenda sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum verkaskiptingu allra starfsmanna á skrifstofu sveitarfélagsins.

 

5. Ráðningarsamningur oddvita

​Haraldur Þór Jónsson vék af fundi við afgreiðslu málsins. Var samþykkt með fjórum atkvæðum að Bjarni H. Ásbjörnsson tæki við við fundarstjórn. Lagður fram nýr ráðningarsamningur við Harald Þór Jónsson, oddvita, með breyttri starfslýsingu þar sem starfshlutfall og laun haldast óbreytt frá fyrri ráðningarsamningi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fjórum atkvæðum ráðningarsamning oddvita og er Bjarna H. Ásbjörnssyni falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarstjórnar.

 Haraldur Þór Jónsson kom aftur inn á fund.

6. Ráðningarsamningur sveitarstjóra

​Sylvía Karen Heimisdóttir vék af fundi.

Lagður fram ráðningarsamningur við sveitarstjóra, Sylvíu Karen Heimisdóttir ásamt starfslýsingu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum ráðningarsamning sveitarstjóra, Sylvíu Karen Heimisdóttur og er oddvita falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarstjórnar.

 

Sylvía Karen Heimisdóttir kom aftur inn á fund.

7. Samningur um skólagöngu nemenda frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi í Flúðaskóla

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tók ákvörðun á fundi 18. október 2023 að framvegis verði ekki fleiri árgangar sendir í Flúðaskóla, en þeir nemendur sem stunda núna nám í Flúðaskóla klári skólagöngu sína þar. Haustið 2024 munu árgangar í 1.-8. bekk vera í Þjórsárskóla, haustið 2025 verði árgangar 1.-9. bekk í Þjórsárskóla og frá og með haustinu 2026 verði Þjórsárskóli orðinn heildstæður grunnskóli með árganga frá 1.-10. bekk.

Þann 5. desember 2023 sendi sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps erindi til sveitarstjórnar Hrunamannahrepps og óskaði eftir að breytingar yrðu gerðar á núverandi samningi (dagsettur 9. nóvember 2004) milli sveitarfélaganna um skólagöngu nemenda Skeiða- og Gnúpverjahrepps á unglingastigi.

Þann 30. janúar 2024 funduðu sveitarstjórnir Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Hrunamannahrepps um málið og mögulegar lausnir ræddar um fyrirhugaðar breytingar.

Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps þann 1. febrúar hafnaði sveitarstjórn Hrunamannahrepps ósk sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps á breytingum á núgildandi samningi og túlkaði ósk sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frekar sem uppsögn á núgildandi samningi enda ljóst að samstarfi sveitarfélaganna um skólagöngu barna úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi í Flúðaskóla er að ljúka. Þar sem það liggur fyrir að ekki komi fleiri árgangar frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi í Flúðaskóla, samþykkti sveitarstjórn Hrunamannahrepps að fela sveitarstjóra að ganga til samninga við sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna þessa. Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að þeir árgangar sem þegar hafa hafið nám í Flúðaskóla geti klárað sína grunnskólagöngu þar á grundvelli gildandi samkomulags þrátt fyrir að fleiri árgangar komi ekki í skólann.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að segja upp núgildandi samningi um skólagöngu nemenda Skeiða- og Gnúpverjahrepps á unglingastigi (dagsettur 9. nóvember 2004) en felur sveitarstjóra fyrir hönd sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að ganga til samninga við sveitarstjóra Hrunamannahrepps um kostnaðarþátttöku Skeiða- og Gnúpverjahrepps í rekstri Flúðaskóla fyrir skólaárið 2024-2025 í samræmi við umræðu sveitarstjórnanna þann 30. janúar 2024 ásamt fyrirkomulagi kostnaðarþáttöku fyrir skólaárið 2025-2026.

 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps þakkar fyrir samstarf sveitarfélaganna í skólamálum síðustu 50 ár, og horfir til áframhaldandi góðs samstarfs á vettvangi skólamála í Uppsveitunum.

 

8. Umhverfis- og auðlindastefna Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Lögð fram til kynningar og umræðu fyrstu drög að Umhverfis- og auðlindastefnu Skeiða- og Gnúpverjahrepps

 

9. Frístundahúsa/íbúðarhúsabyggð í landi Húsatófta 1E

Lagt fram erindi frá Einari G. Harðarsyni um hvort heimild fáist til að vinna deiliskipulag í landi Húsatófta 1E fyrir frístundahús eða íbúðahús. Forsendan fyrir því að hægt væri að hefja vinnu við slíkt skipulag er að fyrirhugað framtíðar vegstæði fyrir Skeiða- og Hrunamannaveg samkvæmt núgildandi aðalskipulagi verði tekið út úr aðalskipulagi.

Í dag er búið að skipuleggja og hefja uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á öllu skilgreindu landi innan þéttbýlismarka Brautarholts nema þeim hluta sem hentar illa sökum jarðvegsaðstæðna. Þegar framtíðarlega Skeiða- og Hrunamannavegar var sett inn í aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps var hugsað til stækkunarmöguleika á byggðakjarnanum í Brautarholti. Núverandi vegstæði Skeiða- og Hrunamannavegar liggur á því landi sem jarðvegsaðstæður eru hentugastar til byggingar íbúðahúsnæðis ásamt því að tryggja samfellu í vexti byggðakjarnans í Brautarholti. Til að tryggja möguleg uppbyggingaráform til framtíðar telur sveitarstjórn því mikilvægt að halda inni í aðalskipulagi sveitarfélagsins, vegstæði fyrir Skeiða- og Hrunamannaveg eins og hann er skilgreindur í aðalskipulagi í dag. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita ekki heimild til að vinna deiliskipulag fyrir frístundabyggð/íbúðabyggð í landi Húsatófta 1E.

 

10. Boð um þátttöku í verkefninu „Snemmtæk íhlutun í leikskóla með áherslu á málþroska og læsi“

Lagt fram bréf frá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu þar sem boðin er þátttaka í verkefninu snemmtæk íhlutun í leikskóla með áherslu á málþroska og læsi. Í upphafi verkefnisins er skriflegur samningur gerður á milli sveitarfélagsins og MMS, en með því skuldbindur sveitarfélag sig til að styðja við þátttöku sinna leikskóla í verkefninu. Að öðru leyti er verkefnið sveitarfélaginu að kostnaðarlausu. Innleiðing verkefnisins er eitt skólaár, auk þess sem boðið er upp á eftirfylgni til tveggja ára.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur vel í boðið og vísar því til leikskólastjóra Leikholts.

 

11. ​Umsagnarbeiðni vegna Aðalskipulag Skagafjarðar, nr. 0613/2024

Lögð fram skipulags- og matslýsing á aðalskipulagi Skagafjarðar en óskað hefur verið eftir umsögn sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur engar athugasemdir við framlagða skipulags- og matslýsingu aðalskipulags Skagafjarðar.

 

12. Vikurnám við Búrfell - umsagnarbeiðni vegna breyttra áforma frá matsáætlun

Lögð fram beiðni um umsögn vegna breytingar á framkvæmdalýsingu frá kynnti matsáætlun vikurnáms við Búrfellshólma.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur engar athugasemdir um boðaðar breytingar og telur þær vera jákvæðar með tilliti til umhverfisáhrifa. Að öðru leyti vísar sveitarstjórn í fyrri umsögn um málið.

 

​13. Lántaka Brunavarna Árnessýslu

Í fjárhagsáætlun Brunavarna Árnessýslu fyrir árið 2024 var gert ráð fyrir lántöku að upphæð kr. 190.000.000.- vegna kaupa á nýjum dælubíl, byggingar á tækja- og búnaðargeymslu á Laugarvatni og fyrsta áfanga byggingar á Flúðum. Dælubíllinn er væntanlegur til landsins í júní og byggingarframkvæmdir á Laugarvatni eru komnar vel á veg og tími til kominn að sækja um lánið. Skeiða- og Gnúpverjahrepps ber einfalda ábyrgð vegna lántöku Brunavarna Árnessýslu hjá Lánasjóðnum í samræmi við 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga. Innbyrðis skiptist ábyrgðin þó í hlutfalli við eignarhlut eigenda BÁ. Eignarhlutur Skeiða- og Gnúpverjahrepps í lok árs 2023 er 5,69%.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Brunavarna Árnessýslu hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 190.000.000.-, í samræmi við skilmála láns til ársins 2039 eins og þeir verða á þeim tíma er lánið er tekið. Er ábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og er hún óskipt (in solidum) gagnvart kröfuhafa, en innbyrðis skiptist hún í hlutfalli við eignarhluti í Brunavörnum Árnessýslu. Skeiða- og Gnúpverjahreppur veitir lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til að fjármagna kaup á nýjum dælubíl, vegna byggingar á tækja- og búnaðargeymslu á Laugarvatni og vegna fyrsta áfanga byggingar á Flúðum, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Brunavarna Árnessýslu til að breyta ekki ákvæði samþykkta félagsins sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.

 

Fari svo að Skeiða- og Gnúpverjahreppur selji eignarhlut í Brunavörnum Árnessýslu til annarra opinberra aðila, skuldbindur Skeiða- og Gnúpverjahreppur sig til að sjá til þess að nýr eigandi taki á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.

Hlutdeild Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Brunavörnum Árnessýslu er 5,69% í lok árs 2023. Samþykki þetta er með fyrirvara um að öll sveitarfélög sem hlutdeild eiga í Brunavörnum Árnessýslu samþykki fyrir sitt leyti ábyrgð á láninu í samræmi við sinn eignarhlut.

Jafnframt er Sylvíu Karen Heimisdóttir, kt 290882-5679, sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Skeiða- og Gnúpverjahrepps veitingu ofangreindrar ábyrgðar með áritun á lánssamninginn.

 

14. Fundargerð skipulagsnefndar nr. 281

Gunnbjarnarholt (L166549); byggingarheimild; starfsmannahús - 2405056

Móttekin er umsókn þann 14.05.2024 um byggingarheimild fyrir 40 m2 starfsmannahúsi, mhl 08, á jörðinni Gunnbjarnarholt L166549 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Að mati sveitarstjórnar er framlögð staðsetning hússins samkvæmt afstöðumynd ekki fullnægjandi. Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjanda um staðsetningu hússins og framtíðarskipulag jarðarinnar.

 

Móar (L166584); byggingarleyfi; íbúðarhús - 2405058

Móttekin er umsókn þann 14.05.2024 um byggingarleyfi fyrir 190 m2 íbúðarhúsi á jörðinni Móar L166584 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

 

Ásólfsstaðir 2 L166539; Ásólfsstaðir 2A; Stofnun lóðar - 2405094

Lögð er fram umsókn ásamt merkjalýsingu er varðar nýja lóð úr landi Ásólfsstaða 2 L166539. Óskað er eftir að stofna 1.943 m2 lóð, Ásólfsstaði 2A, undir núverandi íbúðarhús.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við framlagða merkjalýsingu og samþykkir hana með fimm atkvæðum á grundvelli reglugerða um merki fasteigna nr. 160/2024 með fyrirvara um samþykki landeigenda viðkomandi merkja.

 

Kílhraunsvegur 1-56; Úr frístundabyggð í íbúðabyggð; Aðalskipulagsbreyting - 2311027

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps er varðar Kílhraunsveg 1-56. Í breytingunni felst að landnotkun svæðisins breytist úr frístundabyggð í íbúðarbyggð. Umsagnir bárust við kynningu málsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps frestar afgreiðslu á málinu.

 

Árnes; Þéttbýli; Landnotkunarflokkar; Aðalskipulagsbreyting - 2303052

 

Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar er varðar þéttbýlið í Árnesi eftir auglýsingu. Breytingin nær yfir vesturhluta þéttbýlisins í Árnesi, þann hluta sem er norðan við Þjórsárdalsveg. Á allra næstu árum sér sveitarfélagið fram á að mikil þörf verði fyrir íbúðarhúsnæði í Árnesi og snýst breytingin um að koma til móts við áætlaða þörf fyrir íbúðarhúsnæði samhliða uppbyggingu á þjónustu sem því fylgir. Þetta kallar á ný svæði fyrir íbúðarbyggð. Fjölgun íbúa kallar á meiri þjónustu og sveigjanleika í landnýtingu, því er hluti svæðisins gerður að miðsvæði með rúmum heimildum fyrir atvinnustarfsemi, þjónustu og íbúðir.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar. Sveitarstjórn óskar eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. ,

 

Réttarholt L166586; Sameining lóða og breytt aðkoma; Deiliskipulagsbreyting - 2405098

Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar sem tekur til lóðar Þjórsárskóla. Í breytingunni felst að lóð íþróttahúss, Skólabraut 2 (auðkennd E í upprunalegu deiliskipulagi), og lóð Þjórsárskóla, Skólabraut 4 (Gnúpverjaskóli L166525 samkvæmt fasteignaskrá), eru sameinaðar í eina lóð. Fyrir sameiningu voru lóðirnar samtals um 11.000 m² en lóðin verður 18.584 m² eftir sameiningu og stækkun til suðurs. Innan lóðarinnar er afmarkaður byggingareitur fyrir íþróttahús.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt næstu nágrönnum.

 

Þjóðveldisbær L178332; Afmörkun lóða og byggingarreitur þjónustuhúss; Deiliskipulag - 2403041

Lögð er fram tillaga deiliskipulags sem tekur til áningarstaðar fyrir ferðafólk við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal eftir auglýsingu. Markmiðið með gerð þessa deiliskipulags er að setja ramma utan um uppbyggingu svæðisins og setja skilmála um framtíðaruppbyggingu. Innan skipulagsins eru afmarkaðar tvær lóðir og byggingareitur fyrir þjónustuhús. Skipulagssvæðið er um 6,7 hektarar að stærð og er innan þess gert ráð fyrir nýrri aðkomu. Umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt uppfærðum gögnum og viðbrögðum málsaðila.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna og innan samantektar andsvara vinnsluaðila skipulagsins. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

15. Fundargerð 16. fundar Menningar- og æskulýðsnefndar

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

16. Fundargerð öldungaráðs Uppsveita og Flóa frá 15.5.2024

Fundargerð lögð fram til kynningar.

 

17. Tækifærisleyfi vegna sveitahátíðarinnar Upp í sveit.

Lögð fram umsagnarbeiðni vegna umsóknar um tækifærisleyfi fyrir sveitahátíðina Upp í sveit sem skipulögð er af Menningar- og æskulýðsnefnd og fram fer í sveitarfélaginu 14.-17. júní nk.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gerir ekki athugasemd við veitingu tækifærisleyfis vegna sveitahátíðarinnar Upp í sveit.

 

Fundi slitið kl. 12:50. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 19. júní, kl. 9.00, í Árnesi.