Sveitarstjórn

20. fundur 03. maí 2023 kl. 09:00 - 13:00 Árnes
Nefndarmenn
  • Haraldur Þór Jónsson
  • Vilborg Ástráðsdóttir
  • Bjarni H. Ásbjörnsson
  • Gunnar Örn Marteinsson
  • Karen Óskarsdóttir
Starfsmenn
  • Sylvía Karen Heimisdóttir
Fundargerð ritaði: Sylvía Karen Heimisdóttir

Spurðist oddviti fyrir um hvort athugasemdir væru við fundarboðið, svo reyndist ekki vera. Óskaði oddviti eftir því að fá að bæta við einu máli á dagskrá, síðari umræðu að ársreikningi Hitaveitu Brautarholts. Var það samþykkt samhljóða og verður þetta mál nr. 3. Færast aðrir dagskrárliðir neðar sem því nemur.

Mál til afgreiðslu og umfjöllunar:

  1. Skýrsla sveitarstjóra á 20. sveitarstjórnarfundi

Sveitarstjóri fór yfir stöðu á eftirfarandi verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta sveitarstjórnarfundi:

Óvissuferð starfsmanna SKOGN

Auka aðalfundur Samtaka Orkusveitarfélaga

Heimsókn Flóahrepps

Fundur með Landsvirkjun v/Veiðifélag Þjórsár

Undirbúningur framkvæmda í Leikholti

Fundur með forstjóra Landsvirkjunar

Vindorkuferð til Noregs

Náttúruverndarþing Landverndar í Árnesi

Fundur með Veiðifélagi Þjórsár og Landsvirkjun

Málefni Heilsugæslunnar í Laugarási og fundur með HSU

Fundir með ráðherrum v/orkumálanna

Fyrirhugaður íbúafundur 3. maí

Stjórnendateymi í Þjórsárskóla

 

2. Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2022 - seinni umræða

Ársreikningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2022 lagður fram til seinni umræðu. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.091,5 millj. kr. í A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.036,6 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 115,3 millj. kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 109,2 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 961,7 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi en eigið fé A hluta nam 1.017,2 millj. kr.

Búið er að innleiða reglugerðarbreytingu nr. 230/2021 vegna reikningshaldslegrar meðferðar á samstarfsverkefnum með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélagsins vegna ársins 2022 og 2021.

Útsvarstekjur hækkuðu um 30. millj á milli ára og útsvarstekjur og fasteignaskattur um samtals 56 millj kr. Heildartekjur eru samtals 1.092 millj. kr. og rekstrarkostnaður um 904 millj kr. Skuldahlutfall samstæðunnar lækkar á milli ára úr 49,4% í 38,8%. Engin lán voru tekin hjá sveitarfélaginu á árinu en lán voru tekin hjá samstæðuverkefnunum.

Handbært fé á reikningum sveitarfélagsins og B hluta fyrirtækja voru um 127 millj. kr.

Jafnvægisregla rekstrarjöfnunar er 71,6 millj. kr. og skuldaviðmið skv. reglugerð 9,9% og lækkar úr 27,9% frá árinu áður.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir ársreikninginn með fimm atkvæðum og staðfestir hann með undirritun. Íbúafundur verður haldinn í kvöld, 3. maí 2023 í Árnesi kl. 20:00 þar sem Haraldur Örn Reynisson endurskoðandi kynnir ársreikninginn.

 

3. Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts 2022- seinni umræða.

Ársreikningur Hitaveitu Brautarholts 2022 lagður fram til seinni umræðu. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 1,3 millj kr. Rekstrartekjur námu 4,1 millj. kr. og hækkuðu um 0,5 millj. kr. á milli ára eða um 14%. Eigið fé um 14,4 millj. kr. og skuldir námu 558 þús.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir ársreikninginn með fimm atkvæðum og staðfestir hann með undirritun

 

4. Fjárhagsáætlun 2023 Viðauki I

Lagður er fram Viðauki I við fjárhagsáætlun.

Núverandi fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að í Skeiðalaug yrði varið 60 milljónum í fjárfestingu og 10 milljónum í viðhald, samtals 70 milljónir. Viðaukinn lækkar heildarkostnað við Skeiðalaug úr samtals 70 milljónum niður í 50 milljónir sem skiptist í 30 miljónir í fjárfestingu og 20 milljónir í viðhald. Gert er ráð fyrir kaupum á lóð í Árnesi og girðingum til að afmarka lóðina, samtals að fjárhæð 19,5 millj. Gert er ráð fyrir tekjum á móti fjárfestingu, v. lóðagjalda 3,6 milljónir. Gert er ráð fyrir auka 7 milljónum í tekjur v. útboðs í vikurnámur eða samtals 23 milljónum á árinu 2023. Gert er ráð fyrir endurgreiðslu kostnaðar v. vinnu á skrifstofu við yfirferð gagna og aðra vinnu tengdri umsókn um framkvæmdaleyfi við Hvammsvirkjun. Aukið er við kostnað tölvukerfis um 2 millj v. innleiðingar á Workpoint og rafrænum undirritunum og kostnað v. ferðalaga nemenda í Þjórsárskóla um 1,5 millj eða samtals 2,3 millj á árinu 2023. Að auki er gert ráð fyrir auknu framlagi til SASS að fjárhæð 750 þús vegna samstarfsverkefna. Gert er ráð fyrir auknu framlagi frá Jöfnunarsjóði vegna framlags til grunnskóla og samþættingarframlags í samræmi við aukið framlag frá ráðuneytinu núna í apríl, samtals 3,6 millj.

Áhrif viðaukans á fjárfestingar er lækkun upp á 14,1 milljón. Samtals fjárfestingar á árinu fara því úr 219 millj í 204,9 millj. Hagnaður hækkar um 6,4 milljónir og er 19,1 milljón árið 2023. Áhrif viðaukans á handbært fé er hækkun upp á 20,4 millj.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum viðauka I við fjárhagsáætlun 2023 og felur fjármálastjóra að tilkynna hann til viðkomandi aðila.

 

5. Kauptilboð - Þingbraut athafnasvæði

Lagt fram kauptilboð í athafnasvæði við Þingbraut í Árnesi. Um er að ræða 6,7 hektara svæði með skipulögðum 10 lóðum við Þingbraut, merkt 1, 3, 5, 7, 9, 11, 13, 15, 17, undir iðnaðar- og athafnasvæði. Tilboðsfjárhæð er 18 milljónir. Kauptilboðið er samþykkt af tilboðshafa og tilboðsgjafa, með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Sveitarstjóri óskar eftir samþykki sveitarstjórnar á kauptilboðinu.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum framlagt kauptilboð að upphæð 18 milljónir. Fjárfesting er innan fjárfestingaráætlunar fjárhagsáætlunar. Sveitarstjórn veitir sveitarstjóra umboð til að skrifa undir og ganga frá kaupsamningi og afsali.

6. Hvammsvirkjun - staða á vinnslu umsóknar um framkvæmdaleyfi

Sveitarstjóri fer yfir stöðuna á umsókn um framkvæmdaleyfi Hvammsvirkjunar og þá vinnu sem búið er að vinna frá því umsóknin barst 14. desember 2022. Lögð fram drög að greinagerðinni sem lýsir framkvæmdinni og tilgreinir alla fyrirvara framkvæmdaleyfisins.

 

Karen Óskarsdóttir óskaði eftir fundarhléi. Tekið hlé í 10 mínútur.

 

Karen Óskarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

Ég sem kjörinn fulltrúi get ég ekki fallist á að ófullkomið mat á áhættu fyrir íbúa sveitarfélagsins verði lagt til grundvallar ákvörðun ef veita á framkvæmdaleyfi Ég legg til að sveitarstjórn ákveði að leita eftir rýni óháðs sérfræðings á fyrirliggjandi áhættumati, sem liggja skuli fyrir við afgreiðslu leyfisbeiðnar. Við rýnina verði gerð grein fyrir hvert sé formlegt og efnislegt gildi fyrirliggjandi áhættumats Landsvirkjunar frá 2008.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fá Veðurstofu Íslands og Almannavarnir til fundar með sveitarstjórn vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Þjórsá.

7. Skipun ungmennaráðs og gögn af ungmennaþingi

Ungmennaþing var haldið í Skeiða- og Gnúpverjahreppi laugardaginn 15. apríl 2023. Á þinginu voru kosin í sæti í ungmennaráði og fengu flest atkvæði Emelía Karen Gunnþórsdóttir, Magnús Arngrímur Sigurðsson, Véstein Loftsson og Haukur Arnarsson.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með 5 atkvæðum að skipa Emelíu Karen Gunnþórsdóttir, Magnús Arngímsson, Véstein Loftsson og Hauk Arnarsson í Ungmennaráð.

 

8. Beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfis

Lögð fram umsagnarbeiðni vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokk II – H Frístundahús að Áshildarvegi 1, fasteignanr. F232-4299, umsækjandi Tónsmiðjan ehf.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við umsókn um rekstur gististaðar í flokki II.

 

9. Samtök orkusveitarfélaga. Fundarboð - Orkufundur 2023

Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga boðar til Orkufundar 2023 þann 10. maí nk. kl. 10:00-12:00 á Hótel Hilton, Reykjavík. Fundinum verður einnig streymt.

10. Samráð um sjálfbært ísland

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra býður til opinna samráðfunda um landið um sjálfbæra þróun á Íslandi. Fundarboð lagt fram til kynningar.

11. Samtök orkusveitarfélaga Fundargerðir stjórnar

Fundargerðir 59. og 60. fundar stjórnar lagðar fram til kynningar

12.  Framkvæmdaráð Almannavarna Árnessýslu. Fundargerð

Fundargerð 2. fundar framkvæmdaráðs Almannavarnar Árnessýslu og fundargerð Almannavarnarnefndar Árnessýslu frá 17. janúar 2023 lagðar fram til kynningar.

13. Samtök orkusveitarfélaga. Fundargerð aukaaðalfundar

Fundargerð aukaaðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga 2023 lögð fram til kynningar.

14. Samband íslenskra sveitarfélaga. Fundargerðir stjórnar

Fundargerðir stjórnar Sambands Íslenskra sveitarfélaga 922., 923. og 924. fundar lagðar fram til kynningar

15. Sorpstöð Suðurlands. Fundargerð stjórnar

Fundargerð SOS frá 17. apríl 2023 lögð fram til kynningar

16. Nefnd Þjóðveldisbæjar. Fundargerðir

Aðalfundargerð 1. stjórnarfundar 2023 lögð fram til kynningar ásamt ársreikningi fyrir árið 2022. Skipunartími núverandi fulltrúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps rennur út í júní 2023 og þarf sveitarstjórn að skipa nýjan fulltrúa í stjórnina.

17. Rangárbakkar. Aðalfundargerð

Fundargerð aðalfundar Rangárbakka ársins 2022, þjóðarleikvangs íslenska hestsins ehf, lögð fram til kynningar

18. Fundargerðir 9. og 10. fundar Héraðsnefndar Árnesninga

Fundargerðir 9. og 10. fundar Héraðsnefndar Árnesinga lagðar fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 12.45. Næsti fundur sveitarstjórnar ákveðinn miðvikudaginn 17. maí, kl 09.00, í Árnesi.