Sveitarstjórn

26. fundur 16. ágúst 2023 kl. 09:00 - 12:00 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Bjarni Hlynur Ásbjörnsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Karen Óskarsdóttir
  • Gunnar Örn Marteinsson
Starfsmenn
  • Hrönn Jónsdóttir
Fundargerð ritaði: Hrönn Jónsdóttir

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

1. Skýrsla sveitarstjóra á 26. sveitarstjórnarfundi

Sveitarstjóri fór yfir stöðu á eftirfarandi verkefnum sem unnið hefur verið að frá sveitarstjórnarfundi 2. ágúst:

Fundur með Landnýtingu ehf

Heimsókn Ástu Lóu Þórsdóttur, alþingismanni, Flokki fólksins

Fjallaböðin

Framkvæmdir í Leikholti

Framkvæmdir í Skeiðalaug

Framkvæmdir í Þjórsárskóla

Borað fyrir heitu vatni í Brautarholti

 

2. Fjárhagsáætlun 2023 – Viðauki III

Lagður fram viðauki III við fjárhagsáætlun 2023. Búið er að taka tillit til niðurstöðu ársins 2022 og er handbært fé bókað í samræmi við þá niðurstöðu. Við það hækkar handbært fé um 109 milljónir. Í viðauka III er gert ráð fyrir auknu starfshlutfalli (50%) á skrifstofu, auknu starfshlutfalli (100%) í áhaldahúsi og auki starfshlutfalli á gámasvæði. Að auki er gert ráð fyrir kostnaði v. aðstöðusköpunar við fjórar auka starfsstöðvar og tölvukaup. Heildar áhrif breytingarinnar er lækkun á handbæru fé um 6,4 milljónir kr. Rekstrarafgangur lækkar því sem nemur og er gert ráð fyrir að hann sé um 66 milljónir kr. í árslok.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum viðauka III við fjárhagsáætlun 2023 og felur fjármálastjóra að tilkynna hann til viðkomandi aðila.

 

3. Starfsmannamál

​Mikil uppbygging er framundan í sveitarfélaginu og fjölmörg verkefni. Byggja þarf undir sterkari stjórnsýslu og tryggja skilvirka verkferla í verkefnum sveitarfélagsins. Í byrjun árs var ráðið í tímabundna 50% stöðu á skrifstofu sveitarfélagsins. Sú viðbót hefur reynst vel en þörf er á að breyta starfinu í 100% starfshlutfall og ráða til framtíðar. Því til viðbótar er gert ráð fyrir nýju starfi í 100% starfshlutfalli í þjónustumiðstöð/áhaldahúsi. Lögð fram drög að auglýsingu fyrir 100% stöðugildi á skrifstofu sveitarfélagsins og 100% stöðugildi í þjónustumiðstöð/áhaldahúsi. Gert er ráð fyrir að nýir starfsmenn hefji störf í haust. Einnig lögð fram drög að starfslýsingum fyrir störfin.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að ráða í 100% starfshlutfall á skrifstofu sveitarfélagsins ásamt því að bæta við 100% stöðu í þjónustumiðstöð/áhaldahús. Sveitarstjóra falið að auglýsa störfin og ganga frá ráðningum.

 

4. Áskorun til Ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar, Landsnets og Rarik.

Orkuvinnsla á Íslandi á sér stað að megninu til á landsbyggðinni. Sú stefna sem rekin hefur verið í uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi að hafa höfuðstöðvar stærstu orkufyrirtækja landsins allar á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að engin orkuvinnsla eigi sér stað þar gengur ekki lengur. Landsvirkjun er stærsti framleiðandi rafmagns á Íslandi og í eigu ríkisins. Landsnet er með sérleyfi um flutning á öllu rafmagni á Íslandi og er í eigu ríkisins. Rarik sér um dreifingu á rafmagni á landsbyggðinni og er í eigu ríkisins. Verðmætasköpun og starfsemi þessara fyrirtækja á sér stað á landsbyggðinni en stór hluti starfanna eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu, þá sérstaklega verðmætustu störfin. Orkuskiptin eru framundan með tilheyrandi stækkun raforkukerfisins á Íslandi. Sú uppbygging mun fjölga störfum verulega og skapa jarðveg fyrir fjölmörg tækifæri og mikla nýsköpun tengt grænni orku.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega tekið fram að:

  • Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.
  • Stutt verði við starfsaðstöðu og klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni.
  • Stutt verði við þekkingarmiðstöðvar og rannsóknarsetur á landsbyggðinni.
  • Lögð verði áhersla á að stuðla að uppbyggingu öflugra og sjálfbærra sveitarfélaga þar sem samfélagslegir og fjárhagslegir hvatar eru til sameiningar.

Mikilvægt er á þeim tímamótum sem við stöndum að horfa til framtíðar og marka stefnu um að störf í orkuvinnslu á Íslandi verði staðsett þar sem verðmætasköpunin á sér stað. Mörkum stefnu um að flytja höfuðstöðvar orkufyrirtækja í eigu ríkisins í nærumhverfi orkuframleiðslunnar og sköpum öfluga starfsaðstöðu og forsendur klasasamstarfs, þekkingarmiðstöðva og rannsóknarsetra víða um land, allt tengt grænni orku.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á ríkisstjórn Íslands að beina þeim tilmælum til stjórnar Landsvirkjunar, stjórnar Landsnets og stjórnar Rarik að hefja stefnumótun til framtíðar þar sem höfuðstöðvar fyrirtækjanna verði í nærumhverfi orkuvinnslunnar. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á stjórn Landsvirkjunar, stjórn Landsnets og stjórn Rarik að hafa frumkvæði að því að móta stefnu til framtíðar um að störf í orkuvinnslu verði byggð upp í nærumhverfi orkuvinnslunnar og höfuðstöðvar verði fluttar til suðurlands þar sem stærsti hluti raforkuframleiðslu Íslands á sér stað.

 

5. Kaldavatnsveitur og heitavatnsveitur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

​Í sveitarfélaginu er fjölmargar hitaveitur og nokkrar kaldavatnsveitur. Nokkrir bæir hafa eigið vatnsból og hitaveitur. Eðli málsins samkvæmt getur verið erfitt að halda uppi öflugu veitukerfi í jafn mörgum litlum veitufyrirtækjum. Að mati sveitarstjóra felast mikil tækifæri í því að koma á fót einu öflugu veitufyrirtæki í öllu sveitarfélaginu sem myndi sjá um uppbyggingu og þjónustu á heitu og köldu vatni um allt sveitarfélagið. Þannig væri hægt að tryggja betra rekstraröryggi fyrir notendur, ásamt því að tryggja aðgengi sem flestra að öruggu heitu og köldu vatni.

Sveitarstjóri óskar eftir heimild sveitarstjórnar til að kanna vilja allra veitufélaga í sveitarfélaginu að því að sem flestar veitur verði sameinaðar í eitt félag sem sveitarfélagið sér um uppbyggingu og rekstur á.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að fela sveitarstjóra að kanna möguleika á sameiningu veitufélaga í sveitarfélaginu og kynna niðurstöðuna fyrir sveitarstjórn.

 

6. Viljayfirlýsing um uppbyggingu Landnýtingar ehf á matvælaframleiðslu í Árnesi

​Lagt fram til samþykktar samkomulag milli Skeiða- og Gnúpverjahrepps er skuldbindur Skeiða- og Gnúpverjahrepp til að útvega lóð og innviði til þess að uppbyggingaráform Landnýtingar ehf geti náð fram að ganga. Landnýting stefnir að uppbyggingu mikillar framleiðslu á grænmeti til útflutnings. Framleiðslan yrði fyrsti stórnotandi á rafmagni í grænmetisframleiðslu á Íslandi.

Á grundvelli samkomulagsins er stefnt að skuldbindandi samningi innan 12 mánaða.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum framlagt samkomulag við Landnýtingu ehf. Sveitarstjóra falið að undirrita samkomulagið.

 

7. Heimreiðar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

​Sveitarstjóri leggur fram drög að reglum um kostnaðarþátttöku Skeiða- og Gnúpverjahrepps við lagningu bundins slitlags á heimreiðar í sveitarfélaginu.

Mikilvægt er að huga að bættum samgöngum í sveitarfélaginu. Ástand heimreiða er almennt ekki gott sökum lítils viðhalds Vegagerðarinnar á heimreiðum. Einungis er heflað 1-2 sinnum á ári og miðað við það fjármagn sem Vegagerðin hefur til að bera nýtt efni í malarvegi er gert ráð fyrir að bera í vegi á 35 ára fresti. Afleiðing slíkrar stefnu mun ávallt þýða mjög lélegt ástand vega.

Með því að samþykkja reglugerð um kostnaðarþátttöku í lagningu bundins slitlags er gætt jafnræði og allir íbúar geta sótt um. Umsóknir þurfa að berast fyrir 1. september ár hvert vegna möguleika á að bundið slitlag verði lagt á á komandi ári. Þá er hægt að gera kostnaðaráætlun fyrir verkið og ganga frá drögum að samningum áður en fjárhagsáætlun næsta árs verður samþykkt í nóvember ár hvert.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum nýjar reglur um kostnaðarþátttöku Skeiða- og Gnúpverjahrepps við lagningu bundins slitlags á heimreiðar í sveitarfélaginu

 

8. Heilsugæsla í Uppsveitunum

Sú óvissa sem komin er upp í málefnum Heilsugæslunnar í Laugarási hefur skapað mikla óánægju hjá fjölda íbúa í sveitarfélaginu. Bakvöktum lækna hefur verið sagt upp frá og með 1. september 2023 án nokkurs samráðs við sveitarfélögin hefur sett heilbrigðisþjónustu allra íbúa í uppsveitunum í mikið uppnám.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram:

Heilsugæslan verður styrkt enn frekar sem fyrsti viðkomustaður notenda og byggð upp þverfagleg teymisvinna þar sem unnið er að stöðugum umbótum. Heilsugæslan verður leiðandi þáttakandi í heilsueflingu og aðgerðaráætlun um lýðheilsu og forvarnir. Þjónusta verður aukin og heilsugæslustöðvum fjölgað til að minnka álagið á aðra viðkomustaði á borð við bráðamóttökuna.

Ljóst er að núverandi staða í málefnum heilsugæslunnar í Laugarási er í mikilli þversögn við stefnu ríkisstjórnarinnar og við slíkt verður ekki unað. Íbúafjöldi í Uppsveitunum er um þrjú þúsund og eru á svæðinu um það bil sex þúsund sumarhús. Það gerir það að verkum að um helgar má gera ráð fyrir á annan tug þúsunda íbúa á svæðinu ásamt því að fjölmennustu ferðamannastaðir landsins eru í uppsveitunum. Fjöldi íbúa, sumarhúsaeigenda og ferðamanna á svæðinu hleypur því á tugum þúsunda daglega. Samkvæmt gögnum frá lögreglu er viðbragstími sjúkrabíla langt frá því að vera ásættanlegur í Uppsveitunum. Á komandi árum mun verða veruleg íbúafjölgun á svæðinu ásamt því að allar spár til framtíðar gera ráð fyrir auknum straumi ferðamanna um svæðið. Mikilvægt er því að efla starfsemi heilsugæslunnar til framtíðar í samræmi þá fjölgun sem verður á næstu árum og samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Tímabært er að farið verði í greiningu á uppbyggingu heilsugæslunnar til framtíðar í Uppsveitunum, með það að markmiði að þjónustan verði bætt. Komið verði á fót læknavakt á starfsstöð heilsugæslunnar í Uppsveitunum sem hægt sé að koma í samdægurs ásamt því að tryggð verði viðvera lækna og sjúkrabíla sem sjá um fyrsta viðbragð í Uppsveitunum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á HSU og heilbrigðisráðherra að bregðast við þeirri óvissu sem hefur skapast síðustu vikur og mánuði um heilsugæsluna í Uppsveitunum. Nauðsynlegt sé að vinna í samstarfi við sveitarfélögin og íbúa að farsælli uppbygginu heilsugæslu í Uppsveitunum til framtíðar.

 

9. Áskorun frá Kvenfélögum í Uppsveitum Árnessýslu

​Lögð fram áskorun frá kvenfélögunum í Uppsveitum Árnessýslu, en þar koma fram miklar áhyggjur kvenfélaganna af stöðu heilsugæslumála á svæðinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps tekur undir áhyggjur kvenfélaganna í Uppsveitum Árnessýslu og hvetur yfirstjórn HSU og alla annarra hagaðila sem fram koma í áskorun kvenfélaganna að vinna að farsælli uppbyggingu heilsugæslu í Uppsveitunum.

 

10. Umsögn til starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu

Lögð fram umsögn sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps til starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu sem stofnaður var að fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum framlagða umsögn til starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu og felur sveitarstjóra að skila umsögninni í samráðsgátt stjórnvalda.

 

11. Umsögn um grænbók um skipulagsmál

Í samráðsgátt stjórnvalda er grænbók um skipulagsmál. Umsögn er í vinnslu og verður send á sveitarstjórnarfulltrúa til samþykktar fyrir skilafrest sem er 26. ágúst.

 

12. Erindi frá ADHD samtökunum

Lögð fram beiðni frá ADHD samtökunum um samtarf við Skeiða- og Gnúpverjahrepp um aukna fræðslu og þjónustu í sveitarfélaginu um ADHD og fyrir fólk með ADHD. Einnig óskað eftir 250.000 kr. í styrk.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vísar málinu til skólanefndar til umfjöllunar og athugunar hvort þörf sé á aukinni fræðslu tengt ADHD í skólum sveitarfélagsins.

 

13. Umsagnarbeiðni - rekstrarleyfi

Umsókn um nýtt rekstrarleyfi fyrir gistingu í flokk II G, Íbúðir að vorsabæ 1A, Country cottage. Umsækjandi Hrafnhildur H. Guðmundsdóttir

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við umsókn um rekstur gististaðar í flokki II- G Íbúðir.

14. Samþykkt umsókn um nýjan héraðsveg

Lögð fram til kynningar samþykkt Vegagerðarinnar um nýjan héraðsveg að bænum Móholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

15. Aðalfundur Vottunarstofunnar Túns ehf. Lagt fram til kynningar aðalfundarboð Vottunarstofunnar Túns ehf.

16. Aðalfundarboð Hitaveitufélags Gnúpverja

    Aðalfundur Hitaveitufélags Gnúpverja verður haldinn mánudaginn 21. ágúst.

    Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps felur sveitarstjóra að mæta á fundinn fyrir hönd Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

17. Fundargerðir Afréttarmálanefndar

Fundargerðir Afréttarmálanefndar nr. 5, 6 og 7 lagðar fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12:10. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 6. september, kl. 9.00, í Árnesi.